SunnudagsMogginn - 07.03.2010, Side 26
26 7. mars 2010
Í
dag fer fram þjóðaratkvæða-
greiðsla um svonefnd Icesave-lög.
Þetta er mikilvæg atkvæðagreiðsla
af mörgum ástæðum. Verulegar
líkur eru á, að nú sé íslenzka þjóðin að
stíga fyrsta skrefið í átt til nýrrar stjórn-
skipunar lýðveldisins, þar sem beint lýð-
ræði taki við af fulltrúalýðræði. Völdin
eru að færast frá flokkunum til fólksins.
Þetta er eina leið okkar út úr þeim
ógöngum, sem við höfum ratað í. Þetta
er krafan, sem hljómaði á götum Reykja-
víkur fyrir ári.
Í annan stað er þessi atkvæðagreiðsla
mikilvæg vegna þess, að yfirgnæfandi
líkur eru á, að hún sýni öðrum þjóðum
með afdráttarlausum hætti, að þessi fá-
menna eyþjóð í Norður-Atlantshafi lætur
ekki kúga sig. Það er nú orðin pólitísk
samstaða á Íslandi um, að við höfum sem
þjóð aldrei skuldbundið okkur með
samningum við aðrar þjóðir til að greiða
skuldir einkaaðila. Undir þetta sjónarmið
taka nú fjölmargir aðilar í mörgum lönd-
um, eins og skýrt hefur komið fram í
fréttum undanfarnar vikur.
Bretar og Hollendingar ætluðu að kúga
okkur til að borga í krafti áhrifa sinna á
alþjóðavettvangi. Þessar þjóðir hafa
langa reynslu af því að kúga aðrar þjóðir
og hagnast fjárhagslega á þeirri kúgun.
Nýlendusaga beggja er ljót. Bretar arð-
rændu Íslendinga öldum saman með
veiðum á Íslandsmiðum og börðust gegn
hverju skrefi, sem við tókum til þess að
ná yfirráðum yfir auðlindum okkar. Þeg-
ar við færðum fiskveiðilögsöguna út í 4
sjómílur settu þeir löndunarbann á ís-
lenzkan fisk í brezkum höfnum. Það
gerðu þeir örfáum árum eftir að íslenzkir
sjómenn höfðu hætt lífi sínu í nokkur ár
til þess að færa brezku þjóðinni mat á
þeim tíma, þegar hún barðist fyrir lífi
sínu. Þeir sendu herskip á Íslandsmið,
þegar við færðum út í 12 sjómílur. Þeir
sendu herskip á Íslandsmið, þegar við
færðum út í 50 sjómílur. Þeir sendu her-
skip á Íslandsmið, þegar við færðum út í
200 sjómílur. Og þeir notuðu þessi her-
skip til þess að beita íslenzku varðskipin
ofbeldi á hafi úti. Það var ójafn leikur. En
hetjuleg framganga varðskipsmanna
vakti hrifningu þjóðarinnar.
Hvort sem okkur líkar betur eða verr
er þetta kjarninn í samskiptum okkar við
Breta á síðustu 60 árum. Samt líkar okk-
ur vel við þá. Okkur líður vel í Bretlandi.
Ungir Íslendingar sækja í háskólanám í
Bretlandi. Enda eigum við rætur meðal
þeirra þjóða, sem byggja Bretlandseyjar.
En – þeir ætluðu að kúga okkur eins og
þeir hafa kúgað aðra. Og væntanlega
liggur það fyrir í kvöld, laugardagskvöld,
að það hefur ekki tekizt. Saga þeirra sýn-
ir, að þegar þeir standa frammi fyrir
slíkum veruleika snúa þeir við
blaðinu. Á unglingsárum las ég
reglulegar fréttir í Morgunblaðinu um
hryðjuverkamann í Kenya, sem hét Jomo
Kenyatta og Bretar höfðu sett í fangelsi.
„Hryðjuverkamennirnir“ í Kenya gáfust
ekki upp og nokkrum árum síðar gáfust
Bretar upp og Kenyatta var allt í einu
orðinn forseti Kenya og gestur Bret-
landsdrottningar í Buckinghamhöll.
Við skulum sýna Bretum og Hollend-
ingum í dag að við látum ekki kúga okk-
ur. Þá snúa þeir við blaðinu.
En um leið og við fögnum þessu fyrsta
skrefi þjóðar okkar í átt til beins lýðræðis
skulum við ekki gleyma því, að það er
fráleitt og úrelt kerfi, að einn maður geti
ráðið því, þótt forseti sé, hvort þjóðin
fær að segja sína skoðun í þjóð-
aratkvæðagreiðslu. Það ákvæði, sem for-
seti byggir þetta vald sitt á í stjórn-
arskránni, á að afnema og í þess stað að
setja inn nýtt ákvæði í stjórnarskrá og
útfæra í lög um hvenær slík þjóð-
aratkvæðagreiðsla á að fara fram og hvað
þarf til að kalla hana fram. Það sýnist
sjálfsagt, að tiltekinn fjöldi landsmanna
geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu
um tiltekið mál og nokkuð ljóst, að það
voru slíkar undirskriftir, sem knúðu for-
seta Íslands til þessarar ákvörðunar. Og
líka sjálfsagt að ákveðinn fjöldi alþing-
ismanna geti kallað fram þjóðaratkvæða-
greiðslu.
Um þetta þurfa að fara fram almennar
umræður í landinu og stefna að víðtækri
pólitískri samstöðu um þá nýju stjórn-
skipun íslenzka lýðveldisins, sem er að
byrja að fæðast.
Það hefur verið leiðinlegt að fylgjast
með tilraunum Jóhönnu Sigurðardóttur
forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfús-
sonar fjármálaráðherra undanfarna daga
og vikur til þess að gera lítið úr þeim
merka viðburði, sem við tökum þátt í og
fylgjumst með í dag. Þau hafa kerfis-
bundið og skipulega unnið að því að gera
lítið úr atkvæðagreiðslunni og síðbúinn
undirbúningur og kynning í skötulíki er
stjórnvöldum til skammar. Þau eiga erfitt
með að horfast í augu við þau hrikalegu
pólitísku mistök, sem þau bera ábyrgð á
með samningunum, sem gerðir voru við
Breta og Hollendinga. Þess vegna bregð-
ast þau svona fáránlega og skammarlega
við. Og munu sitja uppi með það.
Á hinn bóginn hefur það yljað mörgum
um hjartarætur að fylgjast með því
hvernig fólkið í landinu hefur brugðizt
við þessu fumi forsætisráðherrans og
fjármálaráðherrans. Fólk hefur brugðizt
við með því að verða enn ákveðnara í að
taka þátt í atkvæðagreiðslunni.
Í dag er fyrsta tækifærið, sem íslenzka
þjóðin hefur fengið frá Hruninu mikla til
þess að sýna samstöðu og samkennd. Það
er í slíkri samstöðu, sem þessi veður-
barða þjóð í norðurhöfum sýnir styrk
sinn.
Á morgun mun, ef að líkum lætur,
blasa við nýr pólitískur veruleiki á Ís-
landi. Þá þurfum við sem þjóð að láta
hendur standa fram úr ermum og leggja
traustan grundvöll að þeirri nýju stjórn-
skipan íslenzka lýðveldisins, sem þjóð-
aratkvæðagreiðslan í dag er tákn um. Oft
hefur sundurlyndi einkennt samfélag
okkar. Nú skulum við sýna samstöðu.
Fyrsta skrefið
Af innlendu
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@mbl.is
U
ppi varð fótur og fit á sjúkrahúsinu í Carver-
sýslu í Minnesota á þessum degi fyrir tuttugu
árum þegar Hensel-tvíburarnir, Abigail og
Brittany, komu í heiminn. Fyrir það fyrsta
átti móðir þeirra, Patty, ekki von á nema einu barni og í
öðru lagi voru áhöld um það hvað börnin væru í raun og
veru mörg. Hendurnar voru tvær, fæturnir tveir en tveir
búkar og tvö höfuð. Læknar höfðu aldrei séð annað eins í
fásinninu í Carver-sýslu og sendu nýburana því um-
svifalaust á stærra sjúkrahús í Minnesota. Þar fengu for-
eldrar þeirra þau skilaboð að ólíklegt væri að stúlkurnar
lifðu nóttina af. Það fór á annan veg, Abigail og Brittany
Hensel létu allar hrakspár sem vind um eyru þjóta, eru
við hestaheilsu og halda upp á tvítugsafmæli sín í dag.
Einir af hverjum fjörutíu þúsund tvíburum fæðast
samvaxnir og aðeins 1% þeirra lifir fram yfir fyrsta af-
mælisdaginn. Hensel-systurnar eru sjaldgæfasta gerð
samvaxinna tvíbura, koma úr einu frjóvguðu eggi sem
ekki hefur skilið sig almennilega í leginu. Aðeins er vitað
um fjögur tilvik af því tagi í heiminum þar sem báðir tví-
burar hafa komist á legg.
Þær eru með tvo hryggi, sem renna saman við
mjaðmagrindina, tvö hjörtu, tvö vélindu, tvo maga, þrjú
nýru, tvær gallblöðrur, fjögur lungu, eina lifur, einn
brjóstkassa, sameiginlegt blóðrásarkerfi og að hluta til
sameiginlegt taugakerfi. Öll líffæri eru sameiginleg neð-
an mittis, þar á meðal garnir, blaðra og æxlunarfæri.
Snemma kom til tals að skilja systurnar að en foreldrar
þeirra lögðust gegn því. Fyrir það fyrsta er alls ekki víst
að báðar myndu lifa slíka aðgerð af – jafnvel hvorug – og
í öðru lagi yrðu lífsgæði þeirra að líkindum mun lakari.
Hvor um sig hefði þá bara eina hönd og einn fót og yrði í
hjólastól. Eftir að stúlkurnar komust sjálfar til vits og ára
hafa þær heldur ekki tekið aðskilnað í mál.
Samhæfing systranna er með ólíkindum en hvor
stjórnar sínum helmingi líkamans. Þær leika á píanó,
Abigail með hægri hendi en Brittany með þeirri vinstri,
spila keilu og blak, synda og hjóla. Systurnar hafa mis-
munandi áhugamál og styrkur þeirra liggur á ólíkum
sviðum í námi. Þær hafa heldur ekki sama fatasmekk.
Það leysa þær með því að skiptast á að velja fötin.
Á sextán ára afmælinu tóku Abigail og Brittany bílpróf
eins og jafnaldrar þeirra vestra, nema hvað þær þurftu
að þreyta prófið í tvígang. Einu sinni fyrir hvora systur.
Þær hafa báðar hönd á stýri en skipta að öðru leyti með
sér verkum, Abigail sér um petalana og gírstöngina en
Brittany um stefnuljósin. Sú síðarnefnda er sátt við þessa
ráðstöfun en kvartar undan einu í samtali við dagblaðið
The Daily Mail: „Abby vill aka hraðar en ég!“ Móðir
þeirra tekur upp þráðinn. „Hvað gerist verði þær stöðv-
aðar fyrir of hraðan akstur? Yrðu þær báðar sektaðar eða
bara Abby, þar sem hún er með fótinn á bensíngjöfinni?“
Það er góð spurning.
Systurnar hafa undirgengist aðgerðir af ýmsu tagi
gegnum tíðina en hafa verið heilsuhraustar, nema hvað
Brittany hefur í tvígang fengið lungnabólgu. Í annað
skiptið gekk henni illa að halda lyfjunum niðri og bauðst
Abigail þá til að taka þau til að freista þess að systur
hennar liði betur. Sú síðarnefnda er tápmikil og féll fyrir
vikið illa að liggja aðgerðarlaus í veikindum Brittany.
Það er í eina skiptið sem Abigail hefur léð máls á aðskiln-
aði. Þegar hugmyndin grætti systur hennar lofaði Abiga-
il að minnast aldrei á þetta framar.
Hensel-systurnar eru orðnar fullorðnar og hafa lýst
áhuga á því að giftast og eignast börn en læknisfræðilega
er ekkert því til fyrirstöðu. Vandamálið er miklu frekar
praktískt, varla giftast þær sama manninum – það yrði
væntanlega skilgreint sem fjölkvæni – nema að flytja þá
til Utah. Nokkuð flókið yrði sennilega að hafa mennina
tvo. En Abigail og Brittany leysa það mál örugglega með
einhverjum hætti eins og önnur. Þær eru vanar því.
orri@mbl.is
Samhentar
systur
Systurnar Abigail (t.v.) og Brittany Hensel á yngri árum.
’
Hvað gerist verði þær stöðv-
aðar fyrir of hraðan akstur?
Yrðu þær báðar sektaðar eða
bara Abby, þar sem hún er með fót-
inn á bensíngjöfinni?“
Nýleg mynd af Abigail og Brittany. Þær eru tvítugar í dag.
Á þessum degi
7. mars 1990