Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1961, Page 78
76
20. aldar, svo og ýmsum öðrum sagnfræðilegum rannsóknarefn-
um, sem hann hafði mikinn hug á að sinna, er tóm yrði til. Mun
verka hans í íslenzkri sagnfræði lengi sjá stað, og verða þau
vissulega ávallt talin til grundvallarrita þeirrar greinar.
Auk sagnfræðiritunar fékkst dr. Þorkell mjög við útgáfustarf-
semi, og er þar ekki sízt að minnast hins mikla nytjaverks hans,
er hann bjó bréf og ritgerðir Stephans G. Stephanssonar til prent-
unar, og er það ritverk 4 bindi. Safnverkið „Merkir fslendingar“
í 5 bindum er og ágætt rit, sem margir hafa haft yndi af að lesa.
III.
Dr. Þorkell Jóhannesson var óvenju þroskaður maður, er hann
settist, 26 ára að aldri, í Háskólann haustið 1922. Gerðist hann
þá nokkur forvígismaður í félagsmálum og var meðal hinna
fyrstu manna, sem gegndu formennsku í stúdentaráði háskól-
ans, en það var stofnað skömmu áður en hann settist í skólann.
Var hann og tengdur Mensa academica og stúdentagarðsmálinu.
Þá er og brýnt efni til að minnast þess hér, að hann átti sæti
í ritnefnd hins fyrsta tölublaðs af Stúdentablaðinu 1. des. 1924,
og mun hann hafa verið hvatamaður og forgöngumaður þeirrar
útgáfu, enda var hann það ár formaður stúdentaráðs. Liðu síðan
17 ár frá því, að hann sagði skilið við skóla sinn með meistara-
prófi, unz hann tók við prófessorsembætti sínu, 1944, er hann
gegndi óslitið í 16 ár.
Dr. Þorkell var kjörinn rektor fyrsta sinni í maí 1954 og síðan
endurkjörinn 1957 og 1960. Hefir prófessor Alexander Jóhannes-
son einn gegnt lengur rektorsembætti en hann. Dr. Þorkell var
búinn ýmsum ágætum kostum sem rektor. Hann var hygginn
maður, laginn að koma fram málum stofnunarinnar, tillagna-
góður og úrræðagóður, mikill mannasættir og gæddur slíkum
persónutöfrum og ljúfmennsku, að öllum hlaut að þykja vænt
um hann.
Rektorstíð dr. Þorkels hefir verið grósku- og framfaratíma-
bil í sögu háskólans. Háskólanum hafa verið sett ný lög og reglu-
gerð, prófessorum og öðrum kennurum hefir fjölgað, og kjör
kennara, einkum dósenta og lektora, hafa batnað. Starfsemi há-