Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.12.1977, Blaðsíða 30

Tímarit lögfræðinga - 01.12.1977, Blaðsíða 30
Þegar hafist var handa um endurskoðun norræns skaðabótaréttar eftir síðari heimsstyrjöldina, komu einkum til greina þrjár stefnur. 1 fyrsta lagi að hrófla ekki við almennum skaðabótareglum og láta dómstóla sjá um þróunina á þessu sviði, eins og verið hefur. Þessi stefna hefur orðið ofan á í Danmörku og á íslandi. I öðru lagi að leggja skaðabótaréttinn niður að mestu eða öllu leyti og láta vátrygg- ingar og almannatryggingar taka við hlutverki hans. Þetta var skoðun Ivars Strahls í álitsgei’ð hans 1950, og gerði hann frekari grein fvrir henni í framsöguerindi sínu á 19. þingi norrænna lögfræðinga 1 Stokk- hólmi árið eftir. I þriðja lagi að lögbinda skaðabótaréttinn í heild. Sú stefna var til umræðu á 22. norræna lögfræðingaþinginu í Reykjavík árið 1960. Komið hefur í ljós í hinu umfangsmikla norræna starfi til undirbúnings nýjum bótareglum, að miklir erfiðleikar eru á lögfest- ingu reglna, sem spanna yfir allan skaðabótaréttinn. Með setningu norsku, sænsku og finnsku skaðabótalaganna hefur í bili verið horfið frá hugmyndum um að ganga svo langt. Farin hefur verið sú leið að stíga nokkur skref í þá áttina. Jafnframt hefur með hinni nýju laga- setningu verið undirbúinn jarðvegur fyrir nýtískulegri bótaúrræði en skaðabótareglur. Lögin stefna eindregið að aukinni hlutdeild vátrygg- inga og opinberra trygginga á þessu sviði á kostnað hins hefðbundna skaðabótaréttar. Lögin gera hvort tveggja í senn, þau viðurkenna þann sess, er vátryggingar skipa í nútíma þjóðfélagi og þau greiða fyrir þróun vátrygginga sem bótaúrræðis með því að setja nýjar reglur um samband vátrygginga og skaðabótaréttar. 1 þessu sambandi verður að minnast þess, að þróun skaðabótareglnanna sjálfra, lögfestra eða ólög- festra, er ekki einhlítur mælikvarði á það, hverra kosta tjónþolar eigi völ til að fá tjón sitt bætt. Þótt skaðabótareglur tveggja ríkja væru samhljóða, gæti verið mikill munur á raunhæfum bótaúrræðum í þess- um ríkjum, vegna mismunandi ástands í tryggingamálum. 1 Svíþjóð t.d. hafa á síðustu árum orðið svo miklar breytingar á almannatrygg- ingum, samningsbundnum slysatryggingum og öðrum skyldutrygg- ingum, að stórlega hefur dregið úr mikilvægi skaðabótaréttarins að því er varðar líkamstjón. Auk vaxtar sænska almannatryggingakerf- isins og frjálsra hóptrygginga má nefna mjög víðtæka samningsbundna slysatryggingu launþega og slysatryggingu sjúklinga, er verða fyrir heilsutjóni við meðferð á sjúkrahúsum. Réttur til bóta frá þessum tryggingum er óháður skaðabótareglum. Má fullyrða, að þessar endur- bætur í sænskum tryggingamálum hafi meiri áhrif á raunverulegar slysabætur en lagabreytingar þær, sem hér eru til umræðu. 192

x

Tímarit lögfræðinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.