Árbók Háskóla Íslands - 01.01.1961, Síða 88
86
sem hann og fjarri því að vera „stykkevis og delt“, svo að greind
séu ummæli Brands. En hér er þess að gæta, að próf. Ólafur rakti
réttinn til menningarsögulegra róta, og frá því sjónarmiði renna
lög og saga í einn farveg. Fyrir íslenzka vísindastarfsemi í heild
sinni hygg ég, að það hafi verið lán, að hann skipti sér svo sem
raun ber vitni milli þessara tveggja fræðigreina og auðgaði með
því báðar.
V.
Svo ágætur sem Ólafur Lárusson var af verkum sínum, er hins
ekki síður að geta, að persónuleiki hans var ógleymanlegur öll-
um þeim, sem af honum höfðu kynni. Hann var mannkostamað-
ur, strangur á ytra borðinu, en allra manna mildastur og mann-
úðlegastur, er á reyndi, réttlátur og réttdæmur í mati sínu á mál-
efnum, vinfastur og trygglyndur, vitur og velviljaður. Hann var
mikill jafnvægismaður, og hvíldi yfir honum ró og festa. Hann
var maður hógvær og laus við yfirlæti. Hann var að eðlisfari
dulur, fáskiptinn nokkuð og hlédrægur, en hann naut sín þó vel
á mannfundum og lék þá oft á als oddi. Hann kunni ógrynni af
sögum um kímileg atvik og var mikill húmoristi.
Prófessor Ólafur Lárusson var kvæntur Sigríði Magnúsdóttur,
er andaðist árið 1952. Þau voru barnlaus. Eiga margir nemendur
prófessors Ólafs kærar minningar frá heimili þeirra, sem seint
mun fyrnast yfir.
VI.
Á norræna lögfræðingamótinu, sem haldið var hér í Reykjavík
í ágúst 1960, flutti prófessor Ólafur Lárusson erindi í hátíðasal
háskólans um nokkra þætti í félagsmálalöggjöf Grágásar. Var
það síðasta erindið, sem hann flutti opinberlega, og sennilega
síðasta ritverk, sem hann samdi um fræðileg efni. Þeim, sem
viðstaddir voru, mun seint líða úr minni þau sérstæðu hughrif,
sem flutningur erindisins vakti þeim. Hér var einn mesti réttar-
sögufræðingur Norðurlanda að skýra fyrir frændum vorum það,
sem merkast var í hinni fornu löggjöf vorri — einu mesta menn-
ingarafreki norrænna manna. Þytur sögunnar lék um oss. Hér