Morgunblaðið - 08.08.2009, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 08.08.2009, Blaðsíða 18
18 FréttirERLENT MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. ÁGÚST 2009 HUNDRUÐ flóttamanna í Karachi búa sig undir 20 klukkustunda ferð með rútum til heimkynna sinna í Swat-dal í norðvestanverðu Pakistan. Nær tvær milljónir manna flúðu átök í dalnum milli stjórnarhers Pakistans og liðsmanna talib- ana fyrr í sumar. Pakistönsk yfirvöld segja að um 100.000 fjölskyldur hafi farið til þorpa sinna í Swat á síðustu vikum. Margir flóttamannanna segjast þó óttast að talibanar komi aftur í dalinn til að berjast fyrir stofnun íslamsks ríkis. „Ég finn lyktina af þeim,“ sagði einn flóttamann- anna. „Ég hræðist þá ennþá.“ Reuters FLÓTTAFÓLKIÐ HRÆÐIST ENN TALIBANA FRÉTTASKÝRING Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is PAKISTANSKI stríðsherrann og talibanaleið- toginn Baitullah Mehsud, sem talið er nú að hafi fallið í árás Bandaríkjahers, hefur verið álitinn hættulegasti óvinur Pakistans. Hann er talinn hafa skipulagt sprengjuárásir sem kostuðu hundruð manna lífið. Skýrt var frá því í gær að Mehsud hefði beðið bana þegar mannlaust loftfar gerði árás á dval- arstað hans í pakistanska héraðinu Suður- Waziristan á miðvikudaginn var. Reynist það rétt er þetta álitið mikið áfall fyrir talibana í Pakistan og stórt skref í baráttunni við hreyfinguna. „Þetta leiðir til leiðtogakreppu, það verður mjög erfitt fyrir talibana að fylla upp í tómarúm- ið,“ sagði pakistanski blaðamaðurinn Rahimullah Yusufzai, sem hefur fylgst grannt með baráttunni gegn talibönum. „Þeir hefðu ekki getað orðið fyrir meira áfalli en að missa Mehsud.“ Mehsud er álitinn á meðal mikilvægustu banda- manna hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda. Hann er á lista Bandaríkjastjórnar yfir þá sem hún leggur mesta áherslu á að ná og hún hafði lagt fimm milljónir dollara til höfuðs honum. Bendlaður við morðið á Bhutto Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Pakistan hafa sakað Mehsud um að hafa fyrirskipað morðið á Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, sem beið bana í skotárás og sprengju- tilræði í desember 2007. Mehsud hefur neitað þeirri ásökun en játað að hafa skipulagt mann- skæðar sprengjuárásir í Pakistan. Um 2.000 manns hafa beðið bana í árásum ísl- amista í Pakistan á síðustu tveimur árum. Stjórn landsins hefur kennt pakistönskum talibönum um nær 80% árásanna. Talið er að Mehsud hafi stjórnað um 10.000- 20.000 vopnuðum talibönum. Liðsmenn hans hófu skæruhernað eftir að friðarsamkomulag fór út um þúfur árið 2005 og þeim tókst að flæma nær alla hermenn stjórnarinnar frá Suður-Waziristan. Síð- an hefur hann ráðið lögum og lofum í héraðinu. Síðustu vikur hafa bandarískar og pakistanskar hersveitir lagt mikið kapp á að fella Mehsud; Bandaríkjamenn með árásum mannlausra loftfara og Pakistanar með loftárásum. Mehsud gekk í íslamskan trúarskóla í Norður- Waziristan áður en hann hélt til Afganistans um miðjan síðasta áratug til að berjast með talib- önum. Hann varð fljótlega þekktur fyrir að vera grimmur stríðsherra. „Fólk hræðist hann, er skelfingu lostið þegar það sér hann,“ sagði pakist- anski fréttaskýrandinn Mehmud Shah. Leiðir til leiðtogakreppu  Fall illræmds stríðsherra í Pakistan talið vera mikið áfall fyrir talibana  Sagður hafa stjórnað sprengjuárásum sem kostuðu hundruð manna lífið Talið er að mjög erfitt verði fyrir talibana í Pakistan að fylla upp í tómarúmið sem mynd- aðist þegar stríðsherrann Baitullah Mehsud féll í árás Bandaríkjahers. Hann var þekktur fyrir grimmd og margir töldu hann hættuleg- asta óvin Pakistans. Reuters Stríðsherrann Mehsud „Fólk hræðist hann, er skelfingu lostið þegar það sér hann.“ Í EINNI af dæmisögum Esóps segir frá kráku sem var þyrst og rakst á uppmjóa krukku með vatni. Hún náði ekki í vatnið með gogginum en fleygði þá smásteinum í krukkuna þar til yfirborðið hækkaði svo mikið að hún gat drukkið nægju sína. Nú hafa vísindamenn við Cam- bridge-háskóla að sögn BBC gert til- raunir með bláhrafna, sem eru skyldir krákum, og virðast þeir geta sýnt sömu snilld og kráka Esóps. Gómsætum ormi var komið fyrir í glæru, uppmjóu glasi og flaut hann á vatninu í glasinu. Rétt hjá glasinu var hrúga af smásteinum. Tveir blá- hrafnar, Cook og Fry, virtust um- svifalaust skilja hvað þurfti til. Þeir virtu vandlega fyrir sér hæð vatns- yfirborðsins frá ýmsum sjón- arhornum, fóru síðan að fleygja steinum í glasið og gáfust ekki upp fyrr en þeir náðu orminum. kjon@mbl.is Fluggreindir bláhrafnar ná sér í orm BRETINN Willi- am Dowling, sem er 69 ára, bíður nú dóms fyrir að hafa reynt nokkrum sinnum að eitra fyrir eig- inkonu sína. Hann hellti kvikasilfri í te- bollann hennar en segist ekki hafa ætlað að bana henni. Hann hafi gert þetta í von um að hún yrði veik. Þá gæti hann veitt henni aðhlynningu og náð aft- ur ástum hennar en hjónabandið mun hafa verið orðið slæmt, að sögn Times. Eiginkonan fór að gruna Dowl- ing um græsku þegar hún sá silfur- kúlurnar í bollanum. kjon@mbl.is Eitraði fyrir heitt- elskaða eiginkonuna William Dowling HÆGT er að stöðva hlýnun andrúmslofts á jörðinni með því að smíða 1900 skip sem látin yrðu þyrla upp sjó. Þá yrðu til ský sem myndu draga nógu mik- ið úr hlýnuninni, segir danski tölfræðingurinn Bjørn Lomborg. Hann er þekktur fyrir gagnrýni sína á þær aðgerðir sem samþykktar hafa verið gegn hlýnun í Kyoto-sáttmálanum. Segir Lom- borg að hugmynd sín myndi kosta sem svarar um 1125 milljörðum ísl. kr. Er það mun lægri fjárhæð en aðrar hugmyndir sem nefndar hafa verið. kjon@mbl.is Lomborg vill tilbúin ský gegn hlýnun Bjørn Lomborg Eftir Kristján Jónsson kjon@mbl.is AÐEINS eitt ríki í heiminum státar af því að meirihluti þingmanna sé úr röðum kvenna: Afríkuríkið Rúanda. Þar er auk þess hlutfall kvenna í ráðherraliðinu hátt en þess ber að geta að ekki má líkja Rúanda við vestræn lýð- ræðisríki, það minnir um margt fremur á eins- flokksríki. Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt hart forsetann, Paul Kagame, sem sagður er lítt þolinmóður gagnvart andstöðu við sig og stjórn sína. Fullyrða sumir að óþægilegir stjórnarandstæðingar eigi til að hverfa. En konurnar hafa nýtt vel tækifærið til að koma í gegn lögum sem tryggja réttindi þeirra betur en áður gerðist í hefðbundnu karlaveldi Rúanda. Með nýjum lögum hafa konur fengið rétt til að eiga fasteignir og erfa, einnig hafa verið sett lög gegn ofbeldi í garð kvenna. Haft er eftir þingkonunni Speciose Mukandutiye í sænska blaðinu Dagens Nyheter að þakka megi Kagame fyrir að styrkja hlut kvenna, m.a. í ríkisstjórn. „Þetta snýst líka um vilja kvenna. Konur vilja taka þátt í stjórnmálum, ekki síst í Rúanda,“ segir hún. Eitt af því sem á þátt í að efla stöðu kvenna er einfaldlega skortur á körlum. Eins og reyndin varð sums staðar í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld varð ekki hjá því komist í Rú- anda að láta konur taka að sér mörg hefðbund- in karlastörf vegna mannfallsins í röðum karla. Hundruð þúsunda þeirra týndu lífi í átökum helstu þjóðarbrotanna, Tútsa og Hútúa, á um- liðnum árum en skelfilegastir voru atburðirnir sumarið 1994. Þá voru á nokkrum mánuðum um 800.00 manns, konur og karlar, myrt og var helsta vopnið sveðjur. Fórnarlömbin voru einkum Tútsar en einnig féllu margir Hútúar sem sakaðir voru um samúð með Tútsum. Síðustu árin hefur ríkt þokkalegur friður og framfarir hafa orðið í efnahagsmálum. Þjón- usta við erlenda ferðamenn, sem voru um millj- ón í fyrra, er nú orðin helsta tekjulindin. Afríkuríki kvenskörunganna Rúanda er fátækt og ekki lýðræðisríki í vestrænum skilningi, margvísleg réttindi eru þar fótum troðin en konur landsins náðu þeim áfanga 2008 að hreppa meirihluta á þingi landsins í kosningum » Eftir kosningarnar 2008 eru 56% þingmanna konur » Níu af 24 ráðherrum í stjórn Rúanda eru úr röðum kvenna » Íbúar eru um 10 milljónir en stærð landsins um 1⁄4 Íslands

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.