Viðar - 01.01.1942, Síða 61
Viðar]
Arnheiður Sigurðardóttir:
Æska og elli.
Æskan er sá tími mannsæfinnar, sem vanalega er
þrunginn mestri gleði. Þegar menn minnast fegurstu
stunda sinna, eru þær vanalega bundnar við æskuárin.
Þetta er eðlilegt. Þá er maðurinn að þroskast og vaxa,
finnur gróandann í sjálfum sér. Hann á allt lífið fram-
undan sér með þess mörgu möguleikum, og ef til vill
er mesta gleðin við það, að vera ungur, einmitt fólgin í
þessu: að geta vonað, vænzt einhvers.
„Fjarlægðin gerir fjöllin blá,“ segir máltækið, og hvergi
mun það eiga betur við en um æskuna. Við þekkjum öll
þau vonbrigði að sjá fjall, sem í fjarlægðinni hefur virzt
blátt og tignarlegt, verða að kolsvörtu ferlíki, þegar við
komum nær því. Líkt er það með marga fegurstu fram-
tíðardrauma æskumannsins. Þeir vilja missa töfra sína,
þegar út í gráan hversdagsleikann kemur.
Eitt er það, sem börn og unglinga dreymir mest um, en
það er að verða fullorðinn — stór, eins og það er kallað.
Ég hugsa, að einmitt þetta: að verða stór, verði mörgum
mestu vonbrigðin.
Það er yndislegt að vera ungur, en það hefur líka sínar
skuggahliðar. Sennilega færir ekkert aldurskeið mann-
inum fleiri vonbrigði. Mesti vandinn við að vera ungur,
er þessi: að kunna að mæta vonbrigðum lífsins án þess
að bugast eða missa trúna á sjálfan sig og framtíðina.
Þetta reynist mörgum erfitt og fátt er ömurlegra en að
sjá fólk, sem er að komast af æskuskeiðinu án þess að
hafa öðlazt nokkra lífsstefnu. Það á sér enga drauma eða
vonir, er hætt að geta skemmt sér nema þá undir ein-
hverjum sérstökum kringumstæðum, það eygir engin
markmið.