Heilbrigðismál - 01.03.1995, Blaðsíða 4

Heilbrigðismál - 01.03.1995, Blaðsíða 4
Hinn kærulausi heili í nýlegum leiðara Heilbrigðis- mála (1-2/1994) var vakin athygli á rannsóknum Þjóðverja á viðbrögð- um heilans við utanaðkomandi at- burðum og áreiti. Rannsóknirnar hófust fyrir aldarfjórðungi og hefur verið fylgst með fjögur þúsund manna hópi sem reglulega gengur undir margvíslegar tilraunir. Fyrstu tilraunirnar bentu til þess að lyktar- skyn og bragðskyn fólksins væri að breytast smávægilega þannig að næmi minnkaði. Þessi tvö skynfæri eru frumstæðust í manninum og það róaði vísindamennina að engar breytingar fundust þá á skyni sjón- ar og heymar. En í byrjun níunda áratugarins kom í ljós að öll skyn- færin höfðu minna næmi en áður og að breytingar voru eindregið í þá átt að stöðugt öflugra áreiti þurfti til þess að vekja skynstöðvar heilabarkarins. Breytingarnar eru nú orðnar svo örar að talið er að ár- lega minnki næmi skynsins um einn af hundraði. Vægari og fín- gerðari áreiti á skynfæri komast ekki lengur til meðvitundar en í stað þeirra berst vaxandi fjöldi grófra áreita sem leiða til öflugra viðbragða. Heilinn virðist þurfa að breyta um vinnuaðferðir til þess að verja sig gegn nýjum og oftast óþægilegum áreitum, t.d. með því að hleypa miklum fjölda þeirra framhjá miðstöðvum tilfinninga. Þannig vekja ofbeldismyndir ekki lengur eðlileg tilfinningaviðbrögð hjá ungu fólki heldur aðeins hjá þeim eldri. Ástæða er til að skoða þessa þýsku rannsókn nánar. Tilraunir Þjóðverjanna eru aðal- lega lífeðlisfræðilegar og er meðal annars mældur hjartsláttar- og önd- unarhraði, vöðvaspenna, blóð- þrýstingur, blóðmagn, mótstaða húðar, rafbylgjur heilans og sjáald- ursvídd og niðurstöður síðan settar inn á flókin tölvukerfi sem reikna út meðalgildi fyrir tilraunahópinn. Á þann veg hefur fundist að um- talsverð breyting hefur orðið á lykt- arskyni, meira þarf en áður til að erta það nægilega svo að boð berist til meðvitundar. Einnig hefur smekkur fólks breyst á tímabilinu, þannig að einstök efni, t.d. kastan- íuilmur sem áður var talinn vel- lyktandi, þykir núna meðal yngra fólksins hafa frekar leiðinlega lykt. Bragðskyn hefur minnkað þannig að nú þarf 29% sterkara sætuefni en áður til þess að vekja sætt bragð- skyn, 44% sterkara salt til að vekja saltskyn, 60% sterkara fyrir súr- skyn og 100% sterkara fyrir beiskt skyn. Eðlisbreytingar hafa einnig orðið og unga fólkinu finnst t.d. kavíar og kampavín ekki lengur bragðgóð vara. Heymarskyn hefur breyst. Þannig gátu Þjóðverjar fyrir fimmtán árum almennt skynjað 300 þúsund mismunandi tónbrigði en nú aðeins 180 þúsund. Mörg börn skynja aðeins um 100 þúsund tón- brigði sem virðist nægilegt fyrir þungarokk og slíka tónlist. En svo gróft skyn nægir ekki til þess að njóta hinna ýmsu fínu blæbrigða í sígildum tónverkum. Til kynörvun- ar fyrir karla þótti fyrir tveimur eða þremur áratugum nóg að sýna mynd af konu í undirfötum en nú til dags þurfa ungir karlar grófar samfaramyndir til þess að vekja kynlöngun. Almennt má segja að á sviði skyns og tilfinninga séu hár- fín boð enn í fullu gildi meðal eldri kynslóðarinnar en að meðal hinnar yngri séu öfgar allsráðandi. Mannsheilinn er að breytast á þrennan hátt. Hann hefur hækkað lágmarksstyrk boða til meðvitund- ar, gerst kærulausari gagnvart um- hverfinu og síðast en ekki síst gert það mögulegt að vinna sjálfstætt úr mörgum boðum samtímis án þess að þau trufli hvert annað. Af því síðastnefnda leiðir að maðurinn á hægara með að lifa með andstæð- um þar sem hann leggur ekki til- finningalegt mat á aðstæður. Dæmi um það er að fólk notar ósoneyð- andi efni þó að það hafi áhyggjur af þynningu ósonlagsins. Kæruleysisheilinn bjargar okkur úr ógöngum andstæðra tilfinninga. Spá þýsku vísindamannanna er sú að framtíð mannkyns á næstu öld, með ört vaxandi áreiti útvarps, sjónvarps, blaða og kvikmynda, verði háð því að heilinn loki sig sem mest af frá umhverfinu og að hann forði sér frá því óumflýjan- lega með því að sleppa tilfinninga- legu mati aðstæðna. Okkur verður þá spurn: „Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?" Jónas Hallgrímsson, prófessor. 4 heilbrigðismAl 1/1995

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.