SunnudagsMogginn - 06.06.2010, Síða 28

SunnudagsMogginn - 06.06.2010, Síða 28
28 6. júní 2010 Óður til Afríku Áfram Afríka heitir væntanleg bók Páls Stefánssonar ljósmyndara. Bókin er ferðalag um álfuna og fótboltinn er rauði þráðurinn, sem bindur hana saman. Karl Blöndal kbl@mbl.is A fríka er stórhættuleg,“ segir Páll Stefánsson ljósmyndari, „af því að þegar maður hefur farið þangað einu sinni vill maður fara aftur og aftur.“ Áfram Afríka nefnist ný bók eftir Pál og hún er væntanleg í verslanir á næstu dögum. Páll heimsótti 25 lönd og fór til allra menningarsvæða álf- unnar, allt frá Marokkó og Egyptalandi í norðri, Grænhöfðaeyjum í vestri, Suður- Afríku í suðri og Eþíópíu í austri. Páll fór í nokkrar ferðir til Afríku og ýmist voru Halldór Lárusson, framleiðandi bókarinnar, eða Kristján B. Jónasson útgefandi með honum. „Hver ferð var vika tíu dagar og við lékum af fingrum fram,“ segir Páll. „Við tókum einfaldlega leigubíl og báðum hann um að stoppa þegar við sæjum fótbolta.“ Þess var farið á leit við Didier Drogba, einn þekktasta knattspyrnumann sem Af- ríka hefur alið, að hann skrifaði formála. Hann var áhugasamur, en svo leið og beið og þau skilaboð bárust að hann hefði engan tíma. En svo sá hann myndirnar og þá kom formálinn. „Það stórbrotna er að leikurinn er alltaf sá sami, hvort sem hann er leikinn á þröngum götum Abidjan, á akri í Senegal eða í úrslitaleik heimsmeistarakeppn- innar. Íþróttin er þrungin ástríðu og krafti sem fær viðstadda til að grípa andann á lofti,“ skrifar Drogba í Áfram Afríka og bætir við: „Þessi bók er óður til alls þess sem er fagurt í afrískri knattspyrnu.“ „Það er oft haft á orði, og er satt, að í Afríku er útsjónarsemin móðir allra hluta,“ skrifar Ian Hawkey, sem var lengi íþróttafréttaritari Sunday Times í Jóhannesarborg og skrifaði í fyrra bók um sögu afrískrar knattspyrnu. „Knattspyrna er vinsælasta tómstundagaman álfunnar. Þar eru það þeir sem eru útsjónarsamastir við að iðka hana, án tillits til aðstæðna, sem uppskera að endingu mestu fagnaðarlætin.“ Páll þurfti reyndar iðulega að treysta á útsjónarsemina. Rétt fyrir brottför frá Egyptalandi ætlaði hann að mynda við píramídana í Giza. Þegar hann lagði af stað sagði leigubílstjórinn að nú væri mesti umferðartími og það yrði búið að loka þegar þeir kæmust á staðinn. Þá sagði bílstjórinn: „Ég redda þessu, ég fæ bedúína á úlf- öldum til að fara með ykkur.“ „Þannig komumst við bakdyramegin að píramíd- unum,“ segir Páll. „En til að ná í þessar myndir þurftum við að klára hraðbankann.“ Það hefur örugglega verið magnað að koma að píramídunum á úlföldum, en eitt stakk þó í stúf. „Einn úlfaldinn hét Mikki mús,“ segir Páll. „Einhvern veginn á úlf- aldi að heita eitthvað annað.“ Í annað skipti var Páll í Tansaníu. „Ef ég hefði beðið einhvern um að skipuleggja myndatöku á hvítri strönd við sólarlag með masaíum að leika fótbolta í hefð- bundnum fatnaði sínum hefði mér verið sagt að það væri útilokað auk þess sem masaíar spiluðu ekki fótbolta,“ segir Páll. „Þegar við komum á hvíta ströndina var þar enginn og sólin var að fara að setjast. Allt í einu birtust masaíarnir og byrjuðu að sparka boltanum. Það hefði ekki verið hægt að panta þessa myndatöku, auk þess sem nú er afsannað að masaíar spili ekki fótbolta.“ Fullir áhorfendapallar á La Félicia eða Félix Houphouët-Boigny-leikvanginum í Abidjan þar sem 70 þúsund manns komast í sæti. Masaíar leika fótbolta á strönd í Tansaníu.

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.