Árdís - 01.01.1955, Síða 12
10
ÁRDÍ S
fegurstar. Beltið var nauðsynlegur hluti kyrtilsins og hefur víst
verið eitt aðalskraut búningsins og þess vegna verið vandað og oft
afar-skrautlegt.
Konur munu og oft hafa gengið með armana bera, að minnsta
kosti á hinum Norðurlöndunum, og líklega á íslandi, þótt ekki sé
þess getið. Oftast munu kyrtlarnir þó hafa haft ermar, ýmist hálfar
eða heilar, oftast tvennar; ytri ermar víðari en þrengri ermar innst.
Mörg önnur heiti koma fyrir þegar lýst er kvenbúningum í
fornum sögum. í Rígsmálum segir svo:
Sveigr var á höfði,
smokkr var á bringu,
dúkr var á hálsi,
dvargar á öxlum.
Um sveiginn eða faldinn hef ég rætt ýtarlega. Smokkr á
bringu hefur án efa verið nærupphlutur — en dúkur á hálsi hefur
verið höfuðdúkurinn, sveipaður um hálsinn. Dvergar eru enn í
dag af sumum kallaðar stuttar stoðir sem standa á bitum, til að
halda upp máttarröftum, en á búningum munu þeir hafa verið
kallaðir dvergar, vegna þess að þeir hafa haldið upp upphlutnum
eða verði einskonar hlírar.
í sögunum er oft talað um serk, bæði á körlum og konum, og
er oft sagt að þeir hafi verið úr silki eða ofnir silfri. Þannig segir
Ragnar loðbrók um serk þann hinn dýra er hann gaf Áslaugu:
Viitu þennan þiggja,
er Þóra hjörtr átti,
serkr við silfr of merktan,
sama allvel þér klæði.
Fóru hendr hvítar
hennar um þessar gjörvar,
sú var buðlungi bragar
blíðum bekk til dauða.
Af vísu þessari má sjá, að í serkinn hafa verið saumaðar rósir
úr silfri, því mörk er sama og skraut og rósir.
Serkirnir munu ætíð hafa verið ermalausir eða með hálf-
ermum, búnir til úr léttu efni, sem konur og karlar báru oft yztan
klæða. Serkurinn var þó stundum borinn innst og hafa konur
jafnt sem karlar sofið í serknum, en þá voru þeir kallaðir náttserkir.