Tímarit lögfræðinga - 01.06.1999, Side 22
Dómstóllinn lýsti það vera tilgang jafnréttistilskipunarinnar að gera virka í
aðildarríkjunum meginregluna unr jafnrétti karla og kvenna að því er varðar hin
ýmsu málefni, er snerta atvinnu, alveg sérstaklega að því er varðar starfskjör,
þar á meðal skilyrði um brottvikningu úr starfi. í þessu skyni sé í 2. gr. tilskip-
unarinnar slegið fastri meginreglunni um jafnrétti og takmörk hennar, en í 1.
mgr. 5. gr. sé umfang reglunnar skilgreint í tengslum við starfskjör, þar á meðal
skilyrðin um brottvikningu úr starfi, þess efnis, að körlum og konum séu tryggð
sömu skilyrði án mismununar á grundvelli kynferðis. Samkvæmt 6. gr. tilskip-
unarinnar sé aðildarríkjunum skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til
þess að gera öllum einstaklingum, er telja á sér brotið með mismunun, kleift að
fylgja fram kröfum sínum fyrir dómstólum. I slíkri skyldu felist, að þær ráðstaf-
anir, sem gerðar eru, verða að vera nægilega árangursríkar til þess að ná fram
markmiði tilskipunarinnar og vera þess þess eðlis, að viðkomandi einstaklingar
geti með virkum hætti byggt á þeim rétt fyrir innanlandsdómstólum. Markmið-
ið er að ná fram raunverulegu jafnrétti til tækifæra og verður því ekki náð, ef
ekki eru fyrir hendi ráðstafanir til þess að koma aftur á jafnrétti (restore equa-
lity), þegar þessa hefur ekki verið gætt. Þessar ráðstafanir verða að vera með
þeim hætti, að þær tryggi raunverulega og virka dómstólavemd og hafi raun-
veruleg varnaðaráhrif á vinnuveitanda. Þess háttar kröfur til ráðstafananna feli
það óhjákvæmilega í sér, að hverju sinni verði að taka tillit til hinna sérstöku
atvika hvers brots á meginreglunni um jafnrétti. Þegar um sé að ræða mismunun
við brottvikningu úr starfi, er brjóti gegn 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar, verði
jafnréttisástandi ekki náð á nýjan leik nema með því annað hvort að setja
þolanda mismunarinnar aftur í starfið, eða, sem annan kost, með því að veita
fébætur fyrir fjártjón og annan skaða (loss and damage), sem valdið hefur verið.
Þegar fébætur er sú leið, sem valin hefur verið til þess að ná framangreindu
markmiði, verða þær að vera fullnægjandi að því leyti að þær verða að gera það
mögulegt, að fjártjón og annar skaði, sem hlotizt hefur af brottvikningu á
grundvelli mismununar verði að fullu bættur í samræmi við reglur innanlands-
réttarins, sem við eiga.
Þegar Evrópudómstóllinn hafði með þeim hætti, sem rakið hefur verið, gert
grein fyrir grundvallarsjónarmiðum sínum varðandi túlkun jafnréttistilskip-
unarinnar, þar á meðal sérstaklega túlkun 6. gr. hennar, svaraði hann þeim fyrir-
spurnum, sem til hans hafði verið beint.
Um fyrstu fyrirspumina sagði dómstóllinn, að sú aðferð að ákveða efri mörk
þess efnis, sem um væri að ræða í málinu, gæti ekki, skilgreiningu samkvæmt,
talizt rétt lögleiðing 6. gr. jafnréttistilskipunarinnar, þar sem með því móti væri
fyrirfram takmörkuð fjárhæð skaðabóta við mörk, sem ekki væru endilega í
samræmi við þá kröfu að tryggja raunverulegt jafnrétti til tækifæra með því að
beita fullnægjandi bótum fyrir tjón og annan skaða, sem hlotizt hefði af mis-
munun við brottvikningu úr starfi.
Um fyrri hluta (a) annarar fyrirspumar varðandi mörk skaðabóta taldi dóm-
stóllinn, að túlkun sín á 6. gr. tilskipunarinnar fæli í sér beint svar við henni.
88