Heima er bezt - 01.09.1977, Blaðsíða 36

Heima er bezt - 01.09.1977, Blaðsíða 36
Katrín Jósepsdóttir: Þankagælur. Ljóð. Akureyri 1977. Bókaforlag Odds Björnssonar. Roskin kona kveður sér hér hljóðs í annað sinni á skáldaþingi, þótt ekki fari hún með nokkrum hávaða og sneiði vendilega hjá öllum tískubrögðum. Hún fylgir gamalli hefð í formi, er gædd góðri hagmælsku og kann vel með hana að fara. Enda þótt hér sé ekki um stórbrotinn skáldskap að ræða, þá veit höfundur hvað hún vill. Hún á sín hjartansmál og vill leggja sitt lóð í vogarskálina þeim til framdráttar. Hún er ekki haldin af böl- sýni og heimsflótta samtíðarinnar og þeim tómleika sem ein- kennir svo margt af því, sem kallaður er skáldskapur nú á dög- um. Góðvild til allra og einlæg guðstrú er baksvið ljóðanna, og um leið sú ósk og von, að takast megi að skapa fegurri og betri heim. Hún finnur sárt til með þeim, sem þjást, og leikur sér við lítil börn af ljúfum innileika, en innileiki og einlægni gefa bókinni ekki síst gildi, enda þótt stundum verði hnökrar á þræðinum í samlíkingum, sem mátt hefði slétta úr. Vel mætti hafa að einkunnarorðum bókarinnar: „Eins er guð þér nærri, ef þú gefur honum, gaum í hjarta þér sjálfs.“ Herluf Petersen: Spiselige vilde planter. Köbenhavn 1977. Það er eiginlega langt utan við reglur H. e. b. að geta um er- lendar bækur. En þegar mér barst þetta kver í hendur frá góð- vini mínum úti í Kaupmannahöfn, gat ég ekki stillt mig um að benda lesendum H. e. b. á það. Ekki þó vegna þess, að ég búist við að margir muni fara að verða sér úti um það, heldur miklu fremur til að minna á, að aðrar þjóðir hagnýta sér villigróður jarðar, sem vex allt í kringum mann sér til matar og heilsu- bótar. Þar er í rauninni stefnt að því sama og síra Bjöm í Sauð- lauksdal gerði með Grasnytjum sínum fyrir tveimur öldum. í bókinni er getið nokkurra tuga algengra danskra villiplantna, en varla mun nema þriðjungur þeirra vera til hér á landi, margar eru illgresi en aðrar hafa verið ræktaðar hér. Hverri plöntu er lýst nákvæmlega með ágætum myndum, síðan er því lýst hvar þær vaxi, hvernig best sé að safna þeim og tilreiða þær til matar, drykkjar eða sem heilsulyf. Margt er þar nýstárlegt, t. d. að úr furu- og grenibarri megi gera ágætt hlaup og súpur, og sé það með hinum bestu C-fjörefnisgjöfum, á borð við appel- sínur. Og þannig mætti lengi telja. Ef til vill læt ég H. e. b. flytja eitthvað af efni bókarinnar seinna, er vorar. Útgefandi er Carit Andersens Forlag. Shafica Karagulla: Nýjar víddir í mannlegri skynjun. Rvík 1975. Bókaútgáfan Þjóðsaga. F.nda þótt tvö ár séu liðin frá útkomu þessarar bókar, minnist ég varla að hafa heyrt hennar getið fyrri en hún barst upp í hendur mér nú fyrir skemmstu. Og er það raunar ekki svo óvanalegt, að jafnvel hinar merkustu bækur drukkni í flóðöldu ýmislegs léttmetis, sem hátt er hossað í fjölmiðlum og af menningarvitum. Höfundur er kona, fædd í Tyrklandi, en hefir hlotið margvíslega háskólamenntun í Evrópu og Ameríku og starfað áratugum saman við vísindarannsóknir, háskólakennslu og sem yfirlæknir stórra spítaladeilda í Ameríku, en sérgrein hennar eru geðlækningar og taugasjúkdómar. Segja má, að vís- indastörf hennar væru unnin með hinum hefðbundna hætti læknavísindanna og efnafræðinnar, þ. e. að leita ekki út fyrir hið þreifanlcga og sýnilega. Fyrir hvatningu vinkonu sinnar las hún eina af bókum undramannsins Edgars Cayces, sem Islend- ingum eru margar kunnar, en kynnin af þeim furðulegu fyrir- bærum varð til þess, að hún braut að baki sér brýr hinna hefð- bundnu lækna- og sálvísinda en tók að rannsaka af næstum ofur- mannlegu kappi það, sem kallað er „æðri skynjan" (Higher Sense Perception HSP), þ. e. þá þætti mannlegra skynjana, sem ekki verða fengnir með hinum venjulegu skilningarvitum, svo sem fjarskynjanir, forspár, margs konar skyggni, huglækningar og ótalmargt fleira. Komst hún þá að raun um hið svokallaða orkusvið sem skynnæmir menn sjá umhverfis menn, dýr, plöntur og jafnvel kristalla, og hversu það orkar á menn, á hinn marg- víslegasta hátt. Fjallar bókin um þessar rannsóknir og er þar lýst fjölmörgum óhrekjandi dæmum um þessar dulargáfur manna, og hvernig orkusviðið breytist og sveiflan ef svo mætti að orði kveða. Bókin er safn staðreynda, sem naumast verða ve- fengdar, hverja skoðun, sem menn annars kunna að hafa á fyrirbærum þessum og eðli þcirra. Og þess er vert að minnast, að hér er ekki um að ræða fálmandi hjátrúarfullar lýsingar, heldur er það þrautþjálfaður raunvísindamaður, sem um málin fjallar. Bókin er skemmtileg aflestrar, en umfram allt vekur hún til hugsunar um hin dýpstu rök lífsins og er því hverjum manni til vaxtarauka og sálubótar. Þýðandi er Ester B. Vagns- dóttir. Prentvillur mættu vera færri. Hafliði Vilhelmsson: Leið 12 Hlemmur—Torg. Rvík 1977. Öm og Örlygur. Nýr höfundur með spennandi skáldssögu úr Reykjavíkurlífinu. Tekur hann þar til meðferðar unga fólkið og líf þess, rótlaust og hvarflandi, en um leið viðhorfið til eldri kynslóðarinnar. Það er ljóst að höfundur þekkir þetta umhverfi út í æsar, og oft hvarflar mann í hug, að hann sé að segja sína eigin sögu, svo mikill er raunveruleikablærinn. Frásögnin er lifandi, stundum þó kannske fulllangdregin, og endrum og eins óþarflega hrjúf. En þetta er tíska að skrifa eins og talað er, og raunar ekkert við því að segja. Mannlýsingar hans eru margar góðar, einkum þykir mér honum takast vel við eldra fólkið, sem raunar eru aukapersónur. Söguhetjan, Þorlákur, er ósköp venjulegur maður án markmiðs, sem hann þó þráir undir niðri. Unga fólkið sem hann umgengst er óreglusamt og kærulaust en þó svo að les- andinn fær samúð með því, ef til vill er það einn helsti styrkur höf. að hann hefir sjálfur og skapar um leið samúð með sögu- persónum sínum. Það er meira en sagt verði um marga aðra. Þótt á ýmsu gangi með samhúð Þorláks og unnustu hans, eygir lesandinn þó að lokum, að þau hafa fengið fast land undir fót- um. „Ansi duglegir krakkar. Þau eiga eftir að ná langt,“ segir nágrannakonan um þau að skilnaði. Og ef dæma má eftir þessu byrjandaverki höfundar verður það einmitt þessi spásögn, að hann eigi efdr að ná Iangt. Að minnsta kosti bíður maður spenntur eftir næstu sögu hans. St. Std.

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.