Tímarit lögfræðinga - 01.06.1999, Síða 71
túlkun EB-réttar þegar einstökum útgáfum ber ekki saman hefur Evrópudóm-
stóllinn lagt áherslu á að tillit beri að taka til allra tungumálaútgáfa. Ákvæði
skuli skýrð eftir tilgangi þeirra og í samhengi við það regluverk sem þær eru
hluti af.71 Samkvæmt þessu kann að skipta máli að tilgangur íslenska ríkisins
með tilgreiningu undanþægra hópa í viðaukanum var sjálfsagt sá að koma í veg
fyrir að gera þyrfti breytingar á íslenskum lögum. Má ætla að íslenska ríkið hafi
í raun ætlað að undanþiggja systkin eigenda gjaldþrota félaga frá kröfum sam-
kvæmt tilskipuninni enda hefðu lög nr. 53/1993 þá óvírætt verið í samræmi við
ákvæði tilskipunar nr. 89/1987 að þessu leytinu til. Þá er þess að geta að samn-
ingaviðræður EES-samningsins fóru fram á ensku. Með öðrum orðum er ís-
lenska útgáfa viðaukans þýðing á enskri útgáfu hans. Ensku útgáfu viðaukans
má hins vegar túlka með þeim hætti að þar falli undir systkin. Samkvæmt þessu
sýnist sem túlkun á h-lið viðaukans á þann veg að undir undanþáguna falli
systkin eigenda verulegs hlutafjár í gjaldþrota fyrirtæki, þrátt fyrir orðalag ís-
lensku útgáfunnar, hafi í raun verið frambærilegur skýringarkostur.
I þriðja lagi getur það ótvírætt haft þýðingu að ekki voru fyrir hendi leið-
beinandi úrlausnir EFTA-dómstólsins eða Evrópudómstólsins um túlkun á þeim
atriðum sem getið hefur verið hér að ofan og á reyndi í málinu. Á þetta sjónar-
mið hefur Evrópudómstóllinn lagt áherslu í úrlausnum sínum. Ábyrgðasjóður
launa hafði því ekki við slrk fordæmi að styðjast þegar sjóðurinn hafnaði kröfu
Erlu Maríu um greiðslu.
í fjórða lagi skal þess getið að ekki er víst að túlkun íslenska ríkisins stríði
beinlínis gegn markmiði tilskipunar nr. 80/987 enda gerir tilskipunin sjálf ráð
fyrir því að aðildarríkin geti gripið til ráðstafana til að forðast misnotkun. í
þessu sambandi er til þess að líta að sjálfsagt hefði verið heimilt að undanþiggja
„systkin“ frá því að njóta réttinda samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar með
sama hætti og heimilt var að gera undanþágur vegna „ættingja í beinan legg“
með því að geta þess sérstaklega í h-lið viðaukans.
Að öllu þessu virtu er niðurstaðan sú að vafasamt er að vanefnd íslenska
ríkisins í máli Erlu Maríu Sveinbjömsdóttur sé nægilega alvarleg til að uppfyllt
séu skilyrði bótaábyrgðar á grundvelli meginreglu EES-samningsins um skaða-
bótaskyldu samningsaðila. Virðist sem hér geti fyllilega átt við þau sjónarmið
er Evrópudómstóllin byggði á í máli British Telecommunications og áður er
vikið að.72
HEIMILDIR:
Amesen, Finn: “Om statens erstatningsansvar ved brudd pá E0S-avtalen“. (1997)
Tidsskrift for Rettsvitenskap, 2. tbl., bls. 633-685.
71 Mál 29/69 Erich Stauder [1969] ECR 419, 3. mgr., mál 30/77 Regina [1977] ECR 1999, 14.
mgr., og mál C-449/93 RockfonAS [1995] ECR 1-4291, 28. mgr. Sjá einnig Stefán Má Stefánsson,
bls. 68, og Davíð Þór Björgvinsson: Lögskýringar (fjölrit). Reykjavík 1995, bls. 168-172.
72 Sjá kafla 4.3. Þess ber að minnast að Erla María Sveinbjömsdóttir hefur í málatilbúnaði sínum
gegn íslenska ríkinu einnig byggt bótakröfu sína á almennu skaðabótareglunni.
137