Morgunblaðið - 04.06.2009, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 04.06.2009, Blaðsíða 29
af. Jón barðist við illvígan sjúkdóm síðasta árið sem hann lifði og var hann kjarkmikill í þeirri baráttu eins og maður gat búist við af hon- um. Hann var mjög lítið fyrir að kvarta og ég heyrði hann raunar aldrei kvarta eða barma sér yfir einu eða neinu á þeim áratugum sem ég þekkti hann. Hann var líka þess eðlis að það var honum ekki eiginlegt að bera tilfinningar sínar á torg. Jón var auk þess að vera frábær í stærðfræði, sem var hans aðalfag í háskóla með trygginga- stærðfræði sem sérfræðigrein, mik- ill áhugamaður um sögu. Hann var ótrúlega vel að sér, m.a. um seinna stríð og las sér mikið til um sögu þess. Mest las hann bækur eftir er- lenda sagnfræðinga um ýmis sagn- fræðileg málefni. Hann las líka Newsweek í hverri viku og fylgdist vel með málefnum líðandi stundar í heiminum. Jón var gríðarlega örlát- ur og studdi börnin sín með ráðum og dáð. Hann var samt innilega þakklátur ef hann fékk að gjöf eitt- hvert smáræði, til dæmis bók í af- mælisgjöf sem hann langaði að lesa. Jón hafði mikið dálæti á barnabörnunum og veit ég fáa sem reyndust eins þolinmóðir að sinna þeim og hann. Hann var ólatur við að sýna þeim bækur um fugla og önnur dýr og kenndi þeim að spila og las fyrir þau. Hann var einnig duglegur að tefla við börnin og hugsaði meira um þarfir þeirra en sjálfan sig. Ég gleymi því aldrei og er honum mjög þakklátur fyrir hvað hann kenndi börnunum mín- um margt og hjálpaði til við uppeldi þeirra. Hann var ekki mikið fyrir að siða þau til, ég man aldrei nokk- urn tíma til þess, heldur lærðu þau af honum kurteisi og fágaða fam- komu með því að umgangast hann. Jóns Erlings er sárt saknað meðal vina og vandamanna. Eftir standa minningarnar um sérstaklega vand- aðan mann sem ekki mátti vamm sitt vita og var einkar vel liðinn og dáður meðal þeirra sem kynntust honum. Ég vil votta Sigrúnu inni- lega samúð mína og allri hans stóru fjölskyldu. Einar Björnsson. Þegar ég var lítil stelpa, áður en ég flutti til Svíþjóðar, man ég að afi var alltaf að reyna að kenna manni eitthvað, hann vissi allt og hann gat frætt mann um allt mögulegt. Þrátt fyrir að hann hefði mikið að gera virtist hann alltaf hafa tíma til að tala við mann. Ég fékk líka stund- um að fara með í vinnuna. Ég vissi aldrei almennilega hvað hann gerði, bara að hann var að reikna eitthvað í fínum fötum á flottri skrifstofu. Hann var alltaf svo rólegur, traust- ur, þolinmóður, vanafastur og ljúf- ur og pirraðist mjög sjaldan á lát- unum í okkur krökkunum. Ég flutti til Svíþjóðar þegar ég var sjö ára gömul og dvaldist þá oft hjá afa og ömmu á sumrin. Það var alltaf jafn gott og gaman að koma til afa og ömmu. Alltaf tekið á móti mér og ýmsum gestum með mér gegnum árin opnum örmum eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég hef oft hugsað út í hvað var þægilegt og gaman að tala við afa, hann var svo góður að hlusta og einbeita sér og hafði svo mikinn áhuga á öllu mögulegu og svo vel að sér um margt. Þegar ég var á fjórða ári í lækn- isfræði tók ég skurðlækningar á Ís- landi og bjó hjá afa og ömmu heila önn. Afi hafði mikinn áhuga á að heyra sögur frá spítalanum og við fórum í gegnum daginn og allt sem hafði skeð, þegar ég kom heim af safninu á kvöldin. Síðasta sumar þegar ég kom til Íslands með strákinn minn, Einar Paulo, næstum tveggja ára, var hann strax kominn upp í fangið á langafa sínum að læra um íslensku dýrin. Ég man ég hugsaði með mér að hann afi hefði lítið breyst gegn- um árin. Um páskana hitti ég svo afa minn í síðasta sinn. Ég var með báða strákana mína, Einar 2,5 ára og Viktor 3 mánaða. Þó afi væri orðinn mjög veikur vildi hann endi- lega fá að halda á Viktori litla. Hann hélt svo fallega og varlega á honum og kyssti hann á kollinn. Takk fyrir allt sem þú hefur gef- ið mér, elsku afi minn. Sigrún Einarsdóttir. Elsku afi, þegar við hugsum til þín, vakna margar góðar minningar úr æsku okkar systkinanna. Þú varst alltaf til í hvaða ævintýri sem var, hvort sem það var að fara með okkur í fjöruferðir eða rölta út í smíðahús þar sem margir misgóðir gripir voru skapaðir. Þú átt heiðurinn af því að hafa komið okkur systkinunum á skíði og erum við ævinlega þakklát fyrir þá kennslu. Einnig gerðir þú heið- arlega tilraun til að vekja í okkur áhuga á bleikjuveiðum, með mis- jöfnum árangri því miður. Alltaf var jafngott að koma til ykkar ömmu þar sem sætabrauðið flæddi og alltaf var heitt á könn- unni. Var þá oft setið langtímum saman og spjallað um daginn og veginn. Hafðir þú alltaf skoðun á öllu og alltaf hægt að leita til þín um allt milli himins og jarðar. Þú varst hafsjór af fróðleik og fannst okkur ótrúlegt að einn mað- ur gæti vitað allt sem þú vissir. Sú skoðun breyttist þó ekki við aukinn þroska okkar, heldur þvert á móti styrktist hún. Þín er sárt saknað og munum við alltaf hugsa til þín með gleði í hjarta. Þú varst frábær afi sem sárt er að horfa á eftir. Hvíldu í friði elsku afi, Þín barnabörn, Daníel og Gwendolyn. Minningar mínar um afa byrja í smíðhúsinu, í sófanum með spen- dýrabækurnar og þegar hann sagði sögur til að svæfa mig og systur mínar. Eftir að hafa verið með afa öll sumur í Skólagerði og teflt ótal skákir við hann, mun ég alltaf muna eftir honum sem þeim ljúf- asta og gáfaðasta manni sem ég hef hitt. Sumarið 2006 bjó ég í Skólagerð- inu hjá ömmu og afa og það var svo gefandi að kynnast afa mínum bet- ur. Ég mun alltaf muna kvöldin í stofunni með afa og ömmu þetta sumar. Að koma heim eftir vinnu og umgangast þau í rólegheitunum. Ég dáðist alltaf jafn mikið að því hvað afi vissi mikið, um allt. Á sama tíma var hann alltaf jafn hóg- vær en það var einkennandi eig- inleiki afa. Þegar ég hitti afa í síðasta sinn um páskana var það einu sinni sem hann missti þráðinn í því sem hann var að segja. Mér fannst svo leið- inlegt að sjá það svo ég vildi spyrja hann hvaða jökull það væri sem maður sæi gegnum gluggann. Ég vissi að þetta var eitt af því síðasta sem afi minn mundi ruglast í. Hann svaraði rétt. Síðustu orðin hans til okkar Maríu systur minnar voru svo: „Gangi ykkur vel, elskurnar mínar.“ Ég tek með mér þessar óskir hans og mun ætíð muna úr hvaða glugga maður sér Snæfellsjökul. Takk fyrir að hafa alltaf verið góður vinur, afi, og fyrir að vera mér fyrirmynd um ókomna tíð. Stefán Einarsson. Afi Jón var rólegasti og þolinmó- ðasti maður sem við systkinin höf- um kynnst. Það var sama hvaða furðuhugmynd maður fékk, alltaf tók hann því vel og leiðbeindi manni í gegnum verkefnið á sinn sérstaka máta. Í smíðhúsinu mátti maður alltaf nota öll þau verkfæri sem maður þurfti til verksins og afi sýndi manni bara rólega hvernig hlutirnir virkuðu og hvað bæri að forðast. Þannig vorum við systkinin orðin þokkalega góð með bæði hef- ilinn og brennipennann þegar skól- inn svo ákvað að maður hefði aldur til að koma nálægt þessu. Eins var með skólaverkefnin, við höfum öll þrjú setið við borðstofuborðið hjá afa og ömmu með hin margvísleg- ustu dæmi, bæði reikningsdæmi sem og önnur verkefni og fengið leiðsögn. Allt vissi afi, hvort sem það sneri að sögu, bókmenntum eða stærðfræði, jafnvel flóknum burð- arþolsútreikningum. Ef hann gat ekki leyst dæmið strax, kom maður bara aftur daginn eftir og þá var allt klárt. Afi var alltaf duglegur að spyrja um námið sem maður stundaði, hvernig manni líkaði í skólanum, hvaða kennara maður hafði, en hann hafði kennt með sumum þeirra í Tækniskólanum, og fylgdist því vel með því sem við barnabörn- in vorum að læra. Spurningaflóðið endaði ekkert þar heldur vissu afi og amma alltaf hvað var í gangi í lífi manns, afi vissi um framtíð- arplön okkar allra, jafnvel fjárhag, fyrir utan það að vita með hverjum maður ynni og hvaða verkefni voru í gangi hverju sinni og amma held- ur reiður á öllum sem maður þekk- ir, fjölskyldum og ættum vinafólks, en þessi áhugi og þetta magnaða minni finnst okkur hreint ótrúlegur hæfileiki hjá þeim báðum. Afi Jón var góður skíðamaður og hætti ekki fyrr en eftir sjötugt á svigskíðum. Það er skondið frá því að segja að maður fylltist stolti að vera með þessum gamla afa í lyftu- röðinni því hann skíðaði miklu flott- ar og hraðar heldur en allir hinir gömlu karlarnir á svæðinu. Aldrei fór hann eins mikið í fjöllin eins og eftir að hann fór á eftirlaun og tók yfirleitt alltaf einhvern með sér, ýtti þannig undir áhuga okkar barnabarnanna á skíðamennsku. Vissan um heita kakóið hennar ömmu og smurðu brauðsneiðarnar eftir skíðaferðina latti mann nú ekki heldur til farar. Við systkinin þökkum kærlega fyrir þessar stundir sem við höfum átt með afa okkar, spila ólsen og kasínu á okkar yngri árum og ræða málefni daglegs lífs yfir kaffibolla síðar og munum við eiga margar og góðar minningar um hann. Ásdís María, Ernir og Ari Brynjólfsbörn. Elsku afi. Ég hef lært mikið af sögunum sem þú sagðir mér og mun aldrei gleyma þeim. Þessi um gamla og nýja bátinn var í uppá- haldi og þú sagðir mér hana oft og mörgum sinnum. Göngutúrarnir niður á bryggju voru alltaf jafn notalegir og þá fannst mér best að tala við þig, það var svo huggulegt að horfa á bátana og sjóinn og hlusta á röddina þína. Ég man hvað mér fannst þú góður smiður og ég var svo stolt af því að eiga afa sem gat gert allt. Núna þegar ég geng út í smíðhús fæ ég tár í augun, eitt- hvað vantar. Hlýjuna, ástina… af- ann. Það var svo notalegt að sitja í fanginu á þér að horfa á íþróttir og deila með þér vonbrigðum eða gleði. Ég hefði ekki getað hugsað mér betri, góðhjartaðri, hlýrri afa og er ég því óendanlega þakklát fyrir að vera ein af þeim sem hittu þig í þínu langa og hamingjuríka lífi. Hvíl þú í friði. Þín elskandi litla Þorgerður. Kveðja frá Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga Jón Erlingur Þorláksson, einn af stofnfélögum Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga, er látinn. Hann var fjórði Íslendingurinn, sem lauk prófi frá Hafnarháskóla í tryggingastærðfræði og tölfræði en það var á árinu 1956. Hann hélt strax heim að námi loknu og hóf þá störf hjá Hagstofunni en síðar voru störf hans að mestu tengd trygg- ingamálum. M.a. var hann fram- kvæmdastjóri Tryggingasjóðs fiski- skipa til 1986 er sjóðurinn var lagður niður en frá þeim tíma rak hann ráðgjafarstofu. Hann var virkur í starfi félagsins og var m.a. varaformaður og for- maður þess. Hann var tillögugóður á fundum og áhugasamur um vöxt og viðgang félagsins sem og starfs- greinarinnar. Við þökkum honum góð störf og ágætt samstarf um áratugaskeið og vottum eiginkonu hans og fjöl- skyldu þeirra innilega samúð. Bjarni Þórðarson, formaður. Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 4. JÚNÍ 2009 ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, stjúpfaðir, afi, lang- afi og langalangafi, HÖGNI STURLUSON, Hlíf, Ísafirði, lést á öldrunardeild Sjúkrahúss Ísafjarðar miðvikudaginn 27. maí. Útför hans fer fram frá Hnífsdalskapellu laugar- daginn 6. júní kl. 14.00. Ingibjörg Högnadóttir, Svanberg Einarsson, Jónína Högnadóttir, Birkir Þorsteinsson, Júlíus Högnason, Guðmunda Reimarsdóttir, Sturla Högnason, Sigrún Reimarsdóttir, Guðrún Högnadóttir, Þórður Jónsson, stjúpbörn, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. ✝ Innilegar þakkir fyrir samúð og hlýhug við andlát frænda okkar og vinar, GARÐARS LÁRUSAR JÓNASSONAR frá Seljateigshjáleigu, Reyðarfirði, sem lést þriðjudaginn 19. maí. Útförin hefur farið fram. Guðlaugur T. Óskarsson, Sigurbjörn Marinósson. Það er sárt til þess að hugsa að eiga ekki eftir að hitta Sonju tengdamóður aftur hér í þessari tilvist eða heyra fallega hláturinn og blíðu röddina hennar aftur. Sonja var glæsileg kona og vel af Guði gerð. Hún var einstaklega hjartahlý og heillandi manneskja með lífsgildin á hreinu. Það fór ekki fram hjá neinum að þar sem Sonja var, þar var gleði, hlátur og ást. Hún hafði svo þægilega nærveru og hún samgladdist ávallt heilshugar þegar vel gekk og var huggari og veitti styrk þegar á bjátaði. Hún sinnti móðurhlutverkinu af einskærri alúð og ást hennar var skilyrðislaus og tær. Margs er að minnast en fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að hafa átt Sonju sem tengdamóður í nær 15 ár. Fyrir þremur og hálfu ári vildi svo til að sama dag lágu leiðir okkar Sonju saman á Landspítalann, í sitt- hvorum tilganginum þó; ég að fæða frumburð okkar Inga Fróða og hún að fara í fyrstu geislameðferðina eftir að meinið tók sig upp aftur. Það var svo lýsandi fyrir Sonju að gera lítið úr sínum veikindum og sinni baráttu en áhersla hennar og áhugi var svo mikill á litla gullmolann Helga Fróða. Hún kom brosandi inn á fæð- ingardeildina eftir fyrsta daginn sinn í meðferðinni, ljómandi eins og sólin og stoltið leyndi sér ekki, fimmta ömmubarnið var fætt. Ömmudreng- urinn var henni hjartfólginn eins og Sonja Guðlaugsdóttir ✝ Sonja Guðlaugs-dóttir fæddist í Ólafsvík 10. desem- ber 1939, í húsi því sem nefnt var Betle- hem. Hún lést á heim- ili sínu aðfaranótt 24. maí síðastliðins og var jarðsungin frá Ólafsvíkurkirkju 30. maí. hin ömmubörnin og svo kom sjötta ömmu- barnið, Klara Ísafold, til okkar tæpum 17 mánuðum síðar. Hún vissi að hún fengi líka rauðgyllta ömmu- stelpu með fallegan farva eins og hún tók til orða. Þau voru ófá símtöl- in sem við áttum um lífið og tilveruna og um blessuðu börnin og óbilandi áhugi hennar á þeim leyndi sér ekki. Hún fylgdist vel með þroskaferli þeirra og hverjum áfanga var fagnað, hvort sem það voru fyrstu skrefin eða fyrsti dagurinn í leikskólanum. Hún fylgdist alltaf spennt með og góð ráð hennar voru oft vel þegin enda kona með mikla reynslu og ekki kölluð þjálfarinn fyrir ekki neitt. Minning hennar mun lifa í hjörtum okkar og við Ingi munum ávallt halda minningu hennar á lofti fyrir börnin okkar. Óteljandi myndir og sögur eru geymdar og gleymast aldrei, skemmtilegar ævintýraferðir til Ólafsvíkur að skoða kindurnar hans Helga og að borða ilmandi matinn hennar ömmu Sonju í Sandholtinu að ógleymdum hveitikökunum. Amma Sonja er hjá Jesú eins og Helgi Fróði orðaði réttilega að fyrra bragði þegar við sögðum honum að hún væri látin. Með fullvissu um að hún sé á fallegum stað hjá litlu drengjunum sínum sem hún og Helgi fengu að hafa allt of stutt hjá sér hug- hreystir okkur. Henni hefur nú án efa verið falið mikilvægt hlutverk á öðru tilverustigi þar sem hún umvef- ur allt og alla í kringum sig með kær- leika sínum og hlýju. Harpa Helgadóttir.  Fleiri minningargreinar um Sonju Guðlaugsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Morgunblaðið birtir minningar- greinar alla útgáfudagana. Skil | Greinarnar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is – smella á reitinn Senda efni til Morgunblaðsins – þá birtist val- kosturinn Minningargreinar ásamt frekari upplýsingum. Skilafrestur | Ef birta á minning- argrein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber- ist áður en skilafrestur rennur út. Greinar, sem berast eftir að útför hefur farið fram, eftir tiltekinn skila- frests eða ef útförin hefur verið gerð í kyrrþey, eru birtar á vefnum, www.mbl.is/minningar. Æviágrip með þeim greinum verður birt í blaðinu og vísað í greinar á vefnum. Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.