Vikan


Vikan - 14.03.1963, Blaðsíða 10

Vikan - 14.03.1963, Blaðsíða 10
UÐSVEIT MYRKURSINS VOPNAÐUR öllum þessum uppfinningum og tölum hóf Wallis nú að sannfæra hina háu herra í Whitehall um, að hann gæti látið sprengju sína sundrast hvar sem hann vildi. Það var örðugt hlutskipti, því stjórnarherrarnir voru sárleiðir orðnir á skýjaglópum með ímyndaðar uppgötvanir. Megnið af því sem þeir höfðu fram að færa, reyndist vera helber vitleysa, og sennilega var gert ráð fyrir hinu sama um hugmynd Walliss. Loks gafst honum tækifæri til að leggja hana fyrir sir Henry Tizard. „Það sem mestu skiptir, er að fá fulla vissu um, að þessi furðulegi hlutur, sem þér hafið fundið upp, verki eins og þér vonizt til,“ mælti Tizard þegar Wallis hafði lokið máli sínu. ,,Á eftir verðum við svo að finna ráð til að leysa hagrænu vandamálin." ,,Því hefi ég einnig hugsað fyrir,“ svaraði Wallis. Hann hafði gengið frá öllum „stíflufræði- legum“ athugunum sínum af fádæma nákvæmni. „í Radnorskíri er lítill stíflugarður, sem ekki kemur að minnstu notum lengur. Hví ekki að sprengja hann í loft upp?“ Uppástungan var samþykkt og Tizard gekk frá öllum nauðsynlegum formsatriðum. Þetta var lítil og lagleg stífla, langt uppi í fjöllum Wales. Var hún fimmtíu metra löng og mjög sterkbyggð. Félag það er átti hana, hafði látið gera aðra og stærri stíflu, eigi all- langt þaðan. Wallis áætlaði að gamla stíflan væri einn fimmti hluti af Möhnegarðinum, og fannst hún afbragðs tilraunalíkan. Hann reiknaði út svo litla hleðslu sem hann þorði af RDX, læsti hana í loftþéttu hylki og sökkti henni djúpt niður í vatnið fast við stíflumúrinn. Hann var þurr í kverkunum af eftirvæntingu. Því næst leitaði hann skjóls bak við klett og þrýsti kveikjuhnappnum í botn. Drynjandi sprenging bergmálaði milli fjallanna. Þrjátíu metra hár vatnsstópi steig uppí loftið, rokna holskeflur risu á vatninu og stórt skarð brotnaði í stíflu- vegginn. Ólgandi vatnsflaumur fossaði niður í vatnið fyrir ofan nýju stífluna. Wallis var eldrauður af æsingu er hann komst að raun um, að fimm metra breitt og fjögurra metra djúpt skarð hafði sprungið í múrinn. Tizard varð stórhrifinn, en hann var einungis ráðgefandi vísindamaður. Nú reið á að vekja áhuga beirra, sem völdin hofðu. Til þess að ná tali af þeim, varð að fara „embættisleiðina", - krókaleiðir voru fáar færar. Og allir embættismenn voru önnum kafnir við önnur hern- aðarlega þýðingarmikil störf. Loks fékk Wallis þó leyfi til að framleiða sex tilraunasprengj- ur af hálfri stærð. Skyldi breyta Wellington-sprengjuflugvél í því skyni að flytja þær á loft. Eftir nokkrar vikur voru sprengjuhylkin tilbúin. Fyllti Wallis þau af hættulausu efni, er vó jafnmikið og hugsanleg hleðsla af RDX tundri. Og hinn 4. desember 1942 kl. 15 lagði Wellingtonvélin af stað frá Weybridge með fyrstu sprengjuna innanborðs, en Mutt Summers tilraunaflugmann Wickers-verksmiðjanna og mikinn vin Wallisar í flugmannssætinu. Sjálfur lá Wallis í hnipri frammi í trjónu vélarinnar, reiðubúinn að varpa sprengjunni úti fyrir Chesil Beach á suðurströnd Englands. Þeir höfðu orðið að fjarlægja sprengjuhlerana, og þessi furðulega sprengja sem hékk undir opinu gerbreytti útliti flugvélarinnar. Loftvarnalið flotans kannaðist ekki við þetta einkennilega flygildi, og hóf skothríð á það til vonar og vara. Voru nú ekki yfirvöldin farin að ganga nokkuð langt í andstöðu sinni við uppgötvun hans? hugsaði hinn friðsami vísindamaður. Þegar þeir voru komnir á móts við Chesil Beach steypti Summers vélinni niður að yfir- borðinu. Wallis þrýsti á leysihnappinn og sprengjan féll. Hún snerti sjóinn og hvarf í ólg- andi löðri og froðuföldum. Þegar ölduganginn lægði, sá hann að athafnir sprengjunnar voru að miklu leyti eins og þær áttu að vera. Þó hafði tilraunin varla náð tilætluðum árangri. Hann var ekki fyllilega ánægður, og þó var ekki hægt að segja að honum hefðu brugðizt vonir. Einhver smámistök höfðu orðið. Hann komst að raun um, að dæld hafði komið 1 sprengjuhylkið, þegar það skall í sjóinn. Er þeir lentu aftur í Weybridge, skipaði hann að hafa þau hylki þykkri, sem eftir voru ósmíðuð. Hinn 12. desember vörpuðu þeir niður sterkari sprengju á sama stað. Sami vatnsstrókur, „Ég er orðinn hundleiður á þessum svokölluðu hugvitsmönnum, sem halda að þeir geti rekið styrjöld betur en við hinir allir til samans,“ rumdi í hershöfðingjanum og hann leit kuldalega til Walliss. en þegar vatnið kyrrðist að þessu sinni, rak Wallis upp siguróp. Sprengjan hegðaði sér óaðfinnanlega. Þrjá næstu daga þar á eftir, vörpuðu þeir Summers og Wallis niður þrem sprengjum til viðbótar. Nú höfðu þeir kvikmyndatökumann með í förinni, og af myndum hans fengu þeir órækar sannanir fyrir því, að sprengjan var rétt byggð. Vegna þeirrar kvikmyndar varð því svo fyrir komið, að Wallis fékk að koma á fund vísindanefndar þeirrar, er hafði með höndum að dæma um ný vopn fyrir birgðamálaráðu- neytið. Vísindamennirnir grandskoðuðu myndina og fóru lofsamlegum orðum um hana. Hinn annan dag febrúarmánaðar var hringt til Wallis. Hann mátti hefja undirbúning að smíði sprengju af fullri stærð. Ánægja hans dvínaði þó nokkuð er honum var jafnframt tilkynnt, að frekara framhald sprengjugerðarinnar væri undir því komið, hvort það tefði vinnu við nýja sprengjuflugvél. Þetta var í byrjun febrúar, en heppilegasti tíminn að sprengja þýzku stíflugarðana var í maí. Árás er síðar væri gerð, myndi að vísu valda Þjóðverjum óþægindum, en ekki jafn gífurlegu tjóni. Þessu átti aðeins að vera unnt að ná á réttum tíma, ef vel gengi. í heila viku mátti heita að Wallis ynni dag og nótt við að fullgera uppdrætti sína, og stóðst á endum, að hann hafði lokið þeim, er hann fékk skyndilega skipun um að hætta verkinu. Það átti ekki að smíða sprengjuna. Wallis beit á jaxlinn. Daginn eftir náði hann í Mutt Summers og bað hann að útvega sér áheyrn hjá Arthur Harris hershöfðingja, yfirmanni Bomber Command — sprengjudeildar lofthersins. Summers þekkti Harris frá fyrri árum ■^O - VIKAN 11. tbl.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.