Búnaðarrit - 01.01.1979, Page 57
SKÝRSLUR STARFSMANNA
51
verið hefir. Er þróun þar jákvæð og horfir til bóta á flestum sviðum.
Um verzlanir gildir einnig, að æ fleiri gera sér grein fyrir nauðsyn
þess, að hafa ferska vöru og geyma hana við rétt hitastig og önnur
skilyrði eins og vera ber. Þó vantar enn mikið á, að þessi mál séu í
nægilega góðu lagi.
Útirækt gekk allvel á sumrinu, þrátt fyrir að í upphafi ræktunar-
skeiðs voru miklir erfiðleikar vegna vorkulda og bleytu í görðum.
Júlí, ágúst og september voru hinsvegar ágætir um sunnanvert
land, hlýindi og hæfilegur raki. Varð að lokum ágæt uppskera á káli,
rófum og öðrum garðávöxtum. Haustið var mjög milt og kom
verulegt magn af blómkáli á markað í október.
Innflutningur grænmetis fór heldur vaxandi, bæði að magni og
fjölbreytni. Verð á þessum varningi er hinsvegar hátt, miklu hærra
en á innlendri framleiðslu, en brúar eigi að síður bil, því að æ fer
vaxandi sá hópur neytenda, sem vill fá þessa vöru allt árið.
Blómasala gekk misjafnlega á árinu. Urðu veruleg afföll á
ákveðnum tegundum á vissum tímum, t. d. á chrysanthemum, bæði
að vori og hausti. Einnig var nokkuð offramboð af jólastjörnu í
nóvember og hyacintum fyrir jól. Sala laukblóma gekk annars
allvel á árinu.
Heildarvelta blómasölu mun hafa numið nær 400 millj. kr.
(heildsala). Talsverður innflutningur blóma var á árinu, bæði
pottaplöntur og afskorin blóm. Sala sumarplantna, fjölærra
plantna, trjáa og runna gekk yfirleitt allvel, þó munu nokkrir fram-
leiðendur sumarblóma hafa átt eftir nokkuð magn óselt. í heildina
mun mega telja,að árið hafi verið vel meðalár fyrir sölu garðyrkju-
afurða.
Ég á sæti í stjórn IV. deildar N. J. F. og sótti stjórnarfund í
Kaupmannahöfn í byrjun sept. Þá notaði ég jafnframt tækifærið til
að heimsækja tilraunastöðvar og gróðrarstöðvar í Danmörku og
Suður-Svíþjóð og kynna mér þar nýjungar, sem nothæfar mættu
verða hér á landi.
Einnig á ég sæti í N. J. F. í nefnd, sem fjallar um garðyrkju og
gróðurhúsatækni. Þar sótti ég fund, sem var haldinn á til-
raunastöðinni á Kvithamar, Stjördal í Þrændalögum í Noregi 12. —
13. júní. Eftir fundinn var haldin ráðstefna um ræktun í næring-
arlausnum og ýmsar ræktunaraðferðir aðrar en hefðbundna jarð-
vegsræktun. Voru þarna samankomnir helztu framámenn á þessu