Heima er bezt - 01.09.1977, Blaðsíða 8

Heima er bezt - 01.09.1977, Blaðsíða 8
Guðrúnar Magnúsdóttur, sem um alllangt skeið réðu húsum í Jórvík í Hjaltastaðaþinghá á Héraði, þekkt að ráðdeild og sæmd. Ragnhildur var glæsikvendi í sjón og raun, þótt smágerð væri að vallarsýn. Vorið 1920 réðst hún kaupakona að Hvammi. Þau Bjarni bundust heitum og gengu í hjónaband 8. desember 1921 og var einmælt, að þar færu ein af allra glæsilegustu brúðhjón- um héraðsins. Þau dvöldu þar í Hvammi til vors 1923. Vorið 1922 festu þau kaup í jörðinni Efri-Mýrum. Heyjuðu þau þar mánaðar skeið um sumarið og fleyttu á því dálitlum bústofni næsta vetur. Þangað fluttu þau svo vorið 1923 og bjuggu þar við héraðsfræga rausn í 51 ár eða til vors 1974. Efri-Mýrar voru á allan hátt í niðurníðslu, þegar þau bar þar að garði. Riðuðu þar flest hús til falls. Þá var holskefla verðfallsins, sem reið yfir við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, að ríða yfir og raunar skollin á. í kjölfar þess fylgdi svo heimskreppan á fyrri árum hins fjórða tugar aldarinnar. Þær hreyfingar gengu ekki hjá görðum frumbýlinga. Guldu þau Efri-Mýrahjón þeirrar heimsóknar ósleitilega. Þó uxu þau svo til bjarg- álna, að öll hús risu að nýju á furðu skömmum tíma og alllöngu áður en þau kvöddu þar, var allur heyfengur tekinn af töðuvelli í stað rytjumvra að mikíu leyti, sem oft voru sóttar um langvegu. Þar var hlýtt heils- hugar kalli samtíðar. Það blasir við, þegar huga er rennt til þeirra erinda, sem Bjarni var til kvaddur og á hefur verið drepið hér að framan, að ekki hefði allt haldist í þeim sniðum þar á Efri-Mýrum, sem raun gaf vitni, ef húsmóðirin hefði oft staðið ráðvana. En það segir hina óskráðu — en jafn- framt oft gleymdu — sögu sveitakvenna, sem færa og fært hafa í sitt fang heimaannir maka sinna, sem að heiman eru heimtir í þágu sveitar, héraðs eða alþjóðar, án þess þó að afleiðis hafi borist. Má í því efni minna enn á símavörslu í 43 ár, sem löngum hvíldi á hennar herðum að mestu levti. Heimastjórn Ragnhildar hvíldi ekki aðeins á valdi húsmóðurinnar, heldur fyrst og fremst á göfgi mannvinar og þó með fullri skyggni yf- ir það, sem gera þurfti og furðulegri atorku. Þau hjón eignuðust eina dóttur, — Valgerði, — hús- móður í Keflavík. Þangað leituðu þau hvíldar og ör- yggis. Þau ólu að miklu leyti upp fjögur börn auk dótturinnar og unnu þeim sem henni. Mun það gagn- kvæmt af fósturbarnanna hálfu. Þegar svo er hagað heimilisháttum sem þar á Efri- Mýrum, verður ekki hjá því komist, að uppeldið hvíli að þyngri hluta á herðum þess, er heima situr. Og enn er ótalinn þáttur Ragnhildar í risnu þeirra hjóna, sem erill húsbóndans utan heimilisins jók mjög og marg- víslega. Risnunnar var notið í þakklátum hug, — en henni er gjarnan gleymt. Ragnhildur andaðist 27. júlí 1976. Tileinkað Bjarna 0. Frímannssyni i frá Efri-Mýrum áttræðum þ. 12. mars 1977, þá búsettum Hólabraut 4, Keflavík Sit heill í sæmdarranni, sannnefndur heiðursmaður, leiði þig lukkudísir lífs meðan röðull dvelur. Aldrei þig blessun bresti, bjartar þó verði hærur, öðlinga ertu jafni, allþekktur Mýra-Bjarni. Merk er þín manndómssaga, mótsnúin öllu drambi, æ var þín andans snerpa öðrum til greiða búin. Höldur með reisn og ráðum, réttlætissjónir hvessti, jafnt giltu orð sem eiðar, æ varstu hreinn í svörum. Öndvegi eitt þér sæmir, áttræði fræðaþulur, drengur af drengskap kunnur, dirfskunnar þræddi vegi. Elli þótt að þér sæki, orðstír mun hvergi blikna, andinn er vorhug varinn, vizkunnar hróðri seldur. Langt mætti lopann teygja, lofsverðum flíka þræði, kalt meðan góugrímu gustur við ljóra rjálar. En á skal að ósi stemma, andann til næðis leiða, heill þér að hinzta degi hljómar frá sölum Braga. Kristján A. Hjartarson. 284 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.