Heima er bezt - 01.04.1958, Blaðsíða 32

Heima er bezt - 01.04.1958, Blaðsíða 32
samræma þessi tvenn sjónarmið. Viðtökurnar, sem Fiskarnir fengu, sýndu bezt, hversu kærkomin bókin var lærðum og leikum. Hún fékk ágæta dóma vísindamanna innan lands og utan, og hún seldist upp á tiltölulega skömmum tíma, sem fágætt er um vísindarit. Hlaut höfundur þar maklega viðurkenningu fyrir fórnfúst starf um áratugi í þágu íslenzkra vísinda og atvinnuvega. Hin nýja útgáfa Fiskanna er ljósprentun hinnar eldri, en við er aukið ritgerðum um þorskinn eftir Jón Jónsson og síldina eftir Árna Friðriksson. Er í þessum ritgerðum dregið fram hið helzta, sem vér vitum nú betur um lífshætti og göngur þessara mestu nvtjafiska vorra en var fyrir 30 árum. Þá lýsir Jón Jónsson þeirn tegundum, sem veiðzt hafa hér við land síðan Fiskarnir komu út fyrst, og skýrir frá aukinni útbreiðslu þeirra tegunda, sem taldar voru sjaldgæfar. Er að þessum viðauka hinn bezti fengur, og eru margar athyglisverðar upplýsingar í greinunum um þorskinn og síldina. Vonandi kunna menn að meta Fiskana jafn vel nú og fyrir 30 árum, og þess megum vér minnast, að hér er ekki einungis um að ræða merkilegt vísindarit, heldur fjallar það um undirstöðu- atvinnuveg vorn, sem tilvera vor hvílir á að verulegu leyti. Magnús Jónsson: Saga Islendinga, IX. bindi. Landshöfð- ingjatímabilið. Reykjavík 1957. Menningarsjóður. Stöðugt þokar áleiðis útgáfu hinnar miklu Sögu íslendinga, er Menningarsjóður gefur út. 1 lok sl. árs kom fyrri hluti níunda* bindis, sem Magnús Jónsson, fyrrv. prófessor, ritar. Segir þar frá þjóðmálum og atvinnuvegum, og er það raunverulega í fyrsta sinn, sem atvinnuvegir þjóðarinnar hljóta það rúm í sögunni, sem þeim ber. Nær bindi þetta einungis yfir um 30 ára skeið, Landshöfð- ingjatímabilið frá 1871—1903. Sagan er skemmtilega og fjörlega rituð, eins og ætíð er, þegar höfundurinn stingur niður penna. Fæst þar glöggt yfirlit um helztu viðburði og hagi þessa tímabils. Annað mál er það, að sumir dómar kunna þar að orka tvímælis, eins og ætíð gerist í slíkum ritum, ekki sízt þegar ritað er um at- burði, sem svo nærri liggja samtíð höfundarins. Beztur þykir mér kaflinn um stjórnmálabaráttuna. Auk þess að lýsa stjórnmálunum sjálfum vefur höfundur inn í þáttum ýmissa þeirra manna, sem mest koma við sögu, án þess þó að persónu- sagan beri þjóðarsöguna ofurliði. Síðari þættirnir um atvinnu- vegina virðast mér lausari í reipum, enda víða vandfarnara með efni, að gera samfellda sögu, en þar sem um stjórnmálin var að ræða. Þannig hefur höf. í seinni þáttunum leiðzt um of til að segja ævisögur fjölmargra manna, sem tæplega eiga heima í þjóð- aisögu, þótt mætir menn væru í byggð sinni eða kaupstað. En í heild er bindi þetta hið læsilegasta og stendur stórum framar sumum hinna fyrri binda í því, að vera saga en ekki sam- tíningur. Mun fleirum fara sem mér, að hlakka til síðara bindisins, sem verður um Menningarmál og Vesturferðir. Endunninningar Sveins Björnssonar. Reykjavík 1957. Isafoldarprentsmiðja. Margar sjálfsævisögur hafa verið skráðar á íslenzku hin síðari árin, og þótt margt hafi verið þar vel sagt og fróðlegt, verður því ekki neitað, að oft hafa söguefnin verið rýr, og þótt dægrastytting hafi verið að lestri þeirra, þegar vel var frá sagt, hafa sögur þær lítið skilið eftir að lestrarlokum. Endurminningar Sveins Björnssonar, fyrsta forseta íslands, eru einstæðar í íslenzkum ævisögum fram að þessu. Þar segir frá mað- ur, sem stóð í fararbroddi þjóðar sinnar frá ungum aldri. Um langt skeið átti hann þátt í flestum merkustu framfaramálum þjóðarinnar. Siðar skapar hann íslenzka utanríkisþjónustu, og loks verður hann fyrsti íslenzki þjóðhöfðinginn í hinu sjálfstæða lýð- veldi. Enginn íslendingur hefur fyrr átt slíka sögu. En saga Sveins Björnssonar er ekki fyst og fremst mekileg vegna þeirra virðing- arsæta, er hann skipaði, heldur vegna manngildis hans og mann- kosta. Auk þess alls kann hann vel með söguefni sitt að fara. Frá- sögn hans er hispurslaus, án útúrdúra, hlutlæg, og yfir henni hvílir hið rólega heiði hins gætna og lífsreynda manns, þegar hann horfir yfir farinn veg. Bókin gefur oss furðugóða innsýni í þau margbreyttu störf, sem höfundur fór með um dagana. Vér kynnumst þeim örðugleikum, sem íslenzk utanríkisþjónusta átti i, og vér skiljum, þrátt fyrir hófsemi höfundarins, hvílíkt þjóðnytja- starf hann leysti þar af hendi. En vert er að geta þess, að höfund- urinn varast að draga fram sinn hlut í nokkru máli, svo að furðu gegnir. Sveini Björnssyni entist ekki aldur til að ljúka ævisögu sinni. Frásögninni lýkur skömmu eftir heimkomu hans til fslands í byrjun heimsstyrjaldarinnar, og því segir ekkert frá ríkisstjóra- eða forsetaárum hans. Er að því skaði mikill, en þó ber að þakka það, sem til er frá hans hendi, og sannast mun það um þessa bók, að hún mun þykja því merkari, sem lengra líður. Sigurður Nordal prófessor hefur búið bókina til prentunar. Frá- gangur er góður, en mætti þó vera svipmeiri. Minningabók Magnúsar Friðrikssonar, Staðarfelli. Reykjavík 1957. Hlaðbúð. Magnús á Staðarfelli var þjóðkunnur maður á sinni tíð fyrir höfðingsskap og myndarbrag í búskap. Minningabók sú, er nú birtist, allmörgum árum eftir andlát hans, er öðrum þræði saga hans sjálfs, en hins vegar er þar sagður mikill þáttur úr búnaðar- og verzlunarsögu Dalamanna um hans daga, en þar kom Magnús mjög við sögu. Verður bókin þannig merkileg heimild í atvinnu- og aldarfarssögu íslendinga í lok síðustu aldar og upphafi þessar- ar. Frásögnin er skýr og látlaus og sýnir, að höf. vill hvergi halla réttu máli, en hins vegar er hún víða fremur þunglamaleg. Enda þótt höf. hverfi oft sjálfur að baki þeirra atburða, sem hann skýrir frá, eins og góðra sagnamanna er siður, kynnist lesandinn honum furðuvel og það að góðu. Minnisstæðust hlýtur þó að verða hin fáorða lýsing af slysförunum miklu á Staðarfelli 1920, er sonur hans, fóstursonur og fleira heimilisfólk drukknaði á hinn svipleg- asta hátt. Sú frásaga og viðbrögð hans minna helzt á íslendinga- sögur. Og líkt og Egill orti Sonatorrek til að mýkja harma sína og minnast sona sinna, þá reistu þau Staðarfellshjón syni sínum og ástvinum óbrotgjarnan minnisvarða með hinni miklu gjöf sinni, er þau gáfu jörð sína og miklar eignir aðrar til skólahalds. Það varð þeirra Sonatorrek. Dóttursonur höfundar, Gestur Magnússon, hefur búið bókina til prentunar, en Þorsteinn Þorsteinsson, fyrrv. sýslumaður, skrifar inngang að henni. Einar E. Sæmundsen: Sleipnir. Reykjavík 1957. Norðri. Enginn vafi er á, að bók þessi verður kærkomin hestamönnum og öllum dýravinum. Lífi og líðan góðhestsins, sem er aðalsögu- hetjan, er lýst af svo næmum skilningi og samúð, að fátítt er. Mun enginn íslendingur að minnsta kosti hafa iðkað þá list svo vel, síðan Þorgils gjallandi leið. En þótt hesturinn sé kjarni frásög- unnar, verða eigendur hans ekki út undan. Höfundurinn kann vel skil á mannlegum tilfinningum, og þótt auðfundið sé, hvar sam- úð hans er, þá fer því fjarri, að hann skeyti skapi sínu á þeim mönnum, sem honum eru lítt að skapi. Það er auðsætt á þessari bók, að þótt höf. iðkaði lítt sagnagerð, þá hefur hann kunnað að segja sögu á góða islenzka vísu, og grunur minn er, að sagan um Sleypni verði býsna langlíf í landinu, að minnsta kosti á meðan menn kunna að meta kosti góðhestanna. St. Std. 142 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.