SunnudagsMogginn - 01.11.2009, Síða 10

SunnudagsMogginn - 01.11.2009, Síða 10
10 1. nóvember 2009 Þ að er bæði hollt og gott að komast í burtu frá Íslandi þótt aðeins sé um nokkra daga eða vikur að ræða. Það fékk ég að reyna þegar ég skellti mér í tveggja vikna frí til Bandaríkjanna nú fyrrihluta októbermánaðar. Að vísu var það jafngott að ég var ekki lengur því ég frétti það þegar ég kom aftur heim að það hefði orðið að umfjöllunarefni hér heima að fyrst ekkert birtist eftir mig í Morgunblaðinu lægi í aug- um uppi að búið væri að reka mig. Ég komst að því við heimkomuna að svo var ekki. Kortið mitt sem hleypir mér inn á Mogga virkaði og sömuleiðis stimp- ilklukkan. Þar sem ég dvaldi í góðu yfirlæti í Dutchess-sýslu í New York- ríki, hringdi gemsinn minn einn góðan veðurdag og ég sá á núm- erabirtinum að góðvinur minn, Flosi Ólafsson, leikari, leikstjóri, rithöfundur, lífskúnstner og húmoristi með meiru var á línunni. Ég svaraði honum af þeirri hlýju og væntumþykju sem hann átti ávallt skilið og sagði við hann: „Gaman að heyra í þér, Flosi minn, hérna úti í stórkostlegum haustlitunum við Hudson-river.“ Flosa brá svo mikið við að heyra að ég væri í Bandaríkjunum að hans fyrstu viðbrögð voru þau að hann ætlaði að kveðja mig „med det samme“ og tala bara við mig þegar ég væri komin heim. Ég hélt nú ekki – vildi fá að vita hvaða erindi Flosi vinur minn ætti við mig. Hann spurði ósköp hógvær: „Ertu nú viss um það Agnes mín? Er ekki svo dýrt að tala svona til hennar Ameríku að hætta sé á því að bæði þú og Mogginn farið á hausinn?!“ Alltaf sami æringinn, hann elsku besti Flosi. Hann vildi sem sé segja Agnesi frá því að áttræðisafmælið væri framundan og end- urútgáfa á þeirri makalaust skemmtilegu bók Í kvosinni. Spurði svo hvort mér þætti þetta eitthvað til þess að segja frá í Mogga! Eftir heimkomu vorum við Flosi í sambandi og Pétur Blöndal skrifaði þetta líka frábæra viðtal við hann sem birtist hér fyrir viku. Þar, eins og ævinlega, fór Flosi á kostum. Það var bara til einn Flosi og það er mjög einkennilegt að vera farin að tala um hann í þátíð. Laust eftir hádegi á föstudag hinn 23. október sl. hringdi gems- inn minn og ég sá að þetta var Flosi. Ég svaraði ofurkát því ég taldi að honum hlyti að vera batna ört og örugglega fyrst hann væri farinn að hringja í vinkonu sína af sjúkrabeði á Lansanum: „Elsku kallinn minn. Ertu farinn að hressast?“ spurði ég áfjáð en lágvær hlátur og ómþýð rödd Lilju barst úr tólinu. Hún sagðist bara vera að hringja fyrir Flosa og gaf mér svo samband. Flosi bauð mér og Ragnari Axelssyni að koma í nokkrar mínútur í heimsókn. Við brunuðum til byggða síðdegis á föstudag og hittum Flosa hinsta sinni, rúmum sólarhring áður en hann dó. Vitanlega hvarflaði slíkt ekki að nokkrum manni. Flosi svaraði spurningum mínum með gamanmálum og hafði eigið heilsufar – „Ég er afleitur og allur í maski“ – í flimtingum. Þar var honum rétt lýst – hann grínaðist fram í rauðan dauðann. Flosi og Lilja voru vinir mínir og velgerðarmenn. Í vor var ég í tæpar tvær vikur í Reykholti og kom mikið til þeirra hjóna að Bergi sem Flosi nefndi svo gjarnan Stóra Aðal-Berg! Þangað er gott að koma, þar er gott að vera. Dýrlegt svefnloft er yfir hest- húsi þeirra hjóna á Bergi. Þar sefur maður bara vel, með hesta- angan í loftinu, sveitakyrrð og fuglasöng. Flosi sat gjarnan á stól, við suðurhlið hússins, þegar ég renndi í hlað, stundum á náttsloppnum, sem honum þótti gott að vera í, svona framundir hádegi að minnsta kosti. Hann faðmaði mig alltaf að sér þegar ég kom í heimsókn, leiddi mig svo inn í eldhús til Lilju sinnar sem bar í okkur kræsingarnar með kaffinu. Síðan tók við sögustund og á henni gat teygst og það verulega þar sem Flosi fór á kostum að hætti hússins og við Lilja lögðum einstaka orð í belg en skemmtum okkur aðallega og hlógum því frásagn- argáfa Flosa var óviðjafnanleg eins og alþjóð veit og bækur hans bera glöggt vitni um. Svo áttum við Flosi og Lilja það til að skella okkur í heita pottinn þeirra og halda áfram léttu spjalli, „djúpum umræðum um þjóðfélagsmál“, þar sem við, hvort sem þið trúið því eða ekki, lesendur góðir, vorum sammála um miklu fleira en við vorum ósammála um og á það bæði við um menn og málefni. Flosi leysti mig gjarnan út með einni eða tveimur bókum áður en ég renndi aftur heim í Reykholt og hló mig í svefn við lestur bóka Flosa, ýmist frum- eða endurlestur. Ég kveð Flosa og er efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt hann að vin. Flottur, fyndinn og frábær 6:30 Hjalti Már Þórisson læðist fram úr rúm- inu og gætir þess að vekja ekki aðra fjölskyldu- meðlimi. Hann er yfirkokkur heimilisins á morgnana og eldar hafragraut fyrir fjölskylduna. „Ég fæ mér hafragraut og les blaðið. Svo fer ég út að ganga með hundinn, hana Dimmu, og við spókum okkur í Fossvogsdalnum,“ segir Hjalti þegar við við forvitnumst um morgunverkin. Hjalti gengur því næst yfir Fossvogsdalinn í vinnuna. „Ég byrja á því að setjast niður og undirbúa fund,“ segir Hjalti um upphaf vinnu- dagsins. Að fundinum loknum er Hjalti í óðaönn að ganga frá pappírum og leysir svo heimsmálin með starfsfélögum sínum yfir kaffibolla. „Suma daga sit ég yfir tölvunni og túlka röntgenmyndir en aðra daga er ég meira í inngripum og þannig er einmitt dagurinn í dag. Fyrsta verkefnið mitt í morgun eftir pappírsvinnu er að gera slag- æðarannsókn.“ Það er lítill tími fyrir hádeg- ismat en Hjalti getur sest niður í litla stund og vafrað um á netinu á meðan hann borðar sam- loku. „Ég geri aðra slagæðarannsókn eftir há- degismat og síðasta rannsókn dagsins er annars konar þar sem er verið að eiga við nýrun,“ segir Hjalti. 16:30 Vinnudegi er lokið og Hjalti gengur yfir Fossvogsdalinn og heim. „Halla Björg, kon- an mín, er að fara að hitta vinkonur sínar í kvöld svo hún drífur sig í að elda kvöldmat frekar snemma og ég reyni að hjálpa til,“ segir Hjalti og gerir minna úr hæfileikum sínum við eldamennsku kvölverðarins en morgunverð- arins. „Við eldum hið víðfræga pasta með hvítri sósu en þetta er uppáhaldsréttur barnanna. Þetta er pasta með alfredo-sósu sem konan mín býr til og slær alltaf í gegn,“ segir Hjalti. Um sexleytið sest sex manna fjölskyldan að borðum og hundurinn Dimma fylgist með og gæðir sér á sínum mat. „Síðan geng ég frá eftir matinn, raða í upp- þvottavélina og hlusta á fréttir,“ segir Hjalti en þegar fyrsta þáttaröðin af Survivor var sýnd á Skjá einum þá veðjaði Hjalti við konu sína um hver yrði sigurvegari þáttaraðarinnar og var ársuppvask lagt undir. Hjalti tapaði veðmálinu og mánuði síðar var keypt uppþvottavél á heimilið. 19:30 Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er orð- inn þreyttur og fer óvenju snemma í rúmið. Hún er kysst góða nótt, fær pelann sinn og er lögð til svefns. Þar sem það er vetrarfrí í skól- anum er kvöldið heldur frábrugðið því sem vant er. „Börnin mín horfa á hina sígildu amerísku gamanmynd RV og ég horfi á Hrunið á meðan með öðru auganu.“ Þegar búið er að horfa á megnið af myndinni spilar Hjalti tennis í Wii- tölvunni við sex ára dóttur sína og níu ára son sinn og er vísast að sonurinn fari ávallt með sig- ur af hólmi. Reglurnar breytast í kvöld þar sem engin mamma er heima og það er vetrarfrí í skólanum svo miðjubörnin fara ekki að sofa fyrr en um tíuleytið. Þá kemur elsta dóttirin heim eftir að hafa sinnt starfi barnfóstrunnar. Þau feðgin setjast niður og ræða daginn og veginn. Síðan nær Hjalti í gítarinn en hann segir það vera einskonar meðferð fyrir sig að spila á hann. 22:45 Hjalti gerir tilraun til að fara í háttinn en það gengur ekki vel hjá honum og kennir hann þar um fjarveru eiginkonunnar. Upp úr miðnætti fer Hjalti fram úr til að fylgjast með hafnaboltaleik á netinu. Hans lið, Boston Red Sox, er ekki að keppa en Hjalti vill fylgjast með til að halda á móti New York Yankees. „Ég kynntist hafnabolta þegar ég bjó í New Hamp- shire þegar ég var krakki, þar hefur fólk ekki skoðanir á hafnabolta, þar er hafnaboltinn trúarbrögð.“ Leikurinn er síðan ekki á dagkrá svo Hjalti fer í háttinn rétt eftir að konan hans kemur heim. Hjalti siglir svo inn í draumaheim rétt eftir miðnætti signyg@mbl.is Dagur í lífi Hjalta Más Þórissonar röntgenlæknis Hjalti er ánægður með nýtt tölvusneiðmyndatæki sem tekið var í notkun í haust og segir það auðvelda störf sín. Morgunblaðið/Kristinn Slagæðarannsókn og tennis í Wii-tölvunni Agnes segir Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.