SunnudagsMogginn - 06.12.2009, Side 51
6. desember 2009 51
Manfreð Vilhjálmsson arkitekt hefur í rúm 50 ár
starfað að mótun umhverfis og bygginga hér á
landi og sett markið hátt í listrænu tilliti. Hið ís-
lenska bókmenntafélag hefur gefið úr vandaða
bók með yfirliti um verk Manfreðs. Pétur H. Ár-
mannssson og Halldóra Arnardóttir eru höfundar
texta og ritstýra bókinni. Ljósmyndir sem Guð-
mundur Ingólfsson hefur tekið yfir langt árabil
gefa útgáfunni aukið gildi, auk fjölda teikninga
Manfreðs af byggðum og óbyggðum byggingum
sem fjallað er um. Aðalsteinn Ingólfsson ritar
grein um framlag Manfreðs á sviði hönnunar og
þá ritar Vigdís Finnbogadóttir inngangsorð og Styrmir Gunnarsson eftirmála.
Því fróðari um byggingarlist, því meiri nautn
„Bæjarskipulag, opinberar byggingar, einbýlishús, húsgögn og hönnun sýn-
inga hafa öll fundið sér farveg á teikniborði hans,“ skrifar Halldóra Arn-
ardóttir um fjölbreytileg verkefni Manfreðs á ríflega hálfrar aldar ferli. „Skyn-
bragð á tækni og efnivið einkennir allar lausnir, sem byggjast á næmi fyrir
breytilegum mælikvarða og samfléttun við staðinn sem þær voru teiknaðar
fyrir.“
Manfreð er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og hóf arkitektanám í
Chalmers Tekniska Högskola í Gautaborg árið 1949. Eftir útskrift, árið
1954, vann hann um tíma í Svíþjóð en hóf um áramótin 1955-56 störf á
teiknistofu Skarphéðins Jóhannssonar þar sem hann vann að ýmsum verk-
efnum til 1959 er hann hóf rekstur eigin teiknistofu.
Til móts við eigin samtíma
Fegurð, hvað er fegurð? er haft eftir Manfreð í bókinni. Ég hætti mér ekki út
á þetta svellið. Fegurð vekur unaðskennd, hugljóman. Þetta gildir um allar
listir. Með því að hlusta oftar á Bach, því meiri unaður. Því fróðari um bygg-
ingarlist, því meiri nautn.
Halldóra segir list Manfreðs endurspegla viðleitni hans til að leysa hvert
verkefni þannig að það komi til móts við eigin samtíma án þess þó að missa
sjónar á því kunnuglega í íslensku þjóðfélagi.
Fegurð og unaðskennd
„Umfjöllun um byggingarlist getur vakið áhuga og
stuðlað að skilningi fólks á því, að ekki er sama hvernig
staðið er að verki þegar byggja á hús,“ segir hann.
Honum finnst tónlist fá hvað mest rými listgreinanna í
fjölmiðlunum, meira en myndlist og aðrar greinar.
„Upp á síðkastið er hönnun reyndar orðin vinsælt um-
ræðuefni, menn eru farnir að hanna allan skollann og það
er gott. Byggingarlistin hefur hinsvegar verið nokkuð út-
undan. Sá sem hefur einna helst tekið hana að sér og verið
að fræða fólk er Pétur H. Ármannsson. Guja Dögg Hauks-
dóttir er einnig að láta að sér kveða og ég fagna frum-
kvæði þeirra.
Á tímum tímaritsins Birtings var Hörður Ágústsson sá
maður sem bar byggingarlist hvað mest fyrir brjósti. Síð-
an hefur lítið farið fyrir umræðu um þessi mál.“
Manfreð sýnist að húsbyggingar og skipulag hafi farið
nokkuð úr böndunum á hinum nýliðna góðæristíma en
hinsvegar starfi hér góðir og efnilegir arkitektar. „Það
hefur fjölgað mikið í stéttinni og fólk kemur víða að, með
mismunandi hugmyndir, og það er af hinu góða. Ég er
mjög fylgjandi því að menn haldi utan til að víkka sjón-
deildarhringinn.
En fagmenn ráða ekki alltaf ferðinni. Þegar kemur að
skipulagsmálum virðast stjórnmálamenn frekar ráða og
er það miður. Fólk sem tekur að sér pólitísk störf hefur
mismikla þekkingu á þessu sviði.“
Manfreð segir mjög mikilvægt að benda fólki á það sem
vel er gert, öðruvísi læri fólk ekki að meta gæði.
„Mér finnst umræðan um það sem miður fer oft vera of
fyrirferðarmikil, á kostnað þess góða. Í seinni tíð held ég
þó að þetta stefni allt í rétta átt. Íslendingar fara mikið til
útlanda og sumir taka þá eftir því sem vel hefur verið gert.
Stundum þarf að leiðbeina manni. Eftir því sem menn
hlusta meira á músík fá þeir víðari sýn og betri smekk.
Þetta gildir um allar listir – líka um byggingarlist.“
Á fögru heimili þeirra Manfreðs og Erlu í Smiðshúsi
njóta myndlistarverk sín vel, verk eftir Kristján Dav-
íðsson og Dieter Roth eru áberandi. Manfreð teiknaði ein-
býlishús Kristjáns og þeir Dieter urðu góðir vinir. Í bók-
inni nýju um Manfreð segir Pétur H. Ármannsson að anda
Dieters gæti í mörgum húsgögnum og innréttingum sem
Manfred hannaði.
„Samstarfið við Dieter var mjög gefandi fyrir mig.
Hann var með aðra sýn en flestir aðrir listamenn; sýn
hans á tilveruna hæfir vel á krepputímum. Hann nýtti svo
vel allt í kringum sig. Til dæmis smíðaði hann flest sín
húsgögn úr trékössum frá ríkinu. Ég er uppalinn á
krepputímum og það hefur fylgt mér að vilja nýta allt vel,
til dæmis hvað varðar efnisnotkun í byggingum.
Okkur ber skylda til að fara vel með alla hluti.“
Tilviljanir ráða á hvaða hillu maður lendir
Þegar Manfreð er spurður að því hvort hann eigi sér eft-
irlætisverk þá hikar hann.
„Ég hef oft verið spurður að þessu og vefst alltaf tunga
um tönn,“ segir hann svo. „Kannski er það í þessu eins og
með fyrsta barnið sem maður eignast, þá myndi ég nefna
Nesti. Það var eitt fyrsta verkefnið sem ég teiknaði. Yf-
irleitt er það þó verkefnið sem ég vinn að hverju sinni sem
er áhugaverðast.“ Manfreð stendur upp og sækir blað sem
liggur á öðru borði og sýnir mér. Hann sýnir mér upp-
drátt að sumarbústað sem byggist á tillögu að „sum-
arbragga fyrir Dieter Roth“.
„Þetta er gömul hugmynd sem ég teiknaði fyrir Dieter
fyrir 50 árum en nú vill maður nokkur fá þetta hús. Mér
þykir vænt um það. Ég dunda nú við þetta,“ segir hann.
Manfreð segist telja sig mjög heppinn að hafa lent í
þessu starfi, sem arkitekt.
„Tilviljanir ráða á hvaða hillu maður lendir. Ég ætlaði að
verða smiður, var kominn á samning en þreytti síðan
inntökupróf í MR með vinum mínum.“
Árið 1949 hélt hann til Svíþjóðar í nám í arkitektúr.
„Raunverulega vissi ég ekkert hvað þetta var. Arkitekt-
úr var ekki talinn vænlegur til fjár, til að geta séð fyrir sér
og fjölskyldu. En ég hef alltaf haft meira en nóg að gera,“
segir Manfreð.
Ég verð að viðurkenna að
mér þykir nokkuð dapurlegt að
það sé búið að rífa þetta...
Kannski þarf að segja fólki að bygg-
ingar geti verið merkilegar.
Skálholtsskóli, 1969-71 / 1998 / 2007. Skapar heildstæða staðarmynd með dómkirkjuna í öndvegi.
Manfreð í borðstofunni í Smiðshúsi. Suðurhliðin er nær öll úr gleri í húsinu sem hann teiknaði fyrir fjölskylduna.
Morgunblaðið/Einar Falur
Þjóðarbókhlaðan, 1972-1994. Án vafa kunnasta verk Manfreðs. Virðuleg umgjörð um þjóðararfinn.
Ljósmynd/Guðmundur Ingólfsson