Eimreiðin - 01.10.1934, Page 72
398
KVÆÐI
eimreiðin
Martröð.
Hann andvaka starir í húmið hljótt
um helkalda, dimma vetrarnótt,
hann finnur, að þrekið er þrotið.
Hann vefst í myrkursins margþættu bönd,
svo máttvana liggur hans styrka hönd,
að fjöturinn fær hann ei brotið.
Hann starir — og augun stirðna! Sjá!
Þar stendur einhver hans rúmi hjá.
Hann starir í aflvana æði.
Hann Iangar að hrópa, hans hróp eru kæfð,
um háls hans er tekið og röddin svæfð,
svo vofunni veitist næði.
Hún yfir hann legst sem ískalt bjarg,
hann einmana starir — og dauðans farg
helkulda’ að hjartanu leiðir.
Öll bjargarvon sýnist blekking og tál.
Þá brýzt fram ljós í hans eigin sál,
sem myrkursins mætti eyðir.
Nú linast vofunnar tröllatök,
því töfrana sigra ljóssins rök.
Afl sitt hann aftur hlýtur.
Hann finnur, að aflið, sem batt hann í bönd
og böndin leysti af máttvana hönd,
hlekkjar — og hlekki brýtur.
Hjörtuv Kristmundsson■