Árdís - 01.01.1955, Qupperneq 51
Ársrit Bandalags lúterskra kvenna
49
var hlakkað til næsta fundar. Stöku sinnum var ekið á uxa eða
uxapari „og þá var nú gaman að fara á fund“, sögðu þær.
í mörg ár voru þrír ákveðnir fundir á ári, en 1940 var því
breytt og fundir hafðir mánaðarlega frá apríl til nóvember. Þar
sem lítið er hægt að framkvæma án peninga, mun fjárhagsmál
félagsins hafa verið ofarlega á dagskrá. Til að afla fjárs voru haldnar
skemmtisamkomur, ein eða tvær á ári. Var þá til skemmtunar
ræður, upplestur, söngur og stundum tómbóla, happdrættir eða
kökuskurður. Á fyrstu starfsárum félagsins var reynt að hafa
stutta sjónleiki og var þá gott að leita til J. M. Bjarnasonar og Dr.
Pálssonar, sem þá voru í bygðinni, að semja þá. Seinna var leitað
lengra út á við og stærri íslenzk eða þýdd leikrit tekin til með-
ferðar. Naut þá félagið oft hjálpar frá Tim. Böðvarssyni við æfing-
arnar. Nú eru fjölda mörg ár síðan að félagið hætti algjörlega að
annast um leiksýningar og hefir það treyst mest á danssamkomur,
sem hafa reynzt arðsamar þessi síðustu ár. En einnig hefur félagið
haft útsölu á heimaunnum munum, sem félagskonur hafa gefið.
Þótt margt hafi breyzt í sambandi við samkomur félagsins, þá
hefur eitt atriði haldist við frá því fyrsta og það er að hafa kaffi og
góðar veitingar. Ekki hefur mér tekizt að finna út hvernig þessu
var háttað á fyrstu starfsárunum, en eftir aldamót eða að líkindum
kringum 1907 var það til siðs, að kvenfélagið keypti efni til veit-
inganna og svo voru fengnar stúlkur til að skiptast á að gera
baksturinn. Var það verk unnið vel og fljótt. Ekki treysti ég mér
að nefna allar þær stúlkur, sem verkið unnu, því þá er hætt við
að einhver þeirra gleymist. En dæmalaust voru kökurnar góðar og
smábrauðið gómsætt.
Fyrsta samkoma félagsins var höfð í litlu bjálkahúsi, sem var
notað fyrir kenslustofu. Það stóð á Fljótshlíðarjörðinni fyrir norðan
Kjarna. En svo var nýtt skólahús byggt miklu sunnar og var það
notað í mörg ár fyrir samkomur eða þangað til kvenfélagið réðist í
að byggja hið svonefnda Geysir Hall. Við þetta fyrirtæki hjálpaði
„bændafélagið“, sem þá var starfandi innan bygðarinnar, og einnig
afar margir einstaklingar. Þetta mun hafa verið um 1909, því í
fjárhagsskýrslu frá 1908 er „útgjald, skólahúslán $300.00“, en ekki
er minst á neitt þess konar útgjald í skýrslu frá 1909. Um 1916—1919
var óumflýjanlegt að flytja Geysir Hall nær miðpunkti bygðarinn-
ar eða að „Norðstungu“. Þetta útheimtaði meira fé en félagið treysti