Vikan


Vikan - 27.06.1963, Blaðsíða 18

Vikan - 27.06.1963, Blaðsíða 18
\ Steinunn S. Briem þýddi. Teikning: Þórdís Tryggvadóttir. MHGDGGWN FRAMHALDSSAGAN 9. HLUTI eftir Elizabet Goudge Hún fann, hversu sorgbitinn hann var hennar vegna, og hún hallaði sér að honum og brosti til hans, þó að hún vissi, að hann væri að hverfa henni. Hún talaði hægt og greinilega, 'svo að rödd hennar næði til hans. „Heyrirðu til mín, ástin mín? . Ég ætla að muna það, sem þú sagðir ... Lífið heldur áfram. Ástin varir að eilífu.“ Lávarðurinn var jarðsettur nokkrum dögum síðar. Það var regn og stormur úti, og Judith braut allar siðareglur með því að standa sjálf við gröfina, þegar lík eiginmanns hennar var látið síga niður. Rigningin lamdi and- lit hennar og rennvætti skikkj- una, og hún starði niður í dimma holuna við fætur sér. Þá fyrst gerði hún sér grein fyrir, hvað gerzt hafði. Ranald var dáinn, og hún hafði drepið hann ... Hún stóð enn hreyfingarlaus, þegar athöfninni var lokið og fólkið farið burt. Angus snerti handlegg hennar, en hún virtist ekki taka eftir því. „Judith húsfreyja!“ sagði hann biðjandi. „Judith húsfreyja! Þú verður að koma heim.“ En hún vildi ekki hreyfa sig, svo að Angus neyddist til að fara og sækja Janet. Hann leit við á leiðinni og sá, að hún stóð enn í sömu sporum, grönn og bein vaxin, undurfögur með ósjáandi augu. Honum leizt ekki á þetta. En þegar þau Janet komu, mættu þau Judith, sem gekk heimleiðis, stillt og róleg á svip. Hún fór inn í stofuna, settist við móeldinn og leyfði Janet að færa sig úr sokkum og skóm og nudda kalda fætur sína. Hún var mild og auðsveip all- an daginn, borðaði það, sem Janet útbjó handa henni, sat við sauma og sýndi engin svipbrigði, en Janet og Angus höfðu þungar áhyggjur af henni. Þegar dimmt var orðið, hinkraði Angus við og horfði á hana, þar sem hún sat og saumaði pilsopið saman, svo að ómögulegt var að komast í flíkina ... Hann var dauðhrædd- ur um hana. Hún var sterk á sál og líkama, taugum og skapgerð, en það voru takmörk fyrir því, sem hægt var að leggja á nítján ára stúlku, án þess að eitthvað brysti ... „Farðu nú að hátta, Angus,“ sagði hún og brosti til hans. „Þú ert dauðþreyttur." „Nei, nei,“ tautaði Angus, en svo leit hann skipandi á hana. „Húsfreyja, þú mátt ekki sofa í vesturherberginu í nótt.“ „Hvers vegna ekki?“ spurði Judith kuldalega. „Það er her- bergið mitt. Ég sagði Janet að búa um mig þar.“ „Nei, þú mátt það ekki,“ sagði Angus, „ég leyfi það ekki.“ Judith leit upp, og augu hennar gneistuðu. „Angus, er ég hús- freyja á þessu heimili eða ekki?“ Honum létti svo, þegar hann sá gamla skaphitanum bregða fyrir, að hann lét undan. Svo byrjaði það. Hún hafði aldrei gert sér ljóst, að hægt væri að þjást svona biturlega. Óham- ingjan yfirbugaði hana svo alger- lega, að allir varnargarðar moln- uðu niður. Hún átti enga trú framar og enga von. Hún trúði ekki lengur á neitt nenia hina hræðilegu staðreynd dauðans. Ranald hafði verið til, og nú var hann það ekki lengur. Ekkert var eftir af öllum hans persónutöfrum, fegurð og styrk- leika, vonum hans og hugsjón- um ... það var allt orðið að engu, og hún hafði tortímt því ... Hún hafði gert það . . . Klukkustundum saman sat hún þarna í stólnum og starði á gluggann. Örvilnun hennar var komin á það stig, að hún hafði ekki hugmynd um, hvað tíman- um leið. Kertin brunnu út, eldurinn slokknaði í arninum, og herbergið var hjúpað myrkri. En Judith veitti því enga eftirtekt. Hún heyrði ekki annað en þytinn í regninu fyrir utan og fótatakið, sem nálgaðist hægt. Hún starði í sífellu á miðgluggann og sá tjöldin bærast. Ranald kom inn . .. Það endurtók sig hvað eftir annað. En nú gat hún hvorki hrært legg né lið, heldur neydd- ist til að sitja kyrr í stólnum og horfa á hann deyja, án þess að hún gæti sýnt honum blíðuatlot. Loks hvarf hann algerlega, og ekkert var eftir nema blóðpoll- urinn á gólfinu. Og hann hvarf líka. Hún kraup á kné á gólfinu, en allt var tómt og ömurlegt um- hverfis hana. Að síðustu fór hún upp í svefn- herbergið sitt og reyndi að sofna. En henni var of .kalt. „Þú verður að sofna, Judith," sagði hún við sjálfa sig aftur og aftur. ,,Þú verður veik, ef þú getur ekki sofið.“ En ekkert dugði. Hún lá graf- kyrr og ísköld eins og Ranald í gröf sinni. „Ástin mín,“ hvíslaði hún. „Ég ætlaði ekki að gera það, ég ætlaði ekki að gera það.“ Én ekkert svar kom. Hún heyrði ekkert hljóð nema í vind- inum fyrir utan. Hún fór að hugsa um alla ættmenn hans, sem dáið höfðu í þessari rekkju á liðnum öldum, og henni fannst hún heyra raddir þeirra í kvein- andi vindinum og fótatak þeirra fyrir utan dyrnar ... Þeir hlutu að vera henni reiðir ... Þessari framandi stúlku, sem hafði myrt eiginmann sinn og vogaði sér þó að kalla sig nafni þeirra ... Henni leið of illa til að geta orðið óttaslegin. Hún hafði aldrei vitað, að sálarkvalir gætu orðið svona óbærilegar ... Þegar Janet kom til hennar morguninn eftir, lá hún enn í sömu stellingum. Hún hafði ekkert sofið. Og þannig hélt þetta áfram marga sólarhringa. Hún vann sín daglegu störf án þess að láta á nokkru bera, en á hverju kvöldi í rökkurbyrjun settist hún í stól- inn og horfði á Ranald koma inn um miðgluggann. Aftur og aftur dó hann við fætur hennar, með- an hún starði á hann, máttlaus af örvæntingu og hjálparvana. Hún var hætt að geta greint mun á draumi og veruleika. Loks hristi hún af sér mókið og hélt til hæðanna. Hún klifraði með erfiðismunum upp á hnjúk- inn, sem gnæfði yfir Kinmohr. Sólin var að koma upp, og lita- dýrðin ljómaði allt í kringum hana, þar sem hún sat og horfði niður í dimman dalinn, sem huldi líkama Ranalds og dauðar vonir hennar sjálfrar í myrkri sínu. Fjallstindarnir umhverfis hana geisluðu í ljósi sólarinnar, og henni fannst þeir minna á kerti kringum líkbörur ... hlýja og fagra loga, sem héldu myrkrinu í skefjum ... Smám saman lifnaði dalurinn við fyrir neðan hana, og hún starði heilluð á töfrandi, óvið- jafnanlega fegurð Kinmohr. Allt í einu vissi hún, hvað hún átti að gera. Þetta var fyrirheitna landið, sæluríkið, sem Ranald hafði þráð að skapa, Útópía ... Hann hafði svarið þess dýran eið, að hætta ekki fyrr en hann hefði gert þennan stað fullkom- inn. Og hún hafði drepið hann, svo að hann gat þáð ekki ... Hún ætlaði að lifa lífi Ranalds fyrir hann og taka upp þráðinn, þar sem hann hafði frá horfið. Hún ætlaði að byggja Útópíu í þessum yndislega dal. Hún vissi vel, að hún myndi ekki geta gert það á áþreifanleg- an hátt. Hún var ein síns liðs og átti engar eignir eða fjármuni. 18 VIKAN 26. tbl.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.