SunnudagsMogginn - 29.11.2009, Blaðsíða 17
29. nóvember 2009 17
M
ugison þrífst á því að hafa nóg fyrir stafni.
Getur ekki setið með hendur í skauti, vill
heldur nota þær til að spila á gítar, búa til
plötuumslög og fleira í þeim dúr.
„Ég reyni yfirleitt að drekkja sjálfum mér í hug-
myndum; það er örugglega ekki hollt en er bara minn
stíll. Ég er alltaf að bauka eitthvað,“ segir tónlistar-
útgerðarmaðurinn að vestan í samtali við Morgunblaðið.
Tónleikar hér og tónleikar þar, heima og erlendis, plötur
hér og plötur þar. Ein nýkomin út og tvær í vinnslu.
Þriðjudagur: Þegar ég hringi í Örn Elías er hann að
leggja bílnum fyrir utan Bónus á Ísafirði. „Ég fer suður á
morgun með eldri strákinn.“
Fjölskyldan er mjög hefðbundin, segir hann. Kona,
tvö börn (strákar) og hundur.
Miðvikudagur: Hann er staddur í Sundlauginni,
hljóðverinu í Álafosskvosinni, ásamt gítarhetjunni
gömlu, Björgvini Gíslasyni. Þeir hafa leikið saman hér og
þar um landið upp á síðkastið og eru reyndar í miðjum
klíðum. Tónleikar framundan um kvöldið.
Það virðist alveg sama hvort Mugison býður upp á fal-
legar ballöður eða brjálað rokk. Sama hvaða beitu hann
notar; það bítur á. Fólkið hrífst af honum.
Fjöldi tónleika víða um heim
Á plötunni Ítrekun, sem Mugison var að senda frá sér,
eru lög sem upphaflega voru á Mugiboogie sem kom út
2007 en hafa þó öll tekið miklum breytingum síðan þau
komu út í upphaflegri mynd.
„Þannig er mál með vexti að eftir að við, strákarnir í
hljómsveitinni, spiluðum inn á plötuna fylgdum við
henni eftir í tæp tvö ár og nokkur laganna breyttust svo
rosalega á þessum tíma að mér fannst nauðsynlegt að
taka þau upp aftur.“
Þeir fóru víða. „Við spiluðum á óhemjumörgum tón-
leikum víðs vegar um heiminn; fórum nokkra hringi í
Evrópu, þvert yfir Kanada og þvert yfir Bandaríkin, og
hringferð um Ísland auðvitað.
Þeim Mugison var gríðarlega vel tekið í Vesturheimi,
sérstaklega í Kanada. Þeir hituðu upp fyrir stór-
hljómsveitina Queens of the Stone Age. „Hún er með
þeim stærri í bransanum, spilar í hokkíhöllum sem taka
sex til átta þúsund manns og við pössuðum greinilega
vel fyrir þann hóp sem var mættur. Yfirleitt hlusta fáir á
þá sem eru að hita upp fyrir aðra en í Kanada var vel
hlustað á okkur og við seldum marga diska.“
Þegar hljómsveit fær svona góðar viðtökur segir hann
vissulega auðveldara að leika á sömu slóðum á nýjan leik
en ekkert sé skipulagt vestanhafs enn sem komið er.
„Ég er með frábæra tónlistarmenn með mér og á tón-
leikum teygja menn lögin oft í nýjar áttir. Þegar ævin-
týrinu var að ljúka og ég farinn að hugsa um önnur
verkefni langaði mig til að fanga þetta augnablik; breyt-
inguna á lögunum, áður en bandið leystist upp. Við tók-
um þess vegna upp þau lög sem höfðu breyst mest en
ekkert þeirra sem enn eru svipuð og á Mugiboogie.“
Sú nýja er ekki tónleikaplata, en þó hálft í hvoru.
Kannski má segja tónleikaplata án tónleikagesta. „Við
tókum einn dag í þetta í Sundlauginni. Aðalpælingin var
ekki að gefa lögin út heldur bara að eiga þau eins og þau
höfðu þróast. Svo fannst mér efnið bara svo flott þegar
Biggi í Sundlauginni var búinn að mixa það …“
Þegar upptökum var lokið áttuðu menn sig sem sagt á
því að efnið var svo gott að tæpast yrði hjá því komist að
gefa það út. Og þá var auðvitað drifið í því. Mugison
finnst vont að sitja aðgerðarlaus.
Ítrekun – í gluggaumslagi
Ítrekun er nafnið sem Mugison valdi á nýjustu afurðina.
„Ég velti því lengi fyrir mér hvað hægt væri að kalla
plötu eins og þessa; gamalt efni í nýjum búningi. Svo
kviknaði hugmynd; það er alveg eins heima hjá mér og
öðrum Íslendingum um þessar mundir; maður fær
ítrekun senda vikulega og þetta nafn lá einhvern veginn
beinast við. Ég er að senda ítrekun í músík – nafnið út-
skýrir sig því sjálft.“
Og þegar nafnið var komið hentaði vel að koma disk-
inum fyrir í gluggaumslagi, segir hann. Eins og við út-
gáfu fyrri platna var töluverð handavinna við lokafrá-
gang. Þegar fyrsta platan kom út, Lonely Mountain, árið
2003 saumaði Mugison hvert einasta umslag! Þrettán
þúsund eintök, takk fyrir. „Það tók tvo mánuði. Þegar
Mugiboogie kom út brutum við umbúðirnar saman í
höndunum. Ég gef plöturnar út sjálfur og hef gaman af
svona handverki; það verður líka til þess að maður sest
niður með sínum nánustu og föndrar. Ég er líka frekar
iðinn maður og finnst gott að dunda við þetta.“
Mugison lét saumaskapinn vera að þessu sinni en
handtökin urðu engu að síður mörg. Keypti stimpilinn
ÍTREKUN í Stimplagerðinni og „við létum útbúa annan
sem segir til um hvað lögin heita og hverjir spiluðu á
plötunni“. Svo var sest niður heima í stofu og stimplað á
hvert einasta umslag. Óneitanlega skemmtilegt.
Mugison er gjarnan kenndur við Vestfirði enda býr
hann þar núna. Faðir hans er að vestan en móðirin úr
Reykjavík og sjálfur segist Mugison í raun hvergi eiga
heima. „Ég er sígauni; bý alls staðar. Fyrir norðan,
sunnan og vestan og í útlöndum. Það er misjafnt hvernig
menn skilgreina sig; sumir miða við það hvert foreldr-
arnir eiga ættir að rekja, sumir við þann stað þar sem
þeir voru á mótunarárunum en ég veit ekki hvað skal
segja. Ég hef aldrei verið lengur en þrjú ár á sama stað
fyrr en núna að við höfum verið í fjögur ár á Súðavík.“
Fjölskyldunni líður afskaplega vel fyrir vestan. Þar
hófu þau búskap, Örn Elías og Rúna Esradóttir, „svo
vorum við eitt ár í bænum [lesist: Reykjavík] en keypt-
um okkur svo hús á Súðavík. Hér er mjög næs að vera og
ég er með góða vinnuaðstöðu“.
Þau fluttu á heppilegum tíma, segir hann. „Keyptum
húsið hér á 10 milljónir en það hefði sjálfsagt kostað
milljarð í Reykjavík!“ Þar var góðærið, en kreppan hefur
lengi búið fyrir vestan, segir hann.
Sígauninn Mugison hóf tónlistarharkið af einhverju
viti, eins og hann tekur til orða, árið 2003. Reyndi þá
að lifa af músíkinni og tókst það. Var einn á ferð og lék í
Bretlandi, Hollandi, Frakklandi og Belgíu svo nokkur
lönd séu nefnd. Í þessum var honum best tekið. „Ég
var einn í heiminum og hafði engar skuldbindingar
aðrar en að eiga fyrir helgardrykkjunni! Ég þvældist
um allan heim, kynntist fólki og spilaði án þess að fá
endilega borgað fyrir tónleikana. Svo eignaðist ég
fyrsta barnið mitt 2004 og þá var þetta bara búið … Þá
þurfti maður að fara að hugsa meira um reikninga en
áður.“
Biggi vinur hans slóst fljótlega í för með Mugison á
flakkinu 2003 til þess að sjá um hljóðið á tónleikum og
selja diska. Að því kom að Mugison komst inn á nokkrar
tónlistarhátíðir. Segist hafa verið heppinn að vera frá Ís-
landi; litlu hátíðirnar höfðu ekki fjárhagslegt bolmagn til
þess að fá til sín dýra tónlistarmenn en höfðu efni á „litla
trúðnum að vestan“, eins og hann tekur til orða.
„Fyrst spilar maður fyrir nánast engan en svo fjölgar
smátt og smátt í áheyrendahópnum. Á sumum stöðum
koma nú þrjú til fjögur hundruð manns.“ Sviss hefur
bæst á tónlistarlandakort Mugisons og í sumar leið hélt
hann tvenna tónleika í Póllandi. „Það var æðislegt að
spila þar, en ég get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað
bæirnir heita. Og gæti hvort sem er ekki borið nöfnin
fram, það voru svo mörg ess, cé og zetur í nöfn-
unum …“
Afi var sá eini sem vildi koma
Algengt er að þegar plata er gefin út sé henni fylgt úr
hlaði með tónleikum en í kjölfar þeirrar nýju er Mugison
nú á ferð með gítar-Björgvini eins og áður kom fram.
Hinu ævintýrinu er lokið og annað tekið við.
Að leika með Björgvini Gíslasyni er gamall draumur.
„Bjöggi hefur spilað með mér inn á plötur í nokkrum
lögum. Ég er mikill aðdáandi hans og hef gantast með
það að ég þyrði ekki að hringja og biðja hann að spila
með mér fyrr en mér þætti ég orðinn nógu góður.“
Alvörusamstarf gömlu kempunnar og Mugisons hófst
svo með býsna skemmtilegum hætti:
Það var þegar Mugiboogie var nýlega komin út að
Mugison fór á Eurosonic-hátíð í Hollandi; mikla ráð-
stefnu og tónlistarhátíð þar sem tónleikahaldarar hittast
til þess að hlusta á nýja músíkanta. RÚV sendir árlega
einn fulltrúa á staðinn, Mugison varð fyrir valinu en svo
óheppilega vildi til að allir félagar hans úr hljómsveitinni
voru uppteknir við önnur störf. Nokkrir með Bubba
Morthens í sjónvarpsþætti, einn var á kafi í verkefni
vegna plötu og menn áttu því ekki heimangengt með
aðeins tveggja daga fyrirvara.
„Ég hringdi því í Bjögga og spurði hvort hann væri til í
að koma með mér og hann kýldi á það. Ég kenndi hon-
um lögin í flugvélinni og á leiðinni á tónleikastaðinn, og
ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá slógum við í gegn!
Hann hefur svo mikla útgeislun.“
Mugison vakti kátínu viðstaddra áður en þeir Björgvin
hófu leik. „Ég kynnti hann á svið sem afa minn; sagði að
Dylan Íslands hefði rænt bandinu mínu og sá eini sem
hefði viljað spila með mér um helgina væri afi minn. Eft-
ir hátíðina reyndi ég svo að bóka hljómsveitina á tón-
leika í Evrópu, áhugi á því var ekki sérlega mikill en
margir vildu fá mig og Bjögga!“
Í fyrrasumar var hljómsveit Mugisons engu að síður á
fleygiferð um heiminn en hann og Björgvin hafa haldið
sambandi og flakka nú um sem dúett. „Mér finnst alltaf
gaman að gera eitthvað nýtt. Við erum búnir að fara um
Vestfirði, vorum á Norðurlandi um síðustu helgi og
verðum á Suðurlandi næst en verðum að fresta því að
fara austur vegna tímaskorts hjá mér.“
Samdi lag upp úr ársskýrslu Amnesty
Örn Elías Guðmundsson fer gjarnan sínar eigin leiðir.
Saumaskapurinn er eitt dæmið, margt í tónlistinni ann-
að. Þá gerist það líklega ekki á hverjum degi að samin sé
tónlist upp úr ársskýrslu Amnesty International. „Ég er
nettur plebbi þegar kemur að mannréttindamálum. Fæ
ofuráhuga á þeim í nokkra daga, eins og reyndar mörgu
öðru; les þá allt sem ég kemst yfir og langar að hjálpa því
góða fólki að bæta bæta heiminn sem er að reyna það alla
daga. Ég las ársskýrslu Amnesty og bjó til lag og texta
upp úr henni, sem voru á síðustu plötu – lagið heitir
Animal – og reyndi mikið til þess að gefa Amnesty lagið.
Samtökin vildu ómögulega eignast það en vildu þess í
stað fara í samstarf þannig að ég yrði með tónleika í New
York og þau gætu dreift bæklingum á meðan.“
Úr varð að Mugison notaði einn dag af sumarfríinu til
tónleikahalds; spilaði á fimm stöðum í New York þann
dag – einum tónleikum í hverju hverfi og hafði gaman
af. „Það var æðislegt að fá tækifæri til að koma fram á
öllum þessum stöðum, til dæmis á Staten Island. Þangað
hefði ég örugglega ekki komið annars.“ Þar lék hann í
tíbetsku listasafni. Í Brooklyn kom hann fram í alþýðu-
listahúsi og í sósíalískri kommúnu í Queens.
Tilgangur umræddra tónleika var aðallega að vekja at-
hygli á Aung San Suu Kyi, leiðtoga stjórnarandstæðinga í
Búrma, sem haldið hefur verið í stofufangelsi árum sam-
an. „Samtök eins og Amnesty skipta miklu máli. Það er
mjög gaman að því þegar grasrótarsamök verða svona
stór og viðurkennd en þá er líka hætta á því að litið verði
á þau sem sjálfsagðan hlut. Fólk verður vant þeim og þá
geta þau gleymst. Tendensinn er sá að maður tekur eftir
einhverju í hálftíma og gleymir því svo. Fer að hugsa um
eitthvað nýtt. En mig dauðlangar að geta sinnt þessu
miklu betur og gera alvörugagn.“
Galdratæki – og 50 tónleikar í heimahúsum
Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður er eitt þeirra verk-
efna sem Mugison fæst við og sú útgerð gengur vel.
Feðgarnir Mugison og Papamugi, Guðmundur M. Krist-
jánsson hafnarstjóri á Ísafirði, komu hátíðinni á koppinn
og hún verður haldin í sjöunda skipti á næsta ári. „Það
er hrikalega gaman að fá að vera með,“ segir Mugison
hógvær þegar talið berst að hátíðinni, sem strax naut
mikilla vinsælda – og hefur vakið athygli utan land-
steinanna. Hann segir myndarlegan hóp standa á bak
við hátíðina og ein ástæða þess hve vel gangi sé að ef
einhver vill að eitthvað gerist verði hann að sjá um það
sjálfur. „Einu sinni kvartaði einn undan því að heima-
síðan okkar væri léleg og þá lenti það auðvitað á honum
að taka hana að sér. Ef menn kvarta þá kippa þeir hlut-
unum í lag. Það er snilldarlausn; ég held við að ættum að
reka landið með þessu fyrirkomulagi …“
Frá því var greint í fréttum í sumar að Mugison væri
að hanna og smíða nýtt hljóðfæri ásamt Páli Einarssyni
vini sínum. Nú er græjan tilbúin og spurning hvað best
sé að kalla gripinn. Hægt er að leika á hann eins og
harmonikku en þetta er líka stúdíó! „Eiginlega eins og
geimvísindatæki; stjórnstöð fyrir alls konar dót sem ég
er með í tölvunni. Þetta er hálfgert leikhús sem passar í
eina gítartösku.“
Undratækið er með í för þeirra Björgvins en Mugison
segist aðallega vera að æfa sig í að stilla því upp á sviðinu
og láta það bila … Notar það að vísu sem ljóskastara! Það
er eiginlega galdratæki, viðurkennir hann.
Hljóðfærið/stúdíóið/stjórnstöðina ætlar hann að nota
fyrst fyrir alvöru á tónleikaferð um Danmörku, Holland,
Belgíu og Þýskaland í desember þar sem hann verður
einn síns liðs en gripurinn verður notaður víða á Íslandi
á næsta ári því framundan er óvenjuleg tónleikaferð;
hann ætlar að halda 50 tónleika í heimahúsum.
„Ég ætla að reyna að ná sem flestum póstnúmerum.
Menn geta sótt um, ég mæti heim til þeirra og held tón-
leika. Hugmyndin á bak við hljóðfærið var einmitt sú að
ég gæti bæði notað það til að spila heima í stofu og í
Laugardalshöllinni. Að útlit tónleikanna og fílingurinn
væri nokkurn veginn sá sami. Mér fannst það líka góð
hugmynd að koma heim til fólks og halda ókeypis tón-
leika. Þannig er hægt að breyta venjulegu heimili, þar
sem börnin nenna ekki að taka til og leirtauið er í vask-
anum, í tónleikastað. Heimilið verður þannig komið í
allt annað samhengi en venjulega og ég held að minn-
ingin gæti verið skemmtileg.“ Vonandi, bætir hann við,
verður einhvern tíma sagt: Ég var þar.
Það er eiginlega varla nóg að kalla Mugison útgerð-
armann þótt það sé fallegt orð og göfugt starfsheiti.
Hann er meira eins og fjölveiðiskip.
„Ég kynnti hann á svið sem afa minn; sagði að Dylan Íslands hefði rænt band-
inu mínu og sá eini sem hefði viljað spila með mér um helgina væri afi minn.
Eftir hátíðina reyndi ég svo að bóka hljómsveitina á tónleika í Evrópu, áhugi á
því var ekki sérlega mikill en margir vildu fá mig og Bjögga!“