Fálkinn


Fálkinn - 16.05.1966, Blaðsíða 15

Fálkinn - 16.05.1966, Blaðsíða 15
bókmenntir, bæði að vöxtum og gæðum, og furðulega fjöl- skrúðugar. En þessar tæknilegu aðstæður: að bækur voru skrifaðar en ekki prentaðar, og skrifaðar á skinn en ekki á pappír, hafa ugglaust haft mikil áhrif bæði á efni bókmennt- anna eða efnisval, list þeirra og þróun. Og vissulega hefur þessi forna bókagerð, sem var frumstæð í eðli sínu þótt hún væri háþróaður listiðnaður, orðið afdrifarík fyrir varðveizlu bókmenntanna og stundum valdið dauða einstakra ritverka. Mér er tamt að hugsa mér að 1 öndverðu hafi bókmenntir okkar verið sérgrein fárra útvalinna manna, en síðar meir verði leskunnátta og bókaeign almennari, og þetta hafi áhrif á þróun bókmenntanna, smám saman verði til „listin handa fólkinu“. í öndverðu er hið dýra bókfell og mikla vinna við bókagerðina aðeins á færi auðugra manna eða kirkjulegra stofnana; þá eru bókmenntirnar fræðilegar, eða að minnsta kosti með raunsæjum blæ, og þegar fram líður gerðar af miklu listfengi. Þetta eru bókmenntir 12. og 13. aldar. En með vax- andi hluttöku fjöldans verða bókmenntirnar að mestum hluta ýktar og draumkenndar, griðastaður og sælustaður bak við fátækt og þjáningu raunveruleikans. Þá erum við komin fram á 14. og 15. öld. Að lokum sprengir hugarflugið öll bönd Og sagnaritunin gliðnar í sundur, rómantískar ýkjur aldar- farsins eiga hvergi heima nema í bundnu skáldamáli, en þar lifa þær áfram, í rímunum sem kveðnar eru í rökkurskímu kvöldvökunnar. Þessi hugmynd verður máske bezt skýrð með dæmum. Elzta rit íslenzkt, næst eftir lögunum, mun vera íslendinga- bók Ara fróða, rituð ekki löngu eftir 1122. Hún er þurrt og gagnort ágrip af sögu landsins fram til þessa tíma. Þá situr kirkjuleg lærdómsstefna enn í fyrirrúmi. Elzt svokallaðra íslendingasagna mun vera Heiðarvígasaga, líklega rituð seint á 12. öld. Þar er sagnfræðin á undanhaldi, en listin í deiglunni; sagan er yfirbragðsmikil, en tungutakið ekki fullheflað. Næst má nefna Egilssögu frá tímanum kringum 1230, þar má segja að sagnfræði og list, raunsæi og ýkjur vegi salt í réttu mund- angshófi. Erlend áhrif bætast við sem þáttur í þróuninni, áhrif suðrænna, rómantiskra riddarasagna, og gætir þeirra einna fyrst í Laxdælu frá miðri 13. öld. Á hvörfunum yfir á ýkju- sagnaskeiðið stendur Njála, rituð laust fyrir 1300, henni hef- ur verið líkt við ávöxt sem er sætur af því að hann er að byrja að skemmast: lýsingar sögunnar á íþróttum og vopna- burði eru til dæmis með algerum ólíkindum, en miklum glæsi- brag og skáldskaparlist. Síðar koma sögur sem misst hafa nálega alla fótfestu í veruleikanum: fornaldarsögur svo sem Hrólfssaga kraka og Völsungasaga, innlendar riddarasögur svo sem Mágussaga og Konráðssaga, og yngstu íslendingasög- ur svo sem Bárðarsaga og Víglundarsaga. Þegar ein bók hefur verið prentuð nú á dögum, þá er með nokkurri vissu séð fyrir því að ritverkið sem prentað er glatast ekki þaðan af: bókasöfn og bókasafnendur verða, nauð- ugir viljugir, að ætla bókinni pláss í skápnum sínum. Þótt eitt eintak fari forgörðum, brenni í eldi eða lendi á ösku- haugnum, þá hefur upplagið verið að minnsta kosti þúsund eintök, og eru þá 999 eftir til vara. En þessu er öðruvísi háttað um þá bók sem aðeins er til skrifuð, hvort sem það er á skinn eða pappír: Bókfellið velkist, og stafirnir fyrnast og fúna. í fyrstu er aðeins til eitt eintak verksins: eiginhandarrit höf- undar, eða stundum máske handrit sem skrifari hefur ritað eftir fyrirsögn hans. Vinsældir verksins, eða duttlungar ör- laganna ráða því hvort aðrir menn koma síðan til skjalanna og skrifa það upp á nýjan leik. Höfundurinn kann að vera umkomulítill eða lítt við alþýðu skap, og getur þá svo farið að aldrei verði gert neitt eftirrit eftir frumriti hans. Þá er nú ekki á góðu von. Einhverjir verða samt til að glugga í bókina, hún slitnar og óhreinkast, jaskast og losnar úr band- inu. Tíminn líður, öldin breytist, og nýr bókmenntasmekkur drottnar í landi; svo erfitt sem ritið átti uppdráttar í fyrstu þá verður nú enn þyngra fyrir fæti, enginn metur nokkurs þessa gömlu, óhreinu og torlæsilegu skræðu; þar kemur að hún er rifin í sundur, blað fyrir blað, og skinnið tekið til hagkvæmra nota: lagt innan í opna skó, eða sniðið í bætur á sjóklæði, og segir þá ekki af því meir. Oft hafa blöð úr stórum gömlum skinnbókum verið brotin sem hlífðarkápur utan um minni kver, ekki sízt utan um prentaðar bækur á seinni öldum, og hafa mörg slík blöð varðveitzt til okkar daga. Er þá önnur blaðsíðan oft sæmilega læsileg, sú sem inn hefur snúið, en litlar menjar sjást af því letri sem staðið hefur utan á kápunni. Svona hefur til að mynda verið farið' Efri myndin er af blaði úr Ölafs sögu helga hinni elztu, fslenzkt handrit frá ca. 1225; handritið var klippt niður í snepla og notaS í bókband í Noregi. NeSri myndin er af vaxspjöldum. FALKINN 15

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.