SunnudagsMogginn - 14.02.2010, Blaðsíða 27
14. febrúar 2010 27
H
ún er ólýsanleg – tilfinningin
sem sérhver áhugamaður um
knattspyrnu fær þegar hann
gengur inn á völl liðs síns sem
hann dáir og elskar. Nánast er um trúar-
brögð að ræða þegar kemur að ást hans á
íþróttinni. Hann tekur lið sitt fram yfir
fjölskyldu, vinnu og skóla. Skap hans
byggist á úrslitum helgarinnar. Rithöf-
undurinn Nick Hornby orðaði þetta
kannski best í bók sinni Fever Pitch er
hann sagði að þegar hann væri staddur á
vellinum liði honum eins og hann væri í
miðju alheimsins. Allt annað gleymist.
Mjög stór hluti Íslendinga hefur þennan
gríðarlega áhuga á knattspyrnufélögum
sem staðsett eru þúsundum kílómetra í
burtu. Þrátt fyrir fjarlægðina leggja
hundruð, ef ekki þúsundir, Íslendinga leið
sína til Englands á ári hverju til að fylgjast
með liði sínu spila. Oft er mikill kostnaður
við ferðina, sérstaklega nú á tímum bágs
efnahagsástands. En það stöðvar ekki
þann sem virkilega elskar leikinn. Frekar
færi ég í helgarferð til London að horfa á
Arsenal spila en í vikureisu til Spánar, þó
það kosti jafn mikið.
Upp um klassa á fjórtán árum
Síðan knattspyrnustjóri Arsenal, Arsène
Wenger, kom til starfa árið 1996 hafa
miklar breytingar orðið á rekstri félagsins,
innan vallar sem utan. Árið 2006 flutti fé-
lagið heimavöll sinn tvö hundruð metra
frá karakterríkum og litlum velli sínum á
Highbury yfir á gríðarstóran Emirates
Stadium. Sá fyrri tók um 38.000 áhorf-
endur í sæti, en sá síðarnefndi 60.000.
Þessi skipting færði Arsenal upp um
klassa. Nú er Arsenal ekki lengur annars
flokks lið sem berst um Evrópusæti, held-
ur setur félagið stefnuna á titil hvert tíma-
bil – þó skortur hafi verið á þeim und-
anfarin ár. Félagið fékk síðast silfurdollu
árið 2005 þegar það krækti í FA bikarinn.
Eftir allt, þá snýst fótbolti um að sigra leiki
og vinna titla. En pressan á Arsène Wen-
ger er lítil sem engin og starf hans eitt það
öruggasta í Englandi. Hann nýtur gríð-
arlegs trausts meðal stjórnarinnar. Slakt
gengi undanfarna tvo leiki hefur orðið til
þess að ekkert annað en sigur dugir gegn
Rauða hernum frá Liverpool. Með sigri
kemst Arsenal aftur í titilbaráttuna, en
tapist leikurinn heltist það úr lestinni og
hleypir næstu liðum nær sér. Það er því
gríðarleg pressa á liðinu fyrir leikinn.
Stemningin er mikilvæg
Ég er á leið niður St. Thomas Road. Það er
farið að snjóa úti – aftur! Það er búið að
skrifa nokkur vel valin orð um Liverpool í
nýfallinn snjóinn á bílrúðunum. Þegar ég
geng fyrir hornið og niður götuna frægu,
Drayton Park, sé ég sölubása með Arsen-
al-varningi báðum megin við götuna. Við
Arsenal-lestarstöðina er lögreglan að
góma mann sem selur miða á leikinn á
ólöglegan hátt. Svokallaðan svartamark-
aðsbraskara. Mikið er um viðskipti af
þessu tagi fyrir leiki, enda er þetta lifi-
brauð sumra. Sérstaklega á stórum leikj-
um sem þessum. Þegar ég geng enn lengra
og upp tröppurnar hjá miðasölunni á leik-
vanginum sé ég sjúkraflutningamenn bera
eldri mann í burtu. Hann virðist hafa ver-
ið fullspenntur fyrir leiknum. Þegar ég
geng ennþá lengra sé ég ferlíkið í allri
sinni dýrð. Ég get ekki beðið eftir leikn-
um. Það eru enn þrír tímar þar til hann
byrjar, svo ég ákveð að fara á alvöru Ars-
enal-pöbb. Það er mikilvægt að drekka í
sig stemninguna fyrir leiki, og það er
hvergi hægt að gera það betur en á alvöru
enskri krá. Og besta Arsenal-kráin sem ég
veit um er Tollington, sem staðsett er á
horni Tollington Road og Hornsey Road.
Þetta er lítill og þægilegur staður sem Ars-
enal-menn hittast á fyrir og eftir leiki.
Þarna hitti ég nokkra góða vini mína sem
flestir eru ársmiðahafar. Flestir þeirra hafa
stutt Arsenal í gegnum súrt og sætt alla
sína ævi og komið á alla heimaleiki og
flesta útileiki síðan þeir muna eftir sér.
Þeir eru ekki alveg sammála í spám um
úrslit leiksins, en allir eru þeir sammála
um eitt: harðfiskur er ekki þeirra tebolli.
Þeir eru hrifnari af brennivíninu. Ég lít á
úrið – klukkan er hálf átta. Leikurinn
byrjar eftir korter. Við klárum úr glös-
unum, kveðjumst og göngum af stað í átt
að vellinum.
Arsenal 1 – 0 Liverpool
Það er allt lagt undir í baráttu Arsenal og
Liverpool um þriðja sætið í ensku úrvals-
deildinni. Fyrir leikinn er Arsenal fimm
stigum á undan Liverpool, en með sigri
gestanna eiga þeir góða möguleika á að
krækja í sætið eftirsótta af Skyttunum.
Stemningin er gríðarleg inni á vellinum og
stuðningsmenn beggja liða skiptast á vel
völdum orðum í suðausturhorni vallarins,
þar sem þeir eru aðskildir með girðingu og
röð af lögregluþjónum. Ég er svo heppinn
að sitja við girðinguna og er því í þunga-
miðju blendinnar stemningar milli stuðn-
ingsmanna tveggja liða sem lengi hafa
eldað grátt silfur saman. Þegar Liverpool-
stuðningsmenn syngja lag svara stuðn-
ingsmenn Arsenal með öðru lagi. Svona
gengur þetta allan leikinn. Það er þekkt
staðreynd að stuðningsmenn gestanna
hafa löngum verið háværir, og í kvöld er
engin undantekning á því. Hér verður
ekki farið yfir gang leiksins, en eftir 72
mínútur skorar Arsenal fyrsta og eina
mark leiksins. Það er Frakkinn Abou
Diaby sem skorar glæsilegt skallamark og
það verður allt vitlaust á vellinum. Fimm-
tíu þúsund manns syngja saman ,,One nil
to the Arsenal“. Hin tíu þúsundin eru
þögul. Leikurinn er í járnum síðustu tutt-
ugu mínúturnar. Á síðustu sekúndunum
fellur fyrirliði Liverpool, Steven Gerrard,
niður rétt utan vítateigs heimamanna.
Dómarinn dæmir aukaspyrnu. Þetta er
síðasta spyrna leiksins. Hjartað í mér ólm-
ast af fullum krafti. Maginn herpist sam-
an. Gæsahúð um allan líkamann. Gerrard
skorar ekki. Allt verður vitlaust á vell-
inum, gestirnir heimta vítaspyrnu, en fá
ekki. Leiknum lýkur með einu marki Ars-
enal gegn engu hjá Liverpool.
Það er stórkostleg upplifun að fara á
knattspyrnuleik í Englandi. Stuðning-
urinn kemur frá hjartarótum heima-
manna. Ást þeirra á eigin félagi smitar út
frá sér. Smitast til þeirra sem heimsækja
völlinn, smitast í gegnum sjónvarpið og
smitast í gegnum fjölmiðlana. Íþróttin er
falleg. Einhvern daginn mun ég flytja til
London og eignast ársmiða. Ég finn það á
mér þegar ég geng inn í flugvélina eftir vel
heppnaða tveggja sólarhringa ferð til
London.
Harðfiskur er ekki þeirra tebolli
Emirates-leikvangurinn hefur verið skreyttur með minningarbrotum úr sögu Arsenal. Stuðningsmenn Liverpool bíða átekta eftir að seinni hálfleikur hefjist.
Arsenal lagði Liverpool í æsispennandi leik í
ensku úrvalsdeildinni í vikunni. Stuðningurinn
kemur frá hjartarótum áhorfenda í Englandi.
Hilmar Sigurjónsson hilmarsig@mbl.is
Tugir sölubása af þessu tagi eru í kringum Emirates-leikvanginn. Þessi er við lestarstöðina.
Morgunblaðið/HilmarSig
Gangarnir iða af lífi fyrir leik og í leikhléi og veitingar eru af ýmsu tagi.