Tímarit lögfræðinga - 01.12.1982, Blaðsíða 19
konungsvaldinu en konungur virðist hins vegar líta á sig sem verndara
smælingjanna og fyrir þær sakir hlutast hann til um málefni bænda
(ríkisbænda), takmarkar frelsi þeirra og leggur á þá kvaðir.12 Hér
var því tekizt á um sígilt ágreiningsefni í stjórnmálum: um stöðu og
hlutverk ríkisvalds gagnvart einstaklingum.
Athugasemda handgenginna manna er að engu getið nema þær séu
taldar með athugasemdum bænda.13 Texti Árna sögu er hér naumast
glöggur sem skyldi þannig að ekki verður úr skorið.
Loðinn brást illa við þessum viðtökum, „varð við þetta mjög heitur
að búkarlar gjörðu sig svo digra að þeir hugðu að skipa lögum í landi
þeim sem kóngur einn saman átti að ráða. Þar næst krafði hann al-
menning að játa allri bók greinarlaust“.
Hér er Loðinn boðberi nýrra hugmynda um hlutverk konungs við
lagasetningu. Hin hefðbundna skoðun var sú að konungur ætti að gæta
hinna fornu laga og varðveita þau með fulltingi beztu manna en ekki að
ráða þeim að vild. Þessar hugmyndir mátti rekja til Rómaréttar og
áttu þar stoð í lagastöfum sem töldust heimila keisara að setja lög á
eigið eindæmi en lærðir menn í rómverskum lögum tóku á 13. öld að
heimfæra reglu þessa upp á konunga þjóðríkjanna.14 I átökum sínum
við kirkjuna höfðu ríkisstjórarnir gripið til kenninga um konungsvald
sem lengst gengu. Ástæðan var meðal annars sú að staða höfðingja-
stéttarinnar í Noregi var fremur veik og varð hún því að leita sér
stuðnings konungsvaldsins. En ummæli Loðins sýna einnig, hversu lít-
ið ríkisráðsmennirnir lögðu upp úr lagasetningarvaldi lögþinganna í
Noregi. Alþingi var á hinn bóginn miklu öflugri stofnun.15
Orðum Loðins svaraði þingheimur með hinar fornu hugmyndir að
bakhjarli: „Hverjir svöruðu fyrir sig að þeir mundu ei gjöra að tapa
svo frelsi landsins“.
Ekki er ástæða til að rekja orðaskipti frekar því að þau tóku að
snúast um önnur efni. Loðinn reyndi að beina umræðunni inn á aðrar
brautir með því að ráðast á tilhögun tíundargreiðslu hér á landi og
kalla okur. En þá kom Hrafn Oddsson, helzti oddviti leikmanna og ein-
dreginn andstæðingur biskups í hinum langvinnu deilum um yfirráð
kirkjustaðanna á Islandi, biskupi til fulltingis. Féllu um það mál hvöss
orð sem ekki er ástæða til að rekja hér þar sem þau koma Jónsbók ekki
við. Loks segir í Árna sögu biskups: „Margir hlutir voru á því þingi
talaðir, og komu fáir saman með mönnum, en þó kom þar um síðir að
lögbók var öll lögtekin utan þá kapitula sem handgengnir menn vildu
að stæði til úrskurðar kóngs og erkibiskups“.
189