SunnudagsMogginn - 06.06.2010, Blaðsíða 4
4 6. júní 2010
Úrslitakeppni Evrópumóts kvenna verður í Dan-
mörku og Noregi í desember. Í dag, laugardag, verð-
ur einmitt dregið í riðla og þá kemur einnig í ljós í
hvoru landinu Íslendingar leika.
Í leik íslenska liðsins er mest lagt upp úr góðum
varnarleik og þess freistað að skora sem oftast eftir
hraðaupphlaup. Í liðinu eru nefnilega ekki sérlega
hávaxnar langskyttur og hröðu sóknirnar því helsta
vopn stelpnanna til að klekkja á andstæðingnum.
Þjálfararnir, Júlíus Jónasson og aðstoðarmaður
hans, Finnbogi Grétar Sigurbjörnsson, leggja mikið
upp úr liðsheildinni en vert er að nefna nokkra leik-
menn sérstaklega. Í lykilhlutverkum eru markvörð-
urinn Berglind Íris Hansdóttir og Anna Úrsúla Guð-
mundsdóttir, sem stjórnar vörninni, og hin fótfráa
Hanna Guðrún Stefánsdóttir nýtist vel í hraðaupp-
hlaupum og raðar yfirleitt inn mörkum. Þá má nefna
leikstjórnandann, Karen Knútsdóttur, og Stellu Sig-
urðardóttur, sem eru aðeins tvítugar. Þær voru báðar
í landsliði 20 ára og yngri sem varð í níunda sæti á
Evrópumóti fyrir nokkrum misserum.
Leggja áherslu á góða
vörn og hraðaupphlaup
Karen Knútsdóttir einn hinn ungu og bráðefnilegu
leikmanna Íslands sem spreyta sig á EM í vetur.
Morgunblaðið/Kristinn
A
ukin athygli hefur beinst að keppni
kvenna á íþróttavelli á síðustu árum,
góðu heilli.
Þjóðinni er í fersku minni þegar
landslið kvenna í knattspyrnu komst í úr-
slitakeppni Evrópumótsins í Finnlandi á síðasta ári
og nú er aftur ástæða til þess að gleðjast yfir glæst-
um árangri kvennalandsliðs; „stelpurnar okkar“ í
A-landsliðinu í handbolta fylgdu í kjölfarið um síð-
ustu helgi og tryggðu sér þátttökurétt í úr-
slitakeppni Evrópumótsins næsta vetur í fyrsta
skipti.
Handboltakarlar hafa í gegnum árin haldið merki
Íslands hátt á lofti en óhætt er að segja að orðstír
þeirra hefur ekki nokkru sinni verið jafn góður og
um þessar mundir og deyr eflaust aldregi.
„Strákarnir okkar“ hafa í tvígang nælt í verð-
launapening á stóra sviðinu; Ólympíuleikum og
Evrópukeppni, yngri landslið karla hafa náð frá-
bærum árangri, og því einkar ánægjulegt að kven-
fólkið sé einnig komið almennilega á blað.
Íslenskt kvennalandslið hefur ætíð verið töluvert
langt á eftir öðrum þjóðum en með markvissri upp-
byggingu síðustu ár hefur verið stigið stórt skref.
Bæði hefur verið æft meira og betur, að sögn kunn-
áttumanna sem Morgunblaðið ræddi við, og hug-
arfar leikmanna er öðruvísi en oft hefur verið. Þeir
taka æfingar mun alvarlegar en áður auk þess sem
samstaðan og samheldnin í landsliðshópnum er til
fyrirmyndar.
Þjálfari landsliðs kvenna, Júlíus Jónasson – sjálfur
kunnur landsliðsmaður atvinnumaður í greininni
til fjölda ára – segir að strax og hann tók við liðinu
ásamt Finnboga Grétari Sigurbjörnssyni fyrir tæp-
um fjórum árum, hafi þeir sett sér það markmið að
koma liðinu á stórmót. Ólympíuleikarnir 2012 hafi
verið nefndir í því sambandi .
„Það var að hrökkva eða stökkva,“ segir Júlíus
um þá ákvörðun þjálfaranna á sínum tíma að yngja
mikið upp í liðinu. Sumir efuðust. „En ég var alltaf
sannfærður um að það væri rétta leiðin að nota
unga leikmenn; ég viðurkenni að sumar stelpurnar
voru mjög ungar, og eru það reyndar enn nærri
fjórum árum síðar …“
Fyrir tveimur árum komst Ísland upp úr und-
anriðli sem leikinn var í Litháen, fyrir heimsmeist-
aramótið; stelpurnar slógu þar út lið sem talin voru
sterkari á pappírnum og mættu í framhaldinu
firnasterku liði Rúmeníu í tveimur leikjum um laust
sæti í úrslitakeppni HM. Þar var við ramman reip að
draga, rimman tapaðist en liðið var reynslunni rík-
ara. Leikmenn komust á bragðið; skynjuðu að ekki
var eins langt í að draumurinn rættist og einhverjar
kynnu að halda.
Síðan þetta var hefur íslenska liðið mætt flestum
af sterkustu þjóðum heims; Noregi, Damörku,
Spáni, Frakklandi, Spáni, Austurríki, Þýskalandi og
Brasilíu. „Úrslitin hafa verið upp og ofan en við
fengum þessa leiki til þess að búa stelpurnar sem
best undir framtíðina,“ segir Júlíus. Að þær sæju
muninn á sér og þeim bestu og gerðu sér enn frekar
grein fyrir því en áður hvað þyrfti til að komast sem
næst bestu liðunum.
Spennandi verður að sjá hver framvindan verður.
Ekki er að efa að góður árangur „stelpnanna okkar“
verður lyftistöng fyrir handbolta kvenna og liðið
mikilvæg fyrirmynd ungu kynslóðarinnar.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir skorar gegn Frökkum á dögunum.
Morgunblaðið/Kristinn
Komnar inn
fyrir þröskuldinn
Kvennalandsliðið í handbolta
í fyrsta skipti á stórmót
Vikuspegill
Skapti Hallgrímsson
skapti@mbl.is
Rut Jónsdóttir, Hanna Guðrún Stefánsdóttir og Anna
Úrsúla Guðmundsdóttir fagna sigri gegn Austurríki.
Morgunblaðið/Eggert