Fréttablaðið - 19.06.2010, Page 26
26 19. júní 2010 LAUGARDAGUR
A
ðild Íslands að Evrópusam-
bandinu hefur verið áhugamál
og draumur Össurar Skarphéð-
inssonar utanríkisráðherra um
langt árabil. Málið er nú komið
á dagskrá, Ísland hefur sótt um
aðild, og leiðtogaráð sambandsins samþykkti
á fimmtudag að hefja aðildarviðræður við
Ísland.
Hvað finnst þér um ákvörðun leiðtogaráðs-
ins, og hvenær munu eiginlegar viðræður hefj-
ast?
Þetta er mikið ánægjuefni fyrir mig, sem er
búinn að slást fyrir þessu máli lengi. Það var
ekki sjálfgefið að þetta yrði á dagskrá. Það var
draugagangur í málinu. Við náðum með hjálp
vinveittra ríkja að tryggja að málið kæmist á
dagskrá leiðtogaráðsins. Það hefði raunar verið
mjög óeðlilegt hefði það ekki gengið eftir, enda
Ísland búið að uppfylla öll skilyrði.
Þetta eru vissulega kaflaskipti. Nú hefst nýr
kafli í sögu samvinnu okkar og Evrópusam-
bandsins. Framundan eru samningaviðræður,
sem munu vonandi enda með því að við komum
heim með samning sem þjóðin fær svo að taka
afstöðu til. Sem eindreginn Evrópusinni er ég
ekki síst glaður vegna þess að ég tel að umsókn
og aðild að Evrópusambandinu sé burðarásinn
í að byggja upp nýtt Ísland.
Miklir möguleika á evrópskum mörkuðum
Hvað er líklegt að viðræðurnar muni taka
langan tíma?
Bæði í Brussel og hér heima eru sérfræð-
ingar sem telja að þetta verði snöggar og
snarpar viðræður. Ástæðan er sú að þetta er
í fyrsta skipti sem Evrópusambandið er að
semja við land sem er búið að taka upp um
70 prósent af regluverkinu. Ég er hins vegar
þeirrar skoðunar að þetta geti orðið erfiðari
og langdregnari viðræður en margir telja. Það
er hugsanlegt að þjóðin geti ekki tekið afstöðu
til samnings fyrr en á næsta kjörtímabili.
Þarna eru að minnsta kosti tvö erfið mál.
Fiskveiðarnar eru sérlega erfiðar, ég er þeirr-
ar skoðunar að viðtökur almennings muni að
verulegu leyti ráðast af þeim samningum sem
nást um sjávarútveginn. Þar eru mörg erfið
mál, ekki síst varðandi aflaheimildir. And-
stæðingar aðildar telja óhæfu að gera samning
við ESB vegna þess að hann leiði óhjákvæmi-
lega til þess að fiskveiðiflotar Portúgals,
Spánar, Þýskalands stefni allir hingað eftir
að skrifað hefur verið undir. Út á það hefur
áróður þeirra gengið.
Ég tel hins vegar að reglurnar séu þannig
að það verði mjög torsótt fyrir nokkra þjóð
að sækja hingað aflaheimildir, og við stönd-
um fast gegn því. Á þessum og öðrum erfið-
um atriðum tengdum sjávarútveginum mun
örugglega steyta einhvern tímann í viðræð-
unum. Þetta er það sem ræður úrslitum um
samninginn. Við munum heldur taka okkur
lengri tíma en skemmri til að ná árangri í
þessum málum.
Landbúnaðarmálin verða örugglega líka
erfið. Margir hafa sterkar tilfinningar í því
máli, allir Íslendingar eru af smábændum eða
sjómönnum komnir. Eftir að hafa kynnt mér
mjög nákvæmlega reynslu Finna, og rætt ítar-
lega við sérfræðinga og stjórnmálamenn þar í
landi, er ég þeirrar skoðunar að módelið sem
Finnar náðu fram um landbúnað á norður-
hjara geri okkur kleift að ná samningum sem
við ættum að geta lifað með. Allt mun þetta
koma í ljós við samningaborðið.
Þar að auki finnst mér talsmenn bænda
á Íslandi alltaf gleyma því að afurðirnar úr
íslenskum landbúnaði eru hágæðaafurðir. Ég
held að miklir möguleikar geti opnast fyrir
þær á evrópskum mörkuðum. Ég held þeir
ættu miklu frekar að beina sínu markaðs-
átaki til Evrópu en til Bandaríkjanna eins og
þeir gera nú.
Aldrei í pólitískri óskastöðu
Varla er það góð staða að fara í aðildarvið-
ræður nú, þegar andstaða við viðræður mælist
mikil hér á landi. Væri ekki óskastaðan að
fara í viðræður með breiðan stuðning að baki
aðildarviðræðum?
Ég hef aldrei lifað í pólitískri óskastöðu,
nema mjög skamma stund í einu. Pólitík er
ekki síst að kunna á tímasetningar, vita hve-
nær á að halda sjó og hvenær siglingin hefst.
Margar þjóðir sögðu að það væri pólitískt
ómögulegt að ná Íslandi í stöðu umsóknarrík-
is fyrr en Icesave væri frá. Það tókst nú samt.
Ég er sjálfur algerlega fullviss um að aðild er
það eina rétta fyrir Ísland. Ég hef fulla trú
á skynsemi íslensku þjóðarinnar, og að hún
muni í fyllingu tímans taka afstöðu sem er
henni og börnum okkar fyrir bestu.
Ég er þeirrar skoðunar að það verði ómögu-
legt fyrir okkur að byggja upp nýtt Ísland með
gömlu krónuna reyrða í viðjar varanlegra
gjaldeyrishafta. Valkostirnir virðast vera
tveir. Annars vegar krónan í fjötrum gjald-
eyrishafta. Hins vegar evran með lágum vöxt-
um, lágri verðbólgu og traustu efnahagslegu
umhverfi. Þetta eru valkostirnir, og ég tel að
þetta muni ráða miklu þegar þjóðin þarf að
taka ákvörðun.
Annað sem skiptir miklu máli er atvinnu-
leysið. Um síðustu áramót voru 14 þúsund
atvinnulausir á Íslandi. Næstu tíu árin þurf-
um við að búa til um 35 þúsund störf. Það er
alveg ljóst að þau verða ekki til í hefðbundnum
atvinnuvegum eins og sjávarútvegi og land-
búnaði. Þær greinar eru að standa sig vel
varðandi aukna framleiðni, en þar er störfum
fremur að fækka vegna nýrrar tækni. Áhersl-
an verður að vera á nýjar greinar sem byggj-
ast á hugviti og sköpun, ekki síst hátæknifyrir-
tæki sem nú þegar eru að skapa 25 prósent af
útflutningsverðmætunum. Fyrirtækin í nýju
greinunum munu skapa störfin og bægja frá
vofu varanlegs atvinnuleysis. Það skiptir öllu
fyrir okkur að skapa þeim stöðugt umhverfi,
lága vexti og litla verðbólgu. Þetta verður best
gert með aðild að Evrópusambandinu.
Aðild treystir stoðir fullvalda ríkis
Þú nefnir trausta evru, nú hefur aldeilis gefið
á bátinn á þeim bænum undanfarið. Er evran
einhver lausn á vanda Íslands?
Evran hefur lent í ólgusjó, ekki síst vegna
Grikklandsmálsins. Nú bendir flest til að
búið sé að komast fyrir rót vandans. Berum
saman Grikkland og Ísland. Grikkland lenti í
kreppu vegna þess að stjórnvöld tengdu fram-
hjá, þau leyndu að einhverju marki útgjöldum
ríkisins. Hvað gerir að verkum að Grikkland
kemst út úr kreppunni, þó það kosti grísku
þjóðina blóð, svita og tár? Fyrst og fremst sá
sterki bakhjarl sem Grikkland hefur í Evr-
ópusambandinu. Ef Ísland hefði haft sama
bakhjarl þegar við fórum í gegnum okkar
efnahagshrun hefðu afleiðingarnar af fjár-
málakreppunni orðið miklu léttbærari. Ég
er raunar þeirrar skoðunar að ef Ísland hefði
borið gæfu til að ganga í Evrópusambandið
fyrir tíu árum og taka upp evruna hefðum
við ekki lent í þeim gríðarlegu hremmingum
sem urðu hlutskipti Íslands. Ég er líka þeirr-
ar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu
treysti stoðir okkar sem fullvalda ríkis. Það
segi ég vegna þess að aðild leiðir Ísland að
borðinu þar sem ákvarðanirnar eru teknar,
í stað þess að þurfa að taka löggjöfina hráa
upp í gegnum samninginn um Evrópska efna-
hagssvæðið, þar sem við höfum takmarkaða
möguleika til að láta rödd okkar heyrast.
Ég hafna því þegar menn segja að aðild að
Evrópusambandinu feli í sér fullveldisafsal.
Fullveldisframsalið var miklu fremur með
samningnum um evrópska efnahagssvæðið,
sem sannarlega var á gráu svæði gagnvart
stjórnarskránni. Í heiminum í dag styrkja
smáþjóðir fullveldi sitt með því að deila því,
alveg eins og við höfum gert með norræna
vinnumarkaðinn.
Einn af þeim beisku lærdómum sem við
höfum lært allar götur frá 2001 er að það er
mjög erfitt fyrir lítið ríki að halda úti sjálf-
stæðri örmynt í alþjóðavæddum heimi. Inn-
ganga í Evrópusambandið opnar möguleika
á því að Ísland geti tekið upp evruna, og það
held ég að skipti öllu máli fyrir framtíðina.
Reynsla lítilla ríkja, til dæmis Möltu, er
jafnframt að erlendar fjárfestingar aukast
mikið með aðild. Við þurfum á erlendri fjár-
festingu að halda til að geta búið til störf.
Til lengri tíma þurfum við líka að horfa til
þess hvernig við komum okkar varnar- og
öryggismálum sem best fyrir. Atburðarás-
in í kringum brottför hersins sýndi það svart
á hvítu. Aðild að Evrópusambandinu er ekki
síst öryggismál frá mínum sjónarhóli. Það að
verða hluti af Evrópufjölskyldunni yrði eitt
og sér afar mikilvæg öryggistrygging fyrir
litla og vopnlausa þjóð í viðsjálum heimi.
Hvaða áhrif telur þú að Icesave-deilan
muni hafa á aðildarviðræðurnar?
Forysta Evrópusambandsins hefur marg-
sinnis lýst því yfir að Icesave-málið sé tví-
hliða deila sem við eigum í við Breta og Hol-
lendinga, og komi aðildarumsókninni ekkert
við. Núna er deilan komin í farveg hjá ESA
sem er sérhannaður til að leysa slíkar deilur.
Formlega ætti því Icesave-málið ekki að hafa
nein áhrif á samningsferlið.
Í hinum pólitíska veruleika er það samt
þannig að það má allt eins gera ráð fyrir því
að Icesave geti á einhverjum stigum truflað
samningaviðræðurnar, sérstaklega um fjár-
málakaflann. Það verður bara að koma í ljós.
En það verður engin fljótaskrift á samningum
um Icesave vegna ESB. Það er tryggt, meðal
annars með aðkomu stjórnarandstöðunnar
að Icesave-samningunum, það verða engir
samningar nema stjórnarandstaðan telji að
þeir séu ásættanlegir. Auðvitað vilja allir ná
samningum og í mars munaði ekki nema einni
spönn að slíkir samningar næðust.
Sjávarútvegsmál ráða úrslitum
Aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og aðildarviðræður sem nú fara í hönd eru skref í átt að því að gamall draumur
rætist hjá Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra. Hann settist niður með Brjáni Jónassyni og ræddi Evrópumálin, stöðu
Samfylkingarinnar, og svaraði því hvort hann hafi áhuga á því að taka við embætti formanns Samfylkingarinnar í framtíðinni.
Samfylkingin hefur ekki enn horfst í augu við
ábyrgð flokksins í aðdraganda hrunsins, segir
Össur. Þar segist hann ekki vera að tala um þátt-
töku í ríkisstjórn frá árinu 2007, heldur með því
að veita ákveðinni hugmyndafræði löggildingu.
Samfylkingin hafi ekki lesið stöðuna rétt.
„Allir flokkarnir voru rassskelltir í sveitar-
stjórnarkosningunum. Minn flokkur ekki síst. Ég
tel hins vegar að flokkarnir muni læra af þessari
reynslu, en ef þeir gera það ekki er ég nokkuð
viss um að upp koma nýjar hreyfingar í næstu
kosningum sem geta tekið fram úr hefðbundnu
flokkunum. Það er eins og það á að vera og
ekkert við því að segja,“ segir Össur.
„Ég tel líka að Samfylkingin hafi frá því
snemma á þessum áratug ranglega tekið sér
stöðu með ákveðinni blokk í viðskiptalífinu, sem
var í átökum við aðrar rammpólitískar viðskipta-
blokkir.“ segir hann.
Spurður hvort hann eigi við Baug segist Össur
ætla að leyfa sér þann munað að ræða það á
öðrum vettvangi: „Ég tel að í þessu hafi okkur
orðið á mistök, og við eigum eftir að gera það
upp innan okkar raða, og horfast í augu við það.
Þetta er hluti af því sem verið er að refsa okkur
fyrir. Við erum fjarri því að vera blásaklaus af
þessari hugmyndaþróun sem leiddi það af sér
að allir féllu fram og tilbáðu gullkálf markaðar-
ins.“
Össur segir þetta ástand geta skapað grund-
völl fyrir nýjar, óskipulagðari grasrótarhreyfingar
í ætt við Besta flokkinn í Reykjavík. Sjálfur sé
hann hrifinn af Besta flokknum, ekki síst nýja
borgarstjóranum, og telji að þeir muni koma á
óvart.
Eftir að hafa sett upp spádómshatt segist
Össur telja að ríkisstjórnin muni sitja út kjör-
tímabilið. Kjósendur vilji að stjórnmálamenn
ljúki ákveðnum málum, og það muni ríkisstjórn-
in gera. „Ég held að staða ríkisstjórnarinnar muni
styrkjast þegar líður fram á þetta ár. Ástæðurnar
eru tvær. Annars vegar eru mörg jákvæð teikn
að koma fram í atvinnulífinu, menn eru að ljúka
ákvörðunum og koma af stað stórframkvæmd-
um sem beðið hefur verið eftir. Hins vegar hafa
stjórnarflokkarnir náð lendingu um komandi
fjárlög. Efnahagsástandið er að batna, sem gerir
okkur auðveldara að sigla í gegnum næsta ár,
sem verður síðasta erfiða árið. Við erum að rísa
úr öldudalnum,“ segir Össur.
Sjálfur aftekur hann að taka við sem formaður
Samfylkingarinnar, ákveði Jóhanna Sigurðar-
dóttir að stíga til hliðar á næstunni. „Mínum
formannsferli í Samfylkingunni er lokið og ég
hef engan hug á því að verða formaður þar. Ég
hef mikla ánægju af því að taka þátt í því að
vera í forystusveitinni núna. En í Samfylkingunni
er fullt af ungu fólki með blóðið fullt af pólitísk-
um hormónum, og þeirra er ríkið, og framtíðin,“
segir Össur.
Þarf að gera upp stuðning Samfylkingarinnar við eina blokk í viðskiptalífinu
ENGIN FLJÓTASKRIFT Icesave gæti haft áhrif á aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið, en það verður ekki til þess að Icesave-málinu verði lokið, hvað sem
það kostar, segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Það segir hann meðal annars tryggt með aðkomu stjórnarandstöðunnar að samningunum.
FR
ÉTTA
B
LA
Ð
IÐ
/G
VA