Tímarit lögfræðinga - 01.12.1995, Page 21
aðferð við tréhöfuðið í dæmisögu Faídrosar sem væri ef til vill fallegt, en hefði
því miður engan heila.81
Kant er náttúruréttarmaður í þeim skilningi að hann telur að það séu til
óbreytanleg verðmæti sem maðurinn þekki af skynsemi sinni. Siðalögmál hans
- hið skilyrðislausa boðorð - er orðað þannig: „Breyttu einungis þannig að þú
getir viljað að lífsreglan sem þú breytir eftir verði að almennu lögmáli". Sið-
ferðileg hegðun varðar hegðun gagnvart öðrum manneskjum, sem hver og ein
er skynsemisvera og hefur óskerðanlegt gildi í sjálfri sér, hún er „sjálfráða sið-
ferðisvera“. Og til að virða þetta verðum við að virða „frelsið“ og ef við hlýðum
siðalögmálinu erum við frjáls. Af þessu leiðir að gagnkvæm virðing er nauð-
synleg og ein framsetning skylduboðsins verður því sú að aldrei megi koma
þannig fram við nokkra manneskju, sjálfan sig eða aðra, að verið sé að nota
hana í einhverju skyni, heldur ber að virða hið sjálfstæða takmark sem sérhver
persóna hefur með lífi sínu. Að hneppa aðra manneskju í þrældóm er skýrt
dæmi um brot á þessu lögmáli Kants.
Það verður ekki skilið við þetta sögulega yfirlit um kenningar náttúruréttar án
þess að nefna John Finnis háskólakennara í Oxford.82Árið 1980 kom út rit eftir
hann sem nefnist á frumálinu Natural Law and Natural Rights. Þetta er tíma-
mótaverk vegna þess að hann setur fram frumlega náttúruréttarkenningu. Hún
er ekki ný að öllu leyti, því að hann tengir hana fyrst og fremst við verk
Aristótelesar og Tómasar frá Akvínó. En hún er ný að því leyti að Finnis freist-
ar nýrrar framsetningar og bendir á margt sem hann telur eldri fræðimenn hafa
misskilið eða mistúlkað.
Finnis tekur undir þá skoðun að náttúruréttur sé til í sama skilningi og stærð-
fræðilögmálin séu til. Hann staðhæfir að til séu viss mannleg grundvallargæði,
sjö frumþættir mannlegrar farsældar: líf, þekking, leikur, fegurð, vinátta, trú og
viturleiki, og náttúruréttur sé samspil grundvallargæðanna og „meginreglna
hyggjuvits um skipan mannlífs og samfélags11.83 Grundvallargæðin eru hlutlæg
í þeim skilningi að sérhver skynsöm manneskja hlýtur að viðurkenna að mönn-
um beri þau. Ekkert þeirra er öðru fremra. Þau eru óháð siðferðilegu mati.
Frumgæðin eru ekki afleidd af neinu eins og nafn þeirra ber með sér, en önnur
lífsgæði eru leiðir til að njóta þeirra. Með öðrum orðum þá eru þau sjálfgefin
og nauðsynlega tengd mannlegri farsæld.
Á aristótelískan hátt spyr Finnis hvað það sé sem geri lífið þess virði að lifa
því, geri það verðmætt og eftirsóknarvert. Og það er einmitt það að njóta hinna
sjö lífsgæða. Og til að finna þau spyrjum við ekki hvað sé í samræmi við mann-
legt eðli heldur hvað sé skynsamlegt. Þar sem manneskjan er félagsvera þá
verður að skoða frumgæðin í ljósi mannlegs samfélags. Aðeins í samfélagi eru
81 d'Entréves, sama rit, bls. 110.
82 Sjá Garðar Gíslason, „Náttúruréttur í nýju ljósi“, Eru lög nauðsynleg?, sama rit.
83 Finnis, sama rit, bls. 280, sjá sama, kafla III og V.
263