Heima er bezt


Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 33

Heima er bezt - 01.02.1987, Blaðsíða 33
Þögnin og tómið við skil lífs og dauða varð þrungið ógn. Hinn syrgjandi faðir, þreyttur og yfirkominn af vökum, stóð nú upp án þess að mæla. Stríð var hafið, strið án takmarks, stríð án sigurs. Komandi dagar voru tímar upp- gjörs, tími sorgar, tími biturra hugsana og þungrar reynslu. Dagarnir urðu að kvöl. Nóttin glíma við eigin örlög. Löngun til starfa og athafna var lömuð. Tilgangur og til- vera voru hugtök er byltust um í sál hans og leituðu eftir svari. Einrænn og þögull bar hann hugsanir sínar og spurn á vit þess óráðna. Röð atvikanna var torleyst, þótt rakin væru í vöku eða draumi. Lífsskoðunin var innhverf og krafðist upphafs. Var hann gjörandinn? Svarið var nei. Sjálf hans gat ekki við- urkennt. Alla tið hafði hann gert sveitungum sínum gott. Hann hafði aldrei brugðist neinum, og oft hjálpað, þegar erfiðleikarnir steðjuðu að. Það var til hjálpar öðrum, þegar hann neytti aflsmunar við Björn í Skógum. Ekki var það hans verk að Bjössi í Tóftum drakk frá sér vitið í göngunum og veiktist af lungnabólgunni og náði aldrei heilsu eftir það. Nei ekkert kom það honum við, aldrei skyldi hann beygja sig fyrir Birni í Skógum. Slysið og afdrif Jóa i Seli voru þó dýpst greypt í vitundina og sárast, það reyndi Björn í Skógum að gera hann sekan um. Hann var þá ekki svo mjúkmáll, sem hann var fyrst er hann kom á veg hans og hélt á loft ýmsum nýjum siðum. Sigríður í Skógum, æsku- vinkona hans, var þá enn ung og ógefin og flæktist í þeirri snöru, er honum tókst að vefa í kringum hana. f einmana- leik daganna var þannig rakin keðja atvikanna og sjálfs- ásakana undir þunga bugaðs stolts og brostinna vona. □ Veturinn næsta eftir að taugaveikin gekk, bar það við um sumarmálaleytið, að Sveinn gamli á Grund andaðist eftir langa legu og vesaldóm, í einstæðingsskap og fátækt. Silla frá Hvammi hafði í veikindum hans alið önn fyrir honum og heimilinu, sem oftast var blásnautt og allsvana. Þrátt fyri vanbjörg og ellihrumleika þá var yfir hvílu gamla mannsins og í litlu baðstofunni þeirra einhver sú kyrrð og friður, sem gerði loftið hlýtt og kjörin notaleg. Silla undi vel hag sínum við að hlúa að gamla mannin- um. Þó hún bæri með sér raunir Hvammsheimilisins, sem hún fann sig bundna fast við, þá fann hún fró í því að létta undir með Sveini og stytta honum stundirnar. Steini hafði verið lítið heima um veturinn, því að skömmu eftir áramótin fór hann í verið til sjóróðra og var enn ókominn heim. Hafði hún ekkert heyrt frá honum, og olli það henni því áhyggjum og nokkrum kvíða um hvað verða mundi þegar gamli maðurinn væri allur. Því var það þegar yfir lauk og Sveinn fékk hvíldina, þá leitaði hún á fund Þorbjarnar fyrri húsbónda síns, sem reyndist henni samur og áður, traustur og ráðhollur. Við allan undirbúning jarðarfararinnar undi Silla sér engrar hvíldar, því á milli þess, sem hún var í gegningun- um, við að hára kúnni og kindunum og sinna öðrum úti- verkum, þá greip hún í að hvítskúra allan bæinn, sópa göng, búr og eldhús, svo allt gæti verið hreint og fágað, þegar útför gamla mannsins færi fram, sem alla stund hafði verið henni svo hlýr og þakklátur. Fram á hinstu stund hafði hann blessað hvern dag, sem Guð gaf honum að lifa, og allt, sem honum hafði gott hlotnast frá hendi forstjón- arinnar. Einkum dásamaði hann þá gæzku að mega njóta þessara blessuðu handa, eins og hann komst svo oft að orði, er hann talaði um Sillu. Gjarnan vitnaði hann þá til Orðs- kviða Salomons á þessa leið: „Væn kona, hún breiðir út lófana móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða, hún er miklu meira virði en perlur.“ í kistuloki átti Silla nokkrar kaffibaunir í klút, sem hún hafði dregið saman. Nú brenndi hún þær og tilreiddi fleira til matar, því hana langaði til að geta gefið kaffisopa og nokkra hressingu þeim, er koma mundu til að vera við húskveðjuna. Útfarardagurinn kom, norðan strekkings- kuldi næddi með hríðarkófi. Nokkrir bændur voru komnir og biðu þess, að presturinn kæmi. Silla hafði gefið þeim kaffi, og enn bættust nokkrir við. Ræddu þeir um veðurfar og bágindi framundan ef ekki kæmi sumarbati. Var þetta þriðja jarðarförin, frá því í góubyrjun. Loks kom presturinn og fylgdarmaður með honum. Húskveðjan var stutt. Var síðan haldið sem leið lá til kirkjustaðarins. Kistan var flutt á sleða, sem Þorbjörn hafði komið með og einn hest fyrir dráttinn. Enn voru víða svelladrög og nokkur snjór á jörð. Undanfarna daga höfðu tveir nágrannar gamla mannsins unnið við það að höggva klakann að gröf þeirri, sem kist- unni nú var rennt niður í. Veðurbyljirnir og hríðargusturinn hrakti líkmennina og þá, sem voru viðstaddir. Orð prestsins þegar hann kastaði rekunum heyrðust ekki og líkmennirnir mokuðu moldinni það sem eftir var á grafarbakkanum ofan á kistuna í gröf- inni, en þeir sem viðstaddir voru flúðu inn í kirkjuskriflið sem hristist og nötraði í stærstu vindkviðunum og biðu þar meðan sunginn var greftrunarsálmurinn. Stutt frá þar sem Sveinn á Grund var lagður til hinztu hvíldar, var nýgert leiði, það var gröf Bjössa í Tóftum, en hann hafði látist þá fyrr um veturinn eftir langvarandi vesaldóm og harðrétti. Síðustu ár sín hafði hann aldrei verið við almennilega heilsu, en þó lafað á kotinu, mest fyrir þrautseigju Rósu konu sinnar og aðstoð barnanna og nágranna, sem réttu hjálparhönd. Eftir jarðarför Sveins gamla var allt óráðið, hvað yrði um þau Sillu og Steina, því þótt þau kæmust af í húsmennsk- unni á Grund, meðan gamli maðurinn lifði, þá var allt þó erfiðara hjá þeim, eftir að hann var fallinn frá. Síðustu orð gamla mannsins, sagði Silla að hefðu verið: „Nú ferð þú til Þorbjörns míns.“ Síðan hafði hann rétt út höndina, eins og hann vildi segja eitthvað meira, en aðeins heyrst hvísla: „Boðorð er lampi og viðvörun ljós,“ síðan hafði hann liðið út af. Orð þessi geymdi Silla vandlega og hugði bera vísbendingu til sín. I huga hennar settist að einhver óljós kvíði um framtíð hennar og Steina, því hún hafði ekkert frétt af honum, síðan hann fór í verið. Hreppstjórinn kom stuttu eftir að jarðarförin var afstað- in og tók að skrifa upp reytur dánarbúsins og tilkynna Sillu að rýma burt af jörðinni fyrir fardaga. En Björn í Skógum Heima er bezt 69

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.