Heima er bezt - 01.09.1977, Blaðsíða 26

Heima er bezt - 01.09.1977, Blaðsíða 26
vötnum, sem flestir fóru fram að Réttarholti. Vissi ég, að vondur og djúpur vatnsstokkur var á þeirri leið. Tók ég það ráð að fara suður Hjaltastaðamýrar; er það sá versti mýravegur, sem ég hefi farið á ævi minni, og mikið lán, að ég drap ekki hestana eða slasaði í þeim horngrýtis foræðum. Þá er ég komst á syðri enda á Þormóðsholti, hélt ég áleiðis til Flugumýrar og fór þá um hlaðið og svo það- an beint suður flóann. Var þá komið undir sólarupp- komu. Gott veður var um nóttina með þokuslæðingi, er suddaði úr, en smáskúrum öðru hverju. Var nú birt upp og mikil hitamolla. Sofnaði ég á hestbaki, en vakn- aði við það, að hestarnir báðir lágu niðri í feni og brut- ust um. Valt ég af baki, stóð fljótt upp og dreif hest- inn þann, er ég reið, upp úr og gekk það vel. En Lýs- ingur var dýpra sokkinn og í tagihvarf að aftan; hreyfði hann sig ekkert, hvernig sem ég reyndi við hann. Lá mér þá við gráti og var að hugsa um að hlaupa að Flugu- mýri og fá hjálp, en þorði það ekki, gæti klárinn kafn- að á meðan, því að hann rak snoppuna öðruhverju of- an í fenið upp undir augu. Tók ég nú það til bragðs að ná fiskinum ofan af honum, spretti síðan öllum gjörðum og velti reiðingn- um af. Sló ég nú hestinn með svipu minni. Brauzt hann um ógurlega, en ég bað Guð til liðs af heilum hug. Varð það nú bráðlega, að klárinn komst upp úr. Hét ég því þá, að ég skyldi aldrei fara bænarlaus af heimili og hefi ég efnt það. Hefir Guð líka leitt mig farsællega, þó að slörkulega hafi stundum gengið. Kom ég nú reið- ingnum á hestinn og fiskinum á klakk. En minnisstæð- ur var mér lengi útgangurinn á hestinum, eintóm drulla og aurbleyta frá tagli fram á haus, og fiskurinn litlu betri. Óttaðist ég reiði föður míns, ef hann sæi hestinn þannig útlítandi og fiskinn. Hélt ég nú með mestu aðgætni suður að Dalsá. Vissi ég af lygnum hyl þar í ánni. Út í hann reið ég og renndi mér af hest- inum ofan í ána; tók vatnið mér í mitti. Þarna þvoði ég hestinn og fiskinn rækilega og var nokkuð lengi að því. Að því búnu skólpaði ég ögn af reiðhestinum. Fór svo upp úr ánni og á bak. Var þá sólin að renna upp með blíðuveðri og hita. Þegar ég kom í hlaðið, opnaði faðir minn bæinn. Kom hann glaður til mín og sagði mig velkominn. Fór hann nú að slá mér gullhamra og sagði: „Þú verður ein- hvern tíma góður ferðamaður Simsi minn“. Þá spurði hann mig að körlunum, en ég sagði um þá eins og var, að þeir hefðu ekkert orðið mér að liði. Hann kross- bölvaði þeim fyrir að skilja við mig svona og kvaðst hafa átt annað skilið af þeim, því að faðir minn var hjálpsamur, en þeir fátækir báðir og oft margs þurfandi. Þegar faðir minn fór að spretta af hestinum, spurði hann, hvers vegna Lýsingur væri svona blautur. Hik- aði ég við að svara; þorði ekki að segja frá hrakför minni, því að honum þótti vænt um hesta sína og vildi láta fara vel með þá, enda dýravinur. Sagði ég honum þá, að í nótt hefði verið súld og rigning, og skrökvaði ég því ekki. Aumkvaði hann mig þá; hljóp inn og bað að láta mig hafa þurr föt, því að ég væri holdvotur af rigningu í nótt. Fékk ég þau og háttaði svo fljótlega. Engum þorði ég að segja frá hrakför minni nema móð- ur minni, og gaf hún mér syndakvittun fyrir, því að ég hafði ekki sagt föður mínum um atburðinn í fen- inu. Það dró ég undan, en sagði satt um rigninguna. Hefði hann Iíka orðið vondur, ef ég hefði sagt eins og var frá klaufaskap mínum. III Eftir að faðir minn hætti búskap var hann fyrst í hús- mennsku í Djúpadal með talsvert af skepnum. Var ég hjá honum ásamt tveimur yngstu börnum hans, Guð- rúnu og Vagni. Þá bjó í Torfmýri Jónas Hannesson, bláfátækur. Hann sagði sig til sveitar Vestur í Húna- vatnssýslu, í Bólstaðarhlíðarhreppi að mig minnir. Hann var orðinn heylaus á einmánuði. Kom hann þá upp að Djúpadal og bað föður minn að Ijá sér mig til að reka kindur sínar vestur, og játaði faðir minn því, ef ég vildi fara. Ég var strax til með að fara, því að mig langaði til að sjá ókunna sveit. Þá var ég tæplega 21 árs. Daginn eftir lögðum við af stað. Gekk ferðin vel, því að færð var ágæt. Fórum við að Stóravatnsskarði og gistum þar. Bjó þar Sigurður Benediktsson alkunnur sóma og greiðamaður. Attum við þar ágæta gistingu, og virtist mér þar ekki skortur á neinu, en einmitt þennan vetur og vor 1864 var mjög víða hart um bjarg- ræði hjá almenningi. Um morguninn, er ég var klæddur, leit ég út. Var þá frost cg hreinviðri, og hlakkaði ég til að fara vest- ur. Eitthvert hark heyrði ég, forvitnaðist ég þá um, hvað valda mundi, gekk austur hlaðið að opnum skemmu- dyrum og leit þar inn. Sá ég þar marga nýja söðla og hnakka, því að Sigurður var söðlasmiður. Var hann þar inni, en er hann sá mig, kallaði hann á mig inn til sín. Sýndi hann mér þar marga fallega hluti. Lauk hann upp kistu, tók þar upp úr koníaksflösku og spurði mig, hvort ég gæti þegið hjá sér hressingu. Eg játaði því, því að ég var hneigður til víns. Saup ég vel á og hann líka, þar til ég var orðinn blindfullur og gat varla staðið. Þá leiddi hann mig inn, tók af mér skóna, lagði mig upp í rúm og breiddi ofan á mig. Sagði hann fólk- inu, að mér hefði orðið illt. Ég steinsofnaði og svaf fram undir kveld. Þá reis ég upp og spurði að Jónasi. Sagt var mér, að hann hefði farið um morguninn áleið- is vestur yfir fjall, og lét Sigurður fylgja honum. Sárn- aði mér þá við sjálfan mig og skammaðist mín. Bóndi bauð mér að vera um nóttina, en ég kvað nei við því. Lét hann þá mann fylgja mér ofan undir Víði- mýri. Hét sá Kristján. Sagði hann mér, að Sigurður hefði sagt, að Eiríkur í Djúpadal gerði svo mörgum fátækum gott, að hann ætti það ekki skilið, að börn hans væru að flækjast vestur í sýslu, í helv. hungrið þar. Gramdist mér við Sigurð en bað Kristján, sem oft kom að Djúpadal, að segja ekki frá þessari hrösun minni. Framhald á bls. 306. 302 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.