Heima er bezt


Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 15
bandsins C.I.E. og gat þess, að enn stæðu ísland og Noregur utan sambands þessa en hinar norrænu þjóðirnar væru meðlimir. Hvatti hann mjög til þátttöku og starfa í sambandi þessu og kvað skyldu okkar allra norrænna stúdenta að færa þannig út ríki okkar. Umræður urðu fremur daufar. Alls tóku fimm menn til máls. Mælti Finni einn heldur á móti C.I.E., en Norðmaður og Svíi með. Ein af mótbárunum gegn C.I.E. var sú, að það væri ekki alþjóðafélag, meðan land eins og Þýskaland væri ekki tekið með í sambandið. Yfirleitt varð ekki annað séð, en stúdentar þeir, er þarna voru saman komnir hefðu fremur lítinn hug á umræðum þessum. Allur þorri manna kaus heldur að sjá sig um í Stokkhólmi í hópi glaðra norrænna frænda og frændsystra, en hlýða umræðum og fyrirlestrum, enda hefir borgin margt fagurt og fróðlegt að bjóða, og stöðugt var verið að prédika „nordisk forbrödring“, svo að árangur hlaut ein- hvers staðar að sjást. Um kveldið kl. 8 sýndu Lundarstúdentar stúdentasjón- leik (Spex) er nefndist: Uarda eller Sfinxens spádom. Egyptisk ökenspil i 3 akter. Fri toikning av en frán British Museum stulen papyrus. Handlingen försiggár i profil, dels framför Faraos palats dels i pyramidarnas gravkammare. Gefur titill þessi allgóða hugmynd um efni og eðli leiksins. Vel var leikið og skemmtu menn sér hið besta. Frá „Dramatiska teatern", en þar var leikurinn sýndur, dreifðust menn víðsvegar, til þess að kynna sér kveld- og næturlífið í „Málarens drottning", en svo nefna Svíar Stokkhólm. „Uppsala er bást“, segir Glunten hjá Wennerberg og munu flestir þátttakendur stúdentamótsins 1928 hafa getað tekið undir þau orð eftir Uppsalaförina sunnudaginn 3. júní. Farið var með aukalest frá Stokkhólmi og voru þar engir aðrir farþegar en stúdentar, enda var það ærið nóg, þar sem þeir voru um 1100 að tölu. Hver sem nokkuð þekkir til stúdentalífs getur best gert sér í hugarlund, hver andi ríkti í hópnum, þegar á leiðinni. Þetta var dagurinn, sem allir höfðu hlakkað til, og allir væntu sér mest af, og engan heyrði ég tala um, að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum. Er komið var út af brautarstöðinni í Uppsölum, fylkti hver þjóð sér undir fána sinn og gengu því næst í skrúð- göngu til háskólans. Meðfram veginum höfðu Uppsalabú- ar safnast og veifuðu þeir óspart í kveðjuskyni, einkum þó ungfrúrnar, um leið og skarinn fór fram hjá. Á tröppum háskólabyggingarinnar, sem er tiltölulega ný og hin fegursta, nam öll fylkingin staðar sem snöggvast meðan myndir voru teknar. Síðan hélt allur skarinn inn í hátíðasal skólans, sem er geysistór og prýðisfagur. Skyldi aðalmóttökuhátíðin fara þar fram. Fánaberar allir skipuðu sér í röð að baki ræðustólnum og stóðu þar og studdu fána sína meðan ræður voru haldnar. Fil. lic. L. Faxén bauð gesti velkomna með skörulegri ræðu, þar sem hann fór mörgum fögrum orðum um ein- ingu og bræðralag Norðurlanda og hlutverk stúdenta- mótsins. Kvaðst hann vita, að hér væru stúdentar saman komnir til að vinna ósleitilega að þeirri bræðralagshugsjón, sem tilgangur mótsins væri að efla. Og í öruggri von um sigur þess máls, kvaðst hann í nafni Uppsalastúdenta bjóða oss alla velkomna. Bað hann menn því næst hrópa ferfalt húrra fyrir tryggu bræðralagi og framhaldandi vináttu norrænna frændþjóða. Gerðu menn það svikalaust. Því næst hélt háskólarektorinn í Uppsölum, L. Stamenov prófessor, ræðu, þar sem hann fyrst skýrði frá hinum fyrr- um stúdentamótum og lauk ræðu sinni með að óska móti þessu og störfum þess allra heilla og hamingju. Að því búnu þyrptust menn út til að skoða bæinn. Var þar margt að sjá. Uppsalir eru sem kunnugt er einn af elstu bæjum Norðurlanda, en þó allnýr útlits því að bærinn hefir oft orðið stórbrunum að bráð. Og Uppsalir eru fremur öðrum norrænum bæjum bær æskunnar og bær stúdent- anna. Getur hver gert sér slíkt í hugarlund, þar sem íbúar bæjarins eru rúm 30.000 en stúdentarnir 3000-4000. Enda setja þeir ótvírætt svip sinn á bæinn. Fáir bæir eru ríkari að gömlum minningum en Uppsalir, og þótt ekki væri annað en Gluntasöngvar Wennerbergs, væri það eitt nóg, til að gera Uppsali að helgistað norrænna stúdenta, sem þeir færi pílagrímsferðir til líkt og kaþólskir menn fara til Róma- borgar. Ekki má heldur gleyma því, að í gömlu Uppsölum, er liggja skammt þar frá, sem bærinn stendur nú, sátu Ynglingar hinir fornu að stóli, og eru þar enn haugar Ynglingakonunga. Við Uppsali eru og tengd nöfn ýmissa ágætustu visindamanna heimsins, og má í því sambandi minnast grasafræðingsins Linnés. Er grasgarður hans enn í Uppsölum. Eins og geta má nærri komust menn ekki yfir að skoða alla þá hluti, sem þeir vildu þar. Háskólabyggingarnar og söfnin sem eru hin prýðilegustu var eitt ærið nóg. Hefi ég hvergi komið þar, sem mér virtust mundi vera ánægjulegra að stunda fræðiiðkanir, en í lestrarsal Uppsalaháskóla. Uppsaladómkirkja er einnig ein hin stærsta og fegursta á Norðurlöndum. Flestir beindu för sinni til hallar Vasa-konunga, sem stendur uppi á hæð einni í útjaðri bæjarins skammt frá háskólanum. — Nefnist hæð sú eftir höllinni „Slottsback- en“. Leiðin til hallarinnar lá fram hjá styttu Wennerbergs skálds. Og verð ég að segja að stöðugt hljómuðu í eyrum mér orð hans „Hár er gudagott att vara.“ Frá „Slottsback- en“ er ágætt útsýni yfir bæinn og nágrennið, Fýrisá og Fýrisvöllu, þar sem þeir Aðils konungur og Hrólfur kraki elduðu grátt silfur í fyrndinni. Klukkan 3 e.m. söfnuðust allir saman til máltiðar í „Botaniska garðinum“ úti fyrir „Linnéanum", en svo nefnist háskólabygging sú, sem notuð er til grasafræðaiðk- ana. Óhætt er að fullyrða, að aldrei á mótinu ríkti meiri gleðibragur eða ósvikinn norrænn stúdentaandi en þarna. Umhverfið, Uppsalir með öllum sínum minningaskara, hafði lík áhrif á hugina og örvandi ilmþrungið vín. Og ekki drógu veitingarnar úr gleðinni, eða fjörugir stúdenta- söngvar og hljómmiklar skörulegar ræður, er fluttar voru yfir borðum. Heimaerbezt 159

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.