Útvarpstíðindi - 01.11.1953, Blaðsíða 25

Útvarpstíðindi - 01.11.1953, Blaðsíða 25
Svo voru meiri stunur og blástrar og mæða, unz röddin tók aftur til máls og sagði: „Áttu eldspýtu, vinur?“ Eldspýtan lýsti upp andlitið á honum meðan hann kveikti í stubbnum, en ég kannaðist ekkert við hann, enda varð hann að halda eldspýtunni svo nærri andlitinu, vegna þess hve stubburinn var stuttur, að skuggarnir gerðu það af- káralegt eins og grímu, og mundi ég því sennilega ekkert hafa kannazt við hann, þó ég hefði þekkt hann. Hann sogaði að sér reykinn, stundi enn og sagði: „Strákarnir voru svo góðir leyfa xiér að liggja hérna í nótt.“ „Hvaða strákar?“ spurði ég. Hann þagnaði aftur og stundi svo- lítið meira og sagði svo: „Hvaða bátur er þetta annars?“ „Guðmundur Þorlákur,“ sagði ég. „Æ, það hefur kannski verið ein- hver annar bátur,“ sagði hann og stundi enn. Svo var hann búinn með stubbinn og sagði: „Þú segir það, vinur.“ En ég hafði ekki sagt neitt. Ég heyrði að hann tók tappa úr flösku- „Það er ljótan,“ sagði hann, „fyrir einhleypan mann að lenda á fylliríi í þessum bæ og vera húsnæðislaus.“ Ég kvaðst ekki rengja hann um það. Og þó væri eflaust verra fyrir fjöl- skyldumann að lenda í húsnæðisleysi í þessum bæ — og vera ódrukkinn. „Þú segir það, vinur,“ sagði hann. Því næst var eins og hann héldi niðri í sér andanum nokkur augnablik, og á eftir kom löng stuna. Þá sagði maðurinn: „Já, það er ljótan. Og ekki gott að segja hvernig þetta endar.“ En mér var farið að þykja nóg um alla þessa sjálfsvorkunn, og ég hvatti manninn til að herða upp hugann, enda væru margir verr settir en hann; auk þess sem ég hefði ekki heyrt betur en að hann ætti afrétting, og að eiga af- rétting, væri það nú ekki eiginlega eins og að eiga íbúð? „Þessi óvera gat nú varla heitið því nafni,“ sagði hann, „svolítill so'pi, ekki einu sinni gúlsopi.“ „0-jæja,“ sagði ég, „að eiga einn lítinn afrétting, er það nú samt ekki svona eins og að eiga að minnsta kosti smá- íbúð?“ „Þú ert gamansamur, vinur,“ sagði hann og lagði frá sér flöskuna svo hún heyrðist velta eftir lúkarsgólfinu. Og eftir að hann var nú orðinn brennivínslaus 1 viðbót við að vera húsnæðislaus, þá stundi hann, blés og andvarpaði ennþá meira en nokkru sinni fyrr. Því næst sagði hann: „Mér var að detta í hug hvort það færi nú ekki að gerast eitthvað stórt hjá þeim þarna á þinginu..“ En í sömu svifum var aðalvélin sett í gang, og ég sagði að nú færi báturinn að fara og lét manninn ganga á undan mér upp stigann úr lúkarnum, og síðan klöngraðist hann stynjandi yfir bátana tvo upp á bryggjuna og hvarf í myrkrið milli verbúðanna. Ég hafði aldrei feng- ið tækifæri til að sjá alminlega framan í hann, né heldur fékk ég nokkurn tím- ann að vita, í hvaða málum honum hafði dottið í hug það færi að gerast eitthvað stórt hjá þeim þarna á þinginu, hvort heldur það var í áfengismálunum — eða húsnæðismálunum. ÚTVARPSTÍÐINDI 25

x

Útvarpstíðindi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Útvarpstíðindi
https://timarit.is/publication/728

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.