Fréttablaðið - 20.08.2011, Blaðsíða 78
20. ágúst 2011 LAUGARDAGUR38
Fyrir réttu 71 ári, hinn 20. ágúst árið 1940, var Leon Trotskí,
einn af forvígismönnum rússnesku
byltingarinnar árið 1917, ráðinn
af dögum á heimili sínu í útjaðri
Mexíkóborgar.
Trotskí bjó þar í útlegð, en morð-
inginn, Ramón Mercader að nafni,
var útsendari Jósefs Stalíns, erki-
óvinar Trotskís.
Í aðdraganda byltingarinnar var
Rússland mikill suðupottur þar sem
rótttækar hugmyndir um nýja sam-
félagsgerð, byggðar á kenningum
Karls Marx, áttu sér marga fylgis-
menn í hópi verkalýðs og mennta-
manna.
Leon Trotskí var einn af helstu
samstarfsmönnum Leníns, for-
sprakka bolsévika, en eftir lát þess
síðarnefnda árið 1924 varð Trotskí
undir í valdabaráttu við Jósef Stalín.
Í kjölfarið var Trotskí ofsóttur á
flestan hátt og loks gerður útlægur
árið 1929.
Hann bjó fyrst um sinn í Tyrklandi en hafði viðdvöl í Frakklandi og
Noregi áður en hann fékk loks hæli í Mexíkó árið 1936.
Hann var alla tíð sem fleinn í holdi Stalíns og um það leyti var hann
fundinn sekur um landráð í sýndarréttarhöldum.
Trotskí lifði af tilræði Stalínista í maí árið 1940 en hann var ekki svo
lánsamur næst.
Morðinginn Mercader hafði um nokkurra ára skeið stefnt að því að
vinna sér traust Trotskís og var orðinn fastagestur á heimili hans. Hann
fór síðan kvöldið örlagaríka heim til Trotskís, sem bauð honum inn í
vinnustofu sína.
Mercader neytti síðan færis þegar gestgjafinn grúfði sig yfir pappíra
á skrifborði og sló hann í höfuðið með ísöxi sem hann hafði falið í frakka
sínum.
Trotskí lést ekki strax, heldur réðist á árásarmanninn og kallaði á
hjálp. Mercador var tekinn höndum og færður lögreglu en Trotskí lést
af sárum sínum daginn eftir.
Mercador var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir morðið og sovésk yfirvöld
sóru af sér alla ábyrgð á verknaðinum. Að lokinni afplánun flutti hann til
Kúbu og síðan Sovétríkjanna, þar sem honum var fagnað eins og hetju. - þj
Heimildir: History.com og Wikipedia
Í ÞÁ TÍÐ: Árið 1940
Leon Trotskí ráðinn
af dögum í Mexíkó
MYRTUR Í MEXÍKÓ Leon Trotskí var
myrtur með ísöxi á heimili sínu í Mexíkó
af útsendara Stalíns, erkióvinar síns.
Sjónarhorn
Ljósmynd: Vilhelm Gunnarsson
MÖRG ANDLIT NÁTTÚRUNNAR Náttúran tekur á sig hinar ýmsu myndir eins og Vilhelm Gunnars-
son, ljósmyndari Fréttablaðsins, komst að á ferð sinni um Breiðamerkursand í vikunni. Ýmislegt kemur
upp í hugann þegar ímyndaraflið tekur völdin, til að mynda er með góðu móti hægt að sjá rostung eða
jafnvel eðlu út úr bláleitum ísjakanum.