Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Side 19

Heima er bezt - 01.02.1987, Side 19
búðarglugga, segir Birna okkur frá því, að fyrir án síðan hafi eldri sonur þeirra hjóna komið úr siglingu til fjarlægra landa og fært sér forkunnarfagran, bláan blómavasa með sérkennilegu mynstri, sannkallaðan kjörgrip. Hann hafði keypt vasann í Brasilíu. „En þá varð mér skemmt, þegar ég kom hingað út í Hest skömmu seinna og sá vasa þarna í glugganum, sem reyndist nákvæmlega eins.“ Birna hlær og bætir við: „Þetta sýnir, að við búum ekki á eyðiskerjum.“ Við göngum veginn norður úr þorpinu. Nemum staðar við fallega ljósmálaða kirkju, sem er nýlegri í sniðum en almennt gerðist með þorpskirkjur þær, er við áttum kost á að skoða. Utan við þorpið er fólk við heyhirðingu. Engum vélum verður þar við komið, en allir eru þar með hrífur í höndum. Heyið hefur verið þurrkað á hesjum eins og löngum hefur tíðkast hér á eyjunum. Nú hefur taðan verið tekin af hesj- unum og söxuð úr görðum í föng eða drýli, sem Færeyingar nefna kyllinga — og er dregið af nafnorðinu kollur, — segir Jóhan Hendrik. Síðan bregða menn netum eða böndum á kyllingana og bera þá á bakinu heim í hlöðu eða heystæði. Við heilsum upp á heyskaparfólkið, sem er glatt í sinni yfir blessuðum þurrkinum, sem oft getur verið stopull á eyjun- um. I nyrsta húsinu býr Árni Nybo. Hann er að koma af sjó, þegar við göngum þar um hlaðið og segir að annað komi ekki til mála, en við komum þar „inn á gólf.“ Þetta er stórt hús og vistlegt og þar er slegið upp kaffiveislu með fjöl- breyttri bakningu. Áður hefur Árni látið lítinn glerbolla ganga á milli þeirra, sem dreypa vilja á sterkari veigum. Húsráðendur eru viðmótsgott fólk og vilja ekki telja okkur til útlendinga, heldur góðra frænda og granna. Árni hafði á yngri árum sínum verið við fiskiveiðar á íslandsmiðum og minnist þess, hve fagurt hafi verið að sigla inn Eyjafjörð í góðu veðri. Mér fannst ég raunar alveg eins geta verið í skírnarveislu heima á Grenivík eins og í gestaboði hér á Hesti. Heimilisbragur er með svo líkum hætti og víða gerist í íslenskum sjávarplássum. Að hallandi nóni fer Jóhan Hendrik að huga að straum- um á firðinum. Straumurinn að austan er genginn hjá, en vesturstraumurinn nálgast miðjan Hestsfjörðinn. Nú er því ráð að halda heim á leið. Við þökkum góðan beina og göngum til sjávar. Efst á hafnarbakkanum í skjóli við beituskúr getur að líta óvenjulega sjón. Þar hafa ungir menn komið fyrir nýtískulegum hljóðfærum með viða- miklum hátölurum og mögnurum. Auk þess eru þar ljós- kastarar á háum stöngum. Það er verið að undirbúa dans- leik, sem halda á í kvöld á hafnarbakkanum og uppi í skólahúsinu eru ungar stúlkur að sneiða niður skerpikjöt og smyrja brauð, sem verður selt til ágóða fyrir sundlaugina eða einhver önnur framfaramál byggðarlagsins. Von er á gestum með ferju frá Þórshöfn og bátum úr fleiri ná- grannabyggðum. Teitur er staðráðinn í að sigla yfir aftur um kvöldið. En við höldum af stað og njótum birtunnar og blíðunnar. Það golar lítillega á móti, en þótt Jóhan slái ekki af hraðanum, þá er ágjöf engin. Nefprúðir prófastar synda í námunda við okkur og mávar svífa yfir. Húsasund á Hesti. Af námsferli og starfi Jóhans Hendriks Þegar við erum komin aftur heim í stofu til Jóhans Hend- riks og Birnu, þá verður mér fyrst fyrir að inna húsbóndann eftir námi hans og starfi, enda áður verið á það minnst, að ég hefði það í huga. Jóhan Hendrik kveðst vera heldur hikandi að fjalla of mikið um sjálfan sig, en það væri þá ekki nema til þess að tengja það þeirri stofnun, sem hann vinnur við, ber mjög fyrir brjósti og vill gjarnan kynna. — Ég tók stúdentspróf í Þórshöfn árið 1952 og eftir það lá leiðin til Kaupmannahafnar. Þar lagði ég stund á ensku og latínu. Haustið 1960 hélt ég til Reykjavíkur og nam íslensku við Háskóla íslands og lauk þaðan prófi fyrir út- lendinga árið 1962. Það var góður grundvöllur fyrir nám í norrænu og bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla, en þaðan lauk ég magistersprófi í þeim greinum 1966. Að því loknu starfaði ég eitt ár við orðabók Árnastofnunar í Höfn undir handleiðslu Ole Widding. Haustið 1967 bauðst mér sendikennarastaða við háskóla i Illinois í Bandaríkjun- um og þar vorum við Birna árin 1967 og ’68. Þá tel ég að allgóð undirstaða hafi verið lögð fyrir það starf, sem ég stefndi að hér í heimalandi mínu. Ég minntist á það í morgun, að allt frá barnæsku hafi ég haft áhuga fyrir efl- Heima er bezl 55

x

Heima er bezt

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.