Árbók Háskóla Íslands - 01.02.1965, Blaðsíða 24
22
um á tengslum einstakra vísindastofnana við Háskólann — af-
mörkun á rannsókna- og vísindasviði Háskólans, svo og kennslu-
sviði hans til frambúðar.
Að lokum langar mig til að víkja að því, að á næsta ári er
bókasafn Háskólans 25 ára. Það hefir vaxið allmikið síðustu
árin, en bókaskorturinn er þó enn einn erfiðasti þrándur í götu
þeirra, sem stunda vilja vísindastörf hér á landi. Þarf að efla
bókasafnið stórum, og væri vel, ef afmælisárið yrði safninu
fengsælt. Dregur bókaskorturinn mjög úr mönnum dug og þor
við vísindaiðkanir og þrengir kosti manna í því efni. Þurfa
aldahvörf að verða í málum visindalegra bókasafna hér á landi,
jafn veik sem þau eru og vanmegnug. Geta vil ég þess með
þökk í þeirri andrá, að ríkisstjórn hefir tekið myndarlega fjár-
veitingu í fjárlagafrumvarp til útgáfu kennslubóka hér við
Háskólann.
Ég lýk máli mínu með því að þakka ánægjulegt samstarf
við hæstvirta ríkisstjórn, og ekki sízt við hæstvirtan mennta-
málaráðherra og hæstvirtan fjármálaráðherra, sem Háskólinn
á mest skipti við. Ég þakka háttvirtu Alþingi fyrir góðan
stuðning við Háskólann. Ég þakka háskólaráðsmönnum og öðr-
um samkennurum mínum ánægjulega samvinnu, og ég þakka
ágætt samstarf við stúdentaráð og stúdenta alla. Ég sendi for-
eldrum og öðrum vandamönnum stúdenta hvarvetna á landi
hér kveðjur Háskólans.
Vér kennarar Háskólans hefjum þetta háskólaár vongóðir
og bjartsýnir. Vér treystum því, að vísindin varði framtíðar-
veg landsins í síauknum mæli og að Islendingum megi æ betur
skiljast, að „með vísindum alþjóð eflist til dáða“. Vér kennarar
hljótum að treysta því, að hin fornu orð Hugsvinnsmála séu
rétt:
„Manndýrð meiri
getur eigi fyr mold ofan
en kenna gott gumnum“.
Ég óska yður öllum árs og friðar.