Fálkinn


Fálkinn - 03.05.1965, Blaðsíða 20

Fálkinn - 03.05.1965, Blaðsíða 20
STIJLKAN SEM REYNDI ÖLLIJM TIL IIÆFIS JA, ég hafði svei mér nóg að gera við að taka afrísku djöfla- grímurnar ofan af veggjunum og matreiða kvöldverðinn handa Christopher Bailey, án þess að sú ógæfa bættist við, að hr. Jones hyrfi úr húsinu. Ef þið getið ímyndað ykkur sex feta háan dverg, þá er það hr. Jones. Hann hefur sko andlit eins og góðu dvergarnir í ævintýrunum, býr uppi á fjórðu hæð og ér snillingur að gera við hluti, og ég vissi upp á hár, að hann gæti lagað stífluna í vaskinum mínum, bara ef hann léti sjá sig. Ég veit ósköp vel, að stíflaður vaskur er ekki neinn alvar- legur harmleikur, ög maður ætti að geta hlegið að svoleiðis smáóhappi og yppt öxlum, en nú var Christopher Bailey væntanlegur í sína fyrstu heimsókn til mín, og fyrir bragðið langaði mig ekki til neins nema að æða fram og aftur um gólfið rífandi hár mitt og æpandi hástöfum. Og ekkert mátti ég síður láta eftir mér í návist Christophers. Hann þjáist af taugaspennu og sækist eftir rólyndum stúlkum sem tala lágt og þýðlega og umkringja sig daufum ljósum, mjúkum litum og friðsælli kyrrð. ÉG er ekki að segja, að ég myndi hafa hent mér í sjóinn, ef Christopher hefði hætt við mig, en hann var í alvöru talað alveg maðurinn handa mér. Ég hefði svo sem ekki þurft að sitja heima og horfa á gamlar kvikmyndir í sjónvarpinu, þótt hans hefði ekki notið við, en á mínum aldri eru vinsældir ekki æðsta takmarkið, heldur hjónaband. Ég þekkti nóg áf strákum til að fara út með og skemmta mér, en það varð leiðigjarnt til lengdar, og nú vildi ég fara að festa ráð mitt. Þess vegna varð ég svona örvilnuð þegar vaskurinn stíflaðist rétt áður en von var á Christopher og þegar hr. Jones var hvergi nálægur, blessaður vinurinn. Ég hafði ýtt miða undir hurðina hjá honum og fór að losa eiturörvapípurnar af veggj- unum. T OKSINS heyrði ég hann berja að dyrum. „Komið inn, kæri hr. Jones,“ hrópaði ég þakklát, „og bjargið lífi mínu.“ „Því miður á ég ekkert móteitur við þessum örvum,“ sagði framandi rödd. „Hvar hittu þær yður?“ Þegar ég sneri mér við, var hann að skoða mig eins og hann hefði í raun og veru áhuga á að vita það. Þetta var örugg- lega ekki hr. Jones. Hann var minnst fimm sentímetrum hærri og fjörutíu árum yngri. „Ég heiti Martin Dean,“ sagði hann, „og bý núna í íbúð hr. Jones. Ég stóðst ekki skilaboðin yðar.“ Hann hélt á mið- anum og las upphátt: „Kæri hr. Jones. Hjálp! Það er hekluð armhlíf í frárennslisrörinu mínu.“ „Hvar er hr. Jones?“ spurði ég. „Vonartdi ennþá einhvers staðar í húsinu." „Hann er fluttur til Skotlandsi Ég var áður í kjallaranum, en fékk nú íbúðina hans í staðinn." „Æjá, ég hef séð yður. Það eruð þér sem alltaf eruð að glápa á stelpurnar þegar þær sóla sig á þakinu.“ Ég hneig niður í stól. „Jæja, þá er víst öll von úti. Þér eruð sennilega tkki pípulagningamaður að atvinnu . .. eða hvað?“ ATVINNA mín er að fljúga níutíu og sex farþega þotu,“ sagði hann. „En það er hugsanlegt að ég gæti samt gert við eldhúsvaskinn." „Ja, ég myndi ekki biðja yður um annað eins, ef ég væii ekki stödd í hinni voðalegustu neyð,“ sagði ég, því að ég sá, i ö' að hann var í sparifötunum. „En ég skal láta yður fá svuntu.“ Hann fór úr jakkanum, og ég trítlaði á undan honum fram í eldhúsið. „Þannig er mál með vexti,“ sagði ég um leið og ég hnýtti á hann svuntu þrátt fyrir mótbárur hans, „að það er ekki hægt að segja manni eins og Christopher Bailey, að eldhús- vaskurinn hafi skyndilega stíflazt. Þetta á að verða honum sefandi kyrrlát kvöldstund. Ég er að reyna að skapa handa honum svala græna eyðimerkurvin.“ „Hvað gerir hann? Er hann úlfaldareki?“ „Hann er fulltrúi hjá stóru auglýsingafyrirtæki,“ sagði ég með stillilegum virðuleika. „Taugaspenntur, útþrælkaður og örmagna fulltrúi. Og nú, hr. Dean, þó að ég hafi mikla ánægju af samræðunum við yður, vildi ég heldur biðja yður að byrja að fást við vaksinn." GOTT og vel,“ sagði hann og bretti upp ermarnar, „en í hreinskilni mælt ætlaði ég sjálfur að njóta friðsællar hvíldar í kvöld. Ég er búinn að hanga yfir sjóðheitu mæla- borði alla leiðina frá Bombay og er orðinn dauðþreyttur.“ „Æ, það er synd,“ sagði ég og rétti honum skrúflykil. „Ég sé að það tekur mjög á yður,“ sagði hann. „Fyrirgefið,“ sagði ég, „en þessa stundina mega engar gagn- stríðandi geðshræringar komast að hjá mér, því að ég verð að beina huganum algerlega ótrufluðum að Christopher. Ég er viss um, að ljóshærða hnátan sem bíður yðar, bætir þettá alveg upp á eftir,“ „Hm,“ sagði hann. „Heyrið þér annars, hvernig komst arm- hlífin niður í frárennslisrörið?" „Það er allt út.af henni Geraldine frænku," sagði ég. „Hún stendur nefnilegá í þeirri meiningu, að stúlka sem kann að hekla, sé miklu öruggari ein síns liðs í stórborg en stúlkur sem fara út á hverju kvöldi. Hún kemur að heimsækja mig einu sinni í mánuði, og af því að ég vil ekki, að hún hafi neinar áhyggjur, var ég að reyna að klára armhlífina og — ó, hjálpi mér, nautakjötið er að brenna við!“ Ég hellti meira rauðvíni yfir það og hreyfði það með sleifinni. ÞEGAR ég leit aftur við, var Martin Dean búinn að skrúfa1 allt i sundur fyrir neðan vaskinn og stykkin lágu eins og hráviði um gólfið. „Ég er hræddur um, að vatnslásinn sé' ónýtur,“ sagði hann. „Þér verðið að fá pípulagningamann til að skipta um.“ Mér varð svo um, að ég hallaði mér upp að ísskápnum og fór að gráta. Já, svei mér þá. Ég var svo þreytt og sorgbitin. Hugsið ykkur bara, þegar stúlka er orðin 26 ára og sér sein-1 ustu von sína verða að engu út af ónýtum vatnslás — þá er engin furða þótt hún geti ekki tára bundizt. Martin Dean stóð þarna vandræðalegur á svipinn og ergileg- ur, og loks sagði hann: „Jæja, jæja, hættið að gráta. Ég kem eftir augnablik.“ Ég bjóst ekki við að sjá hann aftur. Ég hélt, að hann væri; farinn á stefnumótið við ljóshærðu hnátuna sína, og ég gat ekki áfellzt hann fyrir það. EN fimm mínútum seinna birtist hann í dyrunum. „Þessir vaskar eru allir eins,“ sagði hann sigri hrósandi, „svo að ég kom með vatnslásinn úr mínum.“ Ég þurrkaði mér um augun með þvottastykkinu. „Hr. Dean, þér eruð áttunda undur heimsins. Ef ég stíg nokkru sinni fæti mínum upp í þotu, skal ég panta far hjá yður.“ 20 FALKINN

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.