SunnudagsMogginn - 01.11.2009, Blaðsíða 24
24 1. nóvember 2009
Oscar Collazo liggur í blóði sínu fyrir utan Blair-húsið fyrir 59 árum.
L
ögreglumanninum Donald Birdzell brá heldur
betur í brún þegar hann sneri sér við á tröppum
Blair-hússins í Washington, þar sem Harry S.
Truman Bandaríkjaforseti bjó um þær mundir
vegna endurbóta á Hvíta húsinu, þetta eftirmiðdegi, 1.
nóvember 1950. Skjálfhentur maður miðaði á hann
skammbyssu – og hleypti af. Hann hæfði Birdzell í hnéð.
Leyniþjónustumaðurinn Floyd Boring og lögreglumað-
urinn Joseph Davidson, sem stóðu þar álengdar, brugðust
strax til varnar, hófu skothríð á boðflennuna, 36 ára
gamlan aðskilnaðarsinna frá Púertó Ríkó, Oscar Collazo.
Hann galt í sömu mynt.
Birdzell brölti á fætur og lagði félögum sínum lið og
Collazo mátti ekki við margnum. Tvö skot hæfðu hann,
annað í höfuðið og hitt í hægri handlegg. Hann féll til
jarðar, illa særður en með lífsmarki.
Á sama tíma lét vitorðsmaður Collazos, hinn 25 ára
gamli Griselio Torresola, til skarar skríða við varðskýlið á
vesturhlið hússins. Vörðurinn, Leslie Coffelt, var gjör-
samlega óviðbúinn og Torresola skaut hann í fjórgang
með skammbyssu sinni, m.a. í brjóstið.
Komst ekki inn í húsið
Næsta fórnarlamb hans var Joseph Downs, borgaralega
klæddur lögreglumaður, sem kom aðvífandi þegar hann
heyrði byssuhvellina. Torresola hæfði hann í þrígang áður
en Downs tókst að skríða inn um kjallaradyr hússins og
skella í lás áður en ódæðismaðurinn komst inn.
Því næst varð Torresola þess áskynja að félagi hans átti
við ofurefli að etja við framhlið hússins og freistaði þess að
koma honum til hjálpar. Honum tókst að skjóta Birdzell í
hitt hnéð áður en hólkurinn tæmdist.
Meðan Torresola hlóð byssuna í ákafa staulaðist Coffelt
helsærður út úr varðskýlinu, hallaði sér að því og skaut
árásarmanninn í höfuðið af um þrjátíu feta færi. Hann lést
samstundis. Sjálfur var Coffelt fluttur á sjúkrahús, þar
sem hann andaðist fjórum klukkustundum síðar. Þeir
féllu sumsé hvor fyrir annars hendi, Coffelt og Torresola.
Downs og Birdzell var einnig komið undir læknis-
hendur og náðu þeir sér að fullu. Sömu sögu er að segja af
hinum tilræðismanninum, Collazo, sem var færður í járn.
Við réttarhaldið staðfesti hann að þeir Torresola hefðu
ætlað að ráða Harry S. Truman af dögum. Forsetinn var að
leggja sig þegar þá kumpána bar að garði en rumskaði við
skothríðina. Hann mun hafa gægst út um svefnherberg-
isgluggann í þann mund sem Torresola var að endurhlaða
vopn sitt í um þrjátíu feta fjarlægð. Ekki liggur fyrir hvort
þeir sáu hvor annan.
Collazo upplýsti líka að tilgangurinn með athæfinu
hefði verið að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu Púertó
Ríkó. Ýmsum þótti það skjóta skökku við enda hafði
Truman verið umburðarlyndur gagnvart þeirri baráttu.
Collazo svaraði því til að þeim hefði ekki verið uppsigað
við Truman persónulega en hann hefði aftur á móti verið
holdgervingur kerfisins. „Maður ræðst ekki á persónu,
heldur kerfið.“
Eiginkona Collazos, Rosa, var líka hneppt í fjötra,
grunuð um að leggja á ráðin með bónda sínum. Hún sat
inni í átta mánuði.
Sjálfur var Collazo dæmdur til dauða fyrir þátt sinn í
tilræðinu en Truman forseti lét – merkilegt nokk – breyta
dómnum í lífstíðarfangelsi. Hann var svo náðaður 29 ár-
um síðar, í tíð Jimmys Carters, og sneri þá heim til Púertó
Ríkó. Collazo var ekki fyrr laus úr prísundinni en Fidel
Castro Kúbuleiðtogi lét heiðra hann í bak og fyrir.
Ekkjan friðmæltist við eyjarskeggja
Oscar og Rosa Collazo skildu en héldu hvort í sínu lagi
áfram að berjast fyrir sjálfstæði Púertó Ríkó fram í rauðan
dauðann. Rosa lést árið 1988 en Oscar 1994.
Ekkju Leslies Coffelts, Cressie, var skömmu eftir
grimmdarverkið boðið í heimsókn til Púertó Ríkó þar sem
fjöldi framámanna bað hana afsökunar á morðinu á eig-
inmanni hennar. Hún svaraði því til að hún teldi íbúa eyj-
unnar ekki ábyrga fyrir gjörðum Collazos og Torresolas.
Minningarskjöld um Coffelt er að finna á Blair-húsinu,
auk þess sem eitt herbergja hússins heitir í höfuðið á hon-
um.
Byssurnar sem Collazo og Torresola notuðu í árásinni 1.
nóvember 1950 eru nú til sýnis á Truman-safninu í In-
dependence, Missouri.
Harry S. Truman lét af embætti forseta árið 1953. Hann
lést af náttúrlegum orsökum árið 1972, 88 ára að aldri.
orri@mbl.is
Forseta
sýnt bana-
tilræði
Á þessum degi
1. nóvember 1950
Oscar
Collazo
Griselio
Torresola
Harry S.
Truman
Meðan Torresola hlóð byssuna í
ákafa staulaðist Coffelt helsærð-
ur út úr varðskýlinu og skaut
árásarmanninn í höfuðið.
J
oschka Fischer, fyrrverandi utan-
ríkisráðherra Þýzkalands og einn
af forystumönnum Grænna þar í
landi, skrifaði athyglisverða grein
í Morgunblaðið fyrir viku, laugardaginn
24. október, um stöðuna í þýzkum
stjórnmálum eftir kosningarnar þar fyrir
nokkrum vikum. Í grein þessari segir
Joschka Fischer m.a.:
„… hún (þ.e. Angela Merkel) hefur
markvisst stýrt CDU til vinstri af því að
hún lærði þrennt af kosningaósigri CDU
2002 og naumum sigrinum 2005: Þjóð-
verjar vilja ekki fara í stríð, þeir eru ekki
yfir sig hrifnir af efnahagslegum umbót-
um og eru flestir til vinstri við CDU/
CSU.“
Og ennfremur:
„Samtímis þokaði Merkel SPD burt af
miðjunni – þar sem menn vinna kosn-
ingar eða tapa þeim í Þýzkalandi – með
því að fara sjálf í átt til vinstri …“
Umfjöllun hins þýzka stjórnmála-
manns minnir um margt á stöðu stjórn-
málanna á Íslandi. Hér vinnast kosningar
líka og tapast á miðjunni. Hér er komin
upp sú staða að tveir öflugir flokkar tak-
ast á um fylgi þorra kjósenda, þ.e. Sjálf-
stæðisflokkur og Samfylking, eins og
fyrirsjáanlegt var að gerast mundi, þegar
Samfylkingin varð til. Í þingkosning-
unum sl. vor gerðist það í fyrsta sinn í
sögu Sjálfstæðisflokksins, að hann varð
ekki stærsti stjórnmálaflokkur þjóðar-
innar heldur næststærstur. Að vísu sýna
nýjustu skoðanakannanir að þetta er að
breytast en kannanir eru eitt og kosn-
ingar annað. Nú er spurningin, hvernig
ný forysta Sjálfstæðisflokksins ætlar að
endurheimta fyrri stöðu flokksins, þegar
kemur að kosningum, sem geta orðið
fyrr en að tæpum fjórum árum liðnum.
Þær kosningar munu vinnast eða tap-
ast á miðjunni. Það er ekki hægt að færa
nokkur rök fyrir því, að Sjálfstæðisflokk-
urinn geti endurheimt fyrri stöðu sína í
íslenzkum stjórnmálum með sveiflu til
hægri. Það er heldur ekki vondur kostur
fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sækja inn á
miðju stjórnmálanna vegna þess, að þar
hefur hann lengst af verið. Sókn inn á
miðjuna er því í samræmi við hefðir og
venju flokksins og þarf ekki annað en
vísa til Ólafs Thors og Bjarna heitins
Benediktssonar í því sambandi. Hvað
felst í því við núverandi aðstæður?
Grundvallarforsenda fyrir uppbygg-
ingu íslenzks þjóðfélags á næstu árum
er öflug stefna í atvinnuuppbygg-
ingu. Þar er nú pólitískt tóma-
rúm, sem Sjálfstæðisflokkurinn
á að sigla hratt inn í. Stjórnar-
flokkarnir tveir, Samfylking og Vinstri
grænir, eru í sjálfheldu vegna innbyrðis
togstreitu um framkvæmdir við stóriðju
og stórvirkjanir. Auðvitað á að byggja ál-
ver í Helguvík og á Bakka og virkja í
neðri hluta Þjórsár og á Þeistareykjum.
Ég mundi aldrei styðja framkvæmdir í
Þjórsárverum eða annars staðar á miðhá-
lendi Íslands en það eru engin haldbær
rök frá sjónarmiði náttúruverndar fyrir
því að virkja ekki í neðri hluta Þjórsár.
Í málefnum atvinnu- og viðskiptalífs
er hins vegar nauðsynlegt að læra af
fenginni reynslu og setja víðtæka nýja
löggjöf til þess að tryggja frjálsa sam-
keppni og koma í veg fyrir einokun stór-
fyrirtækja, sem verður til í skjóli frjálsrar
samkeppni án sjálfsagðs aðhalds. Stjórn-
arflokkarnir sýna engin merki þess að
hafa áhuga á slíkri löggjöf enda hefur
Samfylkingin verið þeirrar skoðunar frá
því að hún varð til að slík löggjöf sé
gagnslaus og óframkvæmanleg. Reynsla
annarra þjóða í þeim efnum er önnur.
Það er áreiðanlega pólitískur jarðvegur
fyrir víðtækri nýrri löggjöf á þessu sviði
og þáttur í sókn Sjálfstæðisflokksins inn
á miðju stjórnmálanna á að vera barátta
fyrir brýnum umbótum í viðskiptalífinu.
Sjálfstæðisflokkurinn á sér merka sögu
á sviði félagslegra umbóta, þótt þeirri
sögu hafi lítið verið haldið á lofti. Í borg-
arstjóratíð Geirs Hallgrímssonar var
lagður grundvöllur að byltingu í fé-
lagslegum umbótum, sem borgin og
borgarbúar hafa búið að síðan.
Nú er á ný þörf á róttækum umbótum í
málefnum þeirra, sem búa við verstan
hag í samfélagi okkar, sem eru sem fyrr
aldraðir, öryrkjar og einstæðar mæður.
Það er tímabært að stokka velferðar-
kerfið upp með þeim hætti að skerða
greiðslur til þeirra, sem ekki þurfa á
þeim að halda, en auka þær til þeirra,
sem þurfa raunverulega á þeim að halda.
Núverandi stjórnarflokkar hafa ekki sýnt
nein merki þess, að þeir hyggi á slíkar
umbætur. Í krafti merkrar sögu sinnar á
þessu sviði á Sjálfstæðisflokkurinn að
marka nýja, umbótasinnaða stefnu í vel-
ferðarmálum, sem byggist á þessu
grundvallaratriði, að velferðarkerfið
styðji fyrst og fremst þá sem þurfa á því
að halda. Í slíkri nýrri stefnumörkun
felst annar meginþátturinn í sókn
Sjálfstæðisflokksins inn á miðju stjórn-
málanna.
Það er gömul saga og ný, að tímabil
stjórnarandstöðu gerir flokkum kleift að
endurnýja stefnu sína. Hið klassíska
dæmi um slíka vel heppnaða endurnýjun
er sú umbótastefna í þjóðfélagsmálum,
sem varð til í Íhaldsflokki Churchills eftir
kosningaósigurinn 1945 og Richard Butl-
er hafði forystu um. Sú róttæka endur-
nýjun á stefnu tryggði valdatöku
Churchills á ný nokkrum árum seinna og
langt valdaskeið Íhaldsflokksins eftir
það.
Nú er tímabært að ný forysta Sjálf-
stæðisflokksins taki til hendi í þessum
efnum og vinni markvisst að endurnýjun
og umbótum á stefnu flokksins í at-
vinnumálum og velferðarmálum. Kosn-
ingar vinnast ekki með ímyndarupp-
byggingu. Þær vinnast á grundvelli vel
hugsaðra og útfærðra stefnumála og
málefna.
Sækir Sjálfstæðisflokkurinn inn á miðjuna?
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@mbl.is