Árbók Háskóla Íslands - 01.02.1965, Blaðsíða 27
25
ég benda á, að mér virðist íslenzkir stúdentar gera of lítið
að því að ræða fræðileg vandamál í sínum hópi. Við erlenda
háskóla er gert mikið að því að skipuleggja viðræðufundi stú-
denta innan tiltekinnar greinar. Ég vil beina því til yðar, að
þér gerið tilraun með slíka nýbreytni, og væri vel, ef eldri
stúdentar tækju þátt í slíkum viðræðufundum, yngri stúdent-
um til leiðsagnar. Vandamálin skýrast oft ótrúlega vel í við-
ræðum. Er kennslufarsleg nauðsyn á því að örva nemendur
til að tjá sig meir en nú er í námi og kennslustundum. Það er
von mín, að á næstunni verði teknar upp í öllum deildum sem-
ínaræfingar, þar sem stúdentar ræða fræðileg vandamál í
smærri hópum undir vegleiðslu kennara. I slikum umræðum
kveikist funi af funa, og menn venjast því að tjá sig frjálslega
og málefnislega um skoðanir sínar.
Þér eigið margra kosta völ hér í Háskólanum til grósku og
þroska. Gætið þess, að menn lifa ekki á brauði sinnar eigin
fræðigreinar einu saman, reynið eftir getu að halda áfram
almennri menntun yðar, með lestri öndvegis bókmennta og
með því að njóta fagurra lista. Þér eruð ekki eingöngu borg-
arar þjóðfélags vors — heldur einnig hluttakendur í samfélagi
þjóða — kostið því kapps um að fylgjast vel með stefnum og
straumum í umheiminum og þróun alþjóðavandamála. I dag,
á degi Sameinuðu þjóðanna, er sérstök ástæða til að vekja at-
hygli á þessum samfélagslegu viðhorfum. Við erlenda háskóla
er stúdentum víða boðið upp á fjölda af fyrirlestrum um efni,
sem hafa almennt menntunargildi, umfram eigið námsefni, svo-
nefnt studium generale. Því miður er þessa ekki kostur nema
í takmörkuðum mæli hér við Háskólann. Hér við Háskólann
eru þó fluttir allmargir fyrirlestrar ár hvert um ýmiss konar
fræðileg efni, og eru fyrirlesarar ýmist íslenzkir eða erlendir.
Þessir fyrirlestrar hafa mikið almennt menntunargildi, og heiti
ég á yður, ungu stúdentar, að þér notfærið yður þessi mennt-
unarfæri með því að sækja slíka fyrirlestra, þótt þeir fjalli eigi
um sérnámsgreinir yðar.
Háskólaárin eru mörgum mönnum fegursti kaflinn í ævi
þeirra, og eiga þó stundum við um þau orð Heidenstams: „Alt
4