SunnudagsMogginn - 06.06.2010, Síða 37
6. júní 2010 37
sóknarknattspyrnu af því tagi sem aldrei
hafði sést á Melavellinum. Kappar á borð
við Zico, Éder og Sócrates drógu menn
fram á sófabrúnina með tilþrifum sínum.
Ekki þótti húsmæðrum heldur lakara að
sá síðastnefndi var bráðhuggulegur og
læknir að mennt. Sérgrein hans var hæl-
sendingar.
Brasilíumenn kjöldrógu Skota í frægum
leik í riðlakeppninni, 4:1 þar sem mark-
vörður Skota, Alan Rough, fékk ekki rönd
við reist. Mörgum árum síðar lék Rough
með úrvalsliði skoskra íþróttafrétta-
manna gegn íslenskum blaðamönnum á
gervigrasinu í Laugardal. Í það skiptið
hafði hann vit á því að vera í framlínunni.
Eins og Brassarnir voru flinkir að sækja
höfðu þeir takmarkaðan áhuga á því að
verjast. Og markvörðurinn, Valdir Peres,
var því miður ekki af sömu plánetu og
hinir enda varð HM á Spáni svanasöngur
hans. Ítalir gengu á lagið og slógu þá sam-
bendur út í milliriðlinum, 3:2. Hetja dags-
ins var Paolo Rossi, sem gerði öll mörk
Ítala, nýsloppinn úr tveggja ára leikbanni
vegna veðmálahneykslis. Hann varð á
endanum markakóngur mótsins með sex
mörk.
Oft er talað um að Brasilía, árgangur
’82, sé besta liðið sem aldrei varð heims-
meistari. Holland ’74 og ’78 hefur einnig
verið nefnt í því sambandi.
Fólskubrot aldarinnar
Frakkar, með Michel Platini, núverandi
forseta Knattspyrnusambands Evrópu, í
broddi fylkingar, heilluðu líka heims-
byggðina með hugmyndaríkum leik á
Spáni. Þeir mættu Vestur-Þjóðverjum í
einum frægasta leik sparksögunnar í und-
anúrslitum. Þeir voru 3:1 yfir í framleng-
ingu þegar þýska seiglan tók sig upp með
brambolti og Karl-Heinz Rummenigge og
Klaus Fischer jöfnuðu. Undir rafmögn-
uðum kringumstæðum höfðu Vestur-
Þjóðverjar betur í vítakeppni, „skalla-
skepnan“ (þ. Das Kopfball-Ungeheuer)
Horst Hrubesch tók að sér að hryggbrjóta
frönsku þjóðina.
Leiksins er þó ekki síður minnst fyrir
það sem margir kalla fólskulegasta brot
sparksögunnar, þegar þýski markvörð-
urinn, Toni Schumacher, keyrði Patrick
Battiston niður með þeim afleiðingum að
hann lá meðvitundarlaus eftir á vellinum.
Hryggjarliður brákaðist og þrjár tennur
urðu eftir í grasinu. Dómarinn sá þó enga
ástæðu til að dæma brot, aðeins mark-
spyrnu. Eftir leikinn beit Schumacher
höfuðið af skömminni með því að bjóðast
til að borga Battiston fyllingarnar, fyrst
annað amaði ekki að honum. Frakkinn
var lengi að komast til heilsu. Síðar bað
Schumacher hann þó formlega afsökunar.
Tardelli tekur flugið
Vinsældir Vestur-Þjóðverja voru ekki í
sögulegu hámarki eftir atvikið og ýmsum
þótti þeir fá makleg málagjöld í úrslita-
leiknum sem Ítalir unnu eftir japl, jaml og
fuður, 3:1, með mörkum frá Rossi, Marco
Tardelli og Alessandro Altobelli. Mark-
vörðurinn Dino Zoff lyfti HM-styttunni,
elstur manna, fertugur.
Fagn Tardellis er með þeim eft-
irminnilegri í sögunni, man satt best að
segja ekki eftir að hafa séð hrærðari mann.
Sitthvað fleira dró til tíðinda á HM 1982.
Bryan Robson, leikmaður Englendinga,
setti met þegar hann skoraði mark gegn
Frökkum eftir aðeins 27 sekúndna leik.
Það stóð í tvo áratugi eða þangað til Hakan
Sükür skoraði eftir aðeins 11 sekúndur
fyrir Tyrki gegn Suður-Kóreu.
Lið Kúveits vakti líka óskipta athygli en
það varð fyrir miklu áfalli fyrir fyrsta leik-
inn gegn Tékkum þegar lukkudýr þeirra,
úlfaldi, fékk ekki inngöngu á völlinn.
Leikmenn gyrtu sig þó í brók og héldu
jöfnu.
Kúveitar töpuðu illa fyrir Frökkum, 4:1,
en í þeim leik komst prins þjóðarinnar,
Fahd Al-Ahmad Al-Sabah, í heimsfrétt-
irnar fyrir að hóta að kalla lið sitt af velli
eftir eitt marka Frakka. Óprúttinn áhorf-
andi hafði andartaki áður blásið í flautu og
slegið aumingja Kúveitana út af laginu og
prinsinn kunni þeim gjörningi illa. Eftir
mikla rekistefnu dæmdi dómarinn markið
af. Líkast til eina markið í sögu HM sem
þurrkað hefur verið út í mannúðarskyni.
Eins gott að úlfaldinn sat heima, hann
hefði ekki höndlað þessa rás atburða.
Diegos þáttur Maradonas
Nóg er að hafa eitt nafn um HM í Mexíkó
1986 – Diego Armando Maradona. Arg-
entínska undrið átti mótið með húð og
hári.
Kappinn fór rólega af stað, lét sér eitt
mark nægja í riðlakeppninni og hafði hægt
um sig í sigri á Úrúgvæ í 16 liða úrslitum.
Eftir það héldu honum engin bönd. Í
fjórðungsúrslitunum gegn Englendingum
gerði hann tvö af frægustu mörkum sög-
unnar. Það fyrra með dyggilegri aðstoð
almættisins en hið síðara af eigin ramm-
leik. Aldrei hef ég verið jafnsannfærður
um að sjónvarpið væri að ljúga að mér og á
því augnabliki. Sá sprettur átti hreinlega
ekki að vera hægt. Ekki er að ástæðulausu
talað um „mark markanna“.
Maradona var líka í berserkjaham í
undanúrslitunum og skolaði ramm-
villtum Belgum burt með baðvatninu.
Mörkin í þeim leik voru einnig eft-
irminnileg, einkum hið síðara. Varn-
armenn Belga voru þar í hænsnalíki –
innan um ref.
Aftur voru Vestur-Þjóðverjar komnir í
úrslit. Enginn veit af hverju. Og aftur
krömdu þeir lánlausa Frakka undir fótum
sér á leiðinni. Ætluðu Franz keisari Bec-
kenbauer og menn hans virkilega að ger-
ast boðflennur í veislunni hans Maradona?
Hér um bil.
Argentína krúsaði raunar framan af,
mörk frá José Luis Brown og Jorge Bur-
ruchaga komu þeim í þægilega stöðu. Þá
bærðu þýsku uppvakningarnir sig. Karl-
Heinz Rummenigge minnkaði muninn og
Rudi Völler jafnaði leikinn tíu mínútum
fyrir leikslok.
Ég horfði á leikinn með hópi franskra
pilta úr ungmennafélaginu Palaiseau og
munnsöfnuðurinn var ekki til eftirbreytni
á þeirri stundu. „Merde“ lak niður um alla
veggi. Svo mikið varð einum um að hönd-
in hrökk af honum. Eða var hann ein-
hentur fyrir? Svona leikur minnið mann
stundum grátt.
Frakkarnir gátu ekki fellt sig við þýskan
sigur og gengu því af göflunum þremur
mínútum síðar þegar Jorge Burruchaga
kom Argentínu aftur yfir – eftir snilld-
arsendingu frá Maradona. Lærisveinar
Carlosar Bilardos héldu út og Maradona
lyfti heimsbikarnum og innsiglaði ódauð-
leika sinn.
Er Maradona bestur?
Margir eru á því að Maradona sé besti
knattspyrnumaður allra tíma. Erfitt er að
andmæla því með haldbærum rökum.
Hitt er annað mál að Maradona var klár-
lega ekki eins góður og landi hans, Lionel
Messi, þegar hann var 23 ára. Hann var á
26. ári þegar hann toppaði í Mexíkó. Messi
á að öllum líkindum enn eftir að toppa
sem er ógnvekjandi í ljósi þess að hann
gerði 47 mörk í 53 leikjum fyrir Börsunga í
vetur. Maradona skoraði mest 43 mörk á
vetri fyrir Boca Juniors í Argentínu en
mest 21 mark eftir að hann kom til Evr-
ópu, fyrir Napoli 1987-88.
Ef við horfum til árangurs þá vann
Maradona aldrei Evrópukeppni meist-
araliða, eins og helsta mót álfunnar hét
þá. Messi hefur þegar unnið Meist-
aradeildina í tvígang.
Margir bíða með öndina í hálsinum eftir
því að sjá hvað Messi gerir á HM í sumar.
Hann þurfi fyrst að slá í gegn þar áður en
samanburðurinn verði raunhæfur. En
fyrst þarf Maradona auðvitað að velja
hann í liðið!
Svo er alltaf Pelé …
Af öðrum sem hrifu heimsbyggðina upp
úr skónum í Mexíkó 1986 má nefna
frændur vora Dani, sem þreyttu frumraun
sína á HM. Þeir reykspóluðu gegnum rið-
ilinn og unnu meðal annars frægan sigur á
Úrúgvæ, 6:1, en fyrir mótið hafði einhver
sparkspekingur lýst því yfir að liðið sem
skoraði í tvígang hjá þeim yrði heims-
meistari.
Koma svo, Re-Sepp-Ten!
Ekki fór það samt svo að Danir yrðu þre-
faldir heimsmeistarar. Spánverjar tóku þá
til bæna í 16 liða úrslitum, 5:1, þar sem
„Gammurinn“, Emilio Butragueño, gerði
fernu.
En Danir, með Michael Laudrup og
tófusprenginn og keðjureykingamanninn
Preben Elkjær Larsen fremsta í flokki,
skemmtu sér og okkur. Hver man annars
ekki eftir slagaranum góða Re-Sepp-Ten?
Annað spútniklið úr riðlakeppninni,
Sovétmenn, féll líka úr leik í 16 liða úrslit-
um í frægum leik gegn Belgum, 4:3.
Þá kemur viðureign Frakka og Bras-
ilíumanna í 8 liða úrslitum oft upp þegar
bestu leiki á HM ber á góma. Hann var
einstaklega vel leikinn og lauk spennunni
ekki fyrr en í vítakeppni, þar sem Frakkar
höfðu betur. Í þeim leik skoraði Michel
Platini í annarri keppninni í röð á afmæl-
isdaginn sinn. Vita gagnslausar upplýs-
ingar en fljóta eigi að síður með.
Markakóngur HM í Mexíkó varð Eng-
lendingurinn Gary Lineker sem gerði sex
mörk í einungis fimm leikjum. Stjarna
hans hækkaði hratt á lofti í kjölfarið.
En HM ’86 var fyrst og fremst keppnin
hans Maradonas. Snilli hans mun aldrei
gleymast.
Ekki heldur hönd Guðs.
Zico, erkispyrnir Brasilíu á HM á Spáni 1982, lætur vel að ítalska varnarmanninum Claudio
Gentile. Númer sjö í bakgrunninum er einn af fremstu varnarmönnum sögunnar, Gaetano
Scirea, sem lést í bílslysi í Póllandi sjö árum síðar. Ítalir lögðu Brasilíumenn óvænt að velli.
Paolo Rossi markakóngur HM á Spáni.
’
Mörkin í þeim leik
voru einnig eft-
irminnileg, einkum
hið síðara. Varnarmenn
Belga voru þar í hænsnalíki
– innan um ref.