SunnudagsMogginn - 06.12.2009, Qupperneq 16
16 6. desember 2009
vegar illa á hjá mér á þessum tíma þannig ég fór aldrei
til Lundúna.“
Þess í stað hélt Sveinn til Póllands þar sem hann sótti
þriggja vikna alþjóðlegt námskeið. „Það var mikið æv-
intýri og þessir tuttugu dagar voru á við tvö ár. Svo
margt lærði ég. Umræðan var rosalega frjó og verk
skeggrædd með hætti sem ég hafði ekki kynnst áður.“
Á námskeiðinu hélt Sveinn fyrirlestur þar sem hann
kynnti verk sín. Segir hann salinn hafa skipst í tvennt,
með og rosalega mikið á móti hugmyndafræðinni sem
hann talaði fyrir. „Þetta var mikil og gagnleg upplifun.
Ég stóð þarna einn í skotlínunni og því lengur sem ég
var í pontu þeim mun betur áttaði ég mig á pælingum
mínum. Hvað ég væri í raun og veru að hugsa með tón-
list minni. Ég hafði aldrei áður sett þessar pælingar í
orð.“
Umræðan var heit en allt gleymt og grafið þegar hóp-
urinn fór út að borða um kvöldið.
Hitti Lutosławski
Meðal manna sem Sveinn sótti tíma hjá í Póllandi var
Witold Lutosławski, eitt fremsta tónskáld síðustu aldar.
„Lutosławski var mjög viðkunnanlegur náungi en ákaf-
lega virðulegur og ábúðarfullur. Ég held að honum hafi
fundist ég vera hálfgerður villimaður. „Ertu frá Finn-
landi?“ spurði hann á hástéttarensku. Við tókum tal
saman um tónsköpun í einum tímanum og ég fann að
hann var mér ekki sammála. „Hlustaðu á mig, drengur
minn. Ég tala af reynslu,“ var inntakið í máli hans. Síð-
an skildi leiðir. Morguninn eftir kom Lutosławski til
mín og sagðist hafa legið andvaka um nóttina og hugsað
um orð mín. Niðurstaðan var sú að ég hefði að hluta til
rétt fyrir mér. Bað hann mig um leyfi til að fá að leggja
út af orðum mínum í fyrirlestri þá um morguninn um
áherslur ungu kynslóðarinnar. Ég hélt það nú.“
Á þessu augnabliki kveðst Sveinn hafa áttað sig á því
hvað geri listamann að miklum listamanni. „Það er
auðmýktin. Að vera áfram móttækilegur fyrir skoð-
unum annarra þrátt fyrir mikla velgengni. Þetta hafði
Lutosławski sem kenndi mér meira þarna en hann hef-
ur eflaust gert sér grein fyrir. Ég hef líka tekið eftir
þessu hjá Atla Heimi.“
Sveinn segir Lutosławski hafa verið frábært tónskáld
sem náð hafi góðum tökum á svokölluðum „random-
stíl“, einkum seinni part ævi sinnar. Lutosławski and-
aðist árið 1994, 81 árs að aldri. „Eftir miklar þreifingar
var tónmál hans reiprennandi undir lokin. Lutosławski
sýndi mikla seiglu.“
Með tómar töskur á tindinum
Sveinn segir frægðina ekki hafa truflað Lutosławski og
ráðleggur listamönnum almennt að vara sig á henni.
Einbeita sér frekar að sköpuninni og listinni. „Lista-
menn sem verða frægir enda oft uppi á tindinum með
tómar töskur. Aðalatriðið er að skilja eftir sig eitthvað
sem skiptir máli. Faðir minn var t.d. mjög góður járn-
sniður og bjó til allskonar hluti sem fjölmargir þekkja
og nota í dag. Samt veit enginn að hann bjó þá til. En
skiptir það nokkru máli ef við höfum gagn af hlut-
unum? Sama gildir um tónlistina. Höfum við gaman af
henni er alveg sama hver bjó hana til. Mozart og
Beethoven voru bara venjulegir menn eins og ég og
þú.“
Spurður um eigin vinnubrögð kveðst Sveinn fyrst og
fremst byggja á þremur dyggðum, heiðarleika, mús-
íkaliteti og sjálfstrausti. „Oft er talað um að efinn fylgi
listinni. Ég er ósammála því. Ég held að efinn sé þrösk-
uldur. Efinn brýtur mann niður. Það er eins með lista-
gyðjuna og fallega konu. Efist þú um eigið ágæti snýr
hún sér strax að einhverjum öðrum. Maður verður að
ganga beint að gyðjunni og taka hana í fangið!“
Sveinn hefur nóg fyrir stafni. Samstarf hans við
Kammersveit Reykjavíkur hefur verið farsælt og hann
hefur einnig skrifað mikið fyrir og Caput-hópinn og
einstaka hljóðfæraleikara innan hans gegnum tíðina. Nú
vinnur hann að nokkrum sólóstykkjum fyrir tónleika-
röðina 15:15 sem Eydís Franzdóttir hefur veg og vanda
af. „Ég hef verið svo heppinn að tónlistarmenn leita
mikið til mín. Ætli ég skrifi ekki bara svona góða tón-
list?“ segir hann og hlær. „Það er mjög mikilvægt að fá
verk sín flutt, alveg sama hvort tónlist er góð eða slæm.
Flutningur gerir hvort tveggja: Hjálpar tónskáldinu og
hjálpar áheyrendum að mynda sér skoðun og greina
kjarnann frá hisminu.“
Að yfirstandandi verkefni loknu ætlar Sveinn að
halda áfram með stærri hljómsveitarverk sem hann haft
í smíðum. „Atli Heimir og Jón Nordal hafa lengi hvatt
mig til að spreyta mig á þeim vettvangi og núna er ég
staðráðinn í að taka þá á orðinu. Það væri óskandi að
Sinfóníuhljómsveit Íslands væri jafnhvetjandi. Það
heyrist ekki bofs frá henni. Ég er að nálgast fimmtugt
en samt hefur Sinfónían aldrei beðið mig um neitt.
Fjöldi annarra tónskálda hefur sömu sögu að segja,
einkum þau yngri. Hljómsveitin er af einhverjum
ástæðum rög við að flytja nýja íslenska músík. Ef hún
gerir það ekki hver gerir það þá?“
Sveinn lifir alfarið á tónsmíðum. Spurður hvernig það
gangi setur hann upp glott. „Það er ekki hægt að lifa af
þessu en ég geri það samt. Ég er löngu orðinn vanur því
að eiga aldrei pening en eins og þú sérð lifi ég ágæt-
lega,“ segir Sveinn og horfir í kringum sig í stofunni.
„Lykilatriðið er að hugsa ekki um skortinn.“
Lifir fyrir tónsmíðarnar
Sambýliskona Sveins er Margrét Pétursdóttir hjúkr-
unarfræðingur og eiga þau tvær dætur. Þóru Margréti,
sem leggur stund á víólunám í Hollandi, og Ásu Mörtu
menntaskólanema. Að sögn Sveins ætlar sú síðarnefnda
að leggja eitthvað annað en tónlist fyrir sig í framtíð-
inni. „Báðar þessar stelpur eru með bein í nefinu. Ég hef
engar áhyggjur af þeim.“
Líf Sveins Lúðvíks Björnssonar hverfist um tónlist.
Spurður hvort hann eigi sér einhver önnur hugðarefni
nefnir hann helst útivist og hreyfingu. „Ég sit allan
daginn í vinnunni og hef því ákaflega gott af hreyfing-
unni. Við Trýna förum í göngutúra tvisvar á dag. Það
má ekki minna vera. Meðan sjónin var betri hafði ég
gaman af því að ferðast um landið og njóta náttúrunnar
en er að mestu hættur því núna. Annars eru þetta bara
tónsmíðar og meiri tónsmíðar. Ég lifi fyrir þær!“
Sveinn Lúðvík leggur mikið upp úr hreyfingu. Hér er hann í göngutúr með labradornum sínum, henni Trýnu.
Listamenn sem verða frægir
enda oft uppi á tindinum
með tómar töskur. Aðal-
atriðið er að skilja eftir sig eitt-
hvað sem skiptir máli.