Morgunblaðið - 14.01.2010, Qupperneq 31

Morgunblaðið - 14.01.2010, Qupperneq 31
getað verið með henni síðasta spölinn. Það var svo gott að hafa ömmu hjá okkur yfir jólin og fá að njóta þess- arar samverustundar. Ég var mín fyrstu jól með henni og hún sín síð- ustu með mér. Hugurinn leitar til baka til allra góðu stundanna sem við áttum sam- an. Þær stundir voru ófáar, það var ekkert betra en að vera í rauða húsinu á Þórólfsgötunni að hjálpa henni að baka og að spila eða vera í feluleik með afa. Flestar æskuminningar mín- ar eru frá Þórólfsgötunni, þar var æð- islegt að vera sem lítið stelpuskott með ömmu, afa og hundunum. Þegar amma og afi fluttu svo í kjall- arann hérna heima var ekki leiðinlegt hjá mér, þar átti ég vin sem hafði allt- af tíma fyrir mig. Það tók mig ekki langan tíma að hlaupa niður tröpp- urnar á morgnana til að skríða upp í rúm til ömmu og afa, þar sem amma var að venju í rauða náttkjólnum sín- um og hlýjaði mér á köldum tásunum. Aldrei hafði ég barnapíu og hefði sennilega ekki viljað það, því að ég hafði ömmu mína sem gat passað uppá mig og það gerði hún svo sann- arlega. Amma var gríðarlega stór hluti af lífi mínu, við brölluðum margt saman og ég á margar góðar minningar sem ég get hlýjað mér við. Mér dettur fyrst í hug þegar við bökuðum saman bláu kökuna, amma var vön að gera græna sandköku og við ákváðum að hafa hana bláa í eitt skiptið, við spör- uðum þó ekki matarlitinn heldur not- uðum hann allan svo að þeir sem fengu sneið fengu líka bláa tungu. Þetta rifjuðum við upp saman á að- fangadagskvöld þar sem við sátum saman og borðuðum matinn sem ömmu hafði dreymt í svefni og vöku síðustu daga fyrir jól. Alltaf þótti mér jafn vænt um það að sjá gamla föndrið mitt í stofuhill- unni hjá henni, eitthvað sem ég hafði búið til handa henni, þegar ég var lítil. Sama hvað það var þá tók hún við því með bros á vör og kom fyrir uppi í hillu. Amma verður mér ávallt innst í hjarta, ég er þakklát fyrir allan tím- ann sem við áttum saman. Við kveðj- um með trega, þó er ég viss um að hún muni vaka yfir okkur öllum, sérstak- lega afa. Ég sendi þér kæra kveðju nú komin er lífsins nótt, þig umvefji blessun og bænir ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því, þú laus ert úr veikinda viðjum þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér, og það er svo margs að minnast svo margt sem um hug minn fer, þó þú sért horfinn úr heimi ég hitti þig ekki um hríð, þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Rakel Erna. Hvert tár á hvarmi þakkar vegferðina. Hjá okkur varstu kærleiksrík og blíð. Hugrökk kona, hugsaðir um þína. Hve vel við minnumst þín, já alla tíð. (KRB) Elsku Jenný amma. Nú hefur þú lagt augun aftur, en við trúum því að þú munir opna þau annars staðar og vonum að þar beri margt fyrir augu sem gleður þig. Þó að andlát þitt hafi ekki komið á óvart grátum við þig sárt, því þú varst sú besta amma og tryggasti vinur sem nokkur getur átt. Ég kom fyrst á Þórólfsgötuna 18- 19 ára gömul, stelpuskjáta sem svaf hjá syninum. En mér var vel tekið, eins og öllum sem til ykkar komu, með glaðværð og hjartahlýju. Unga parið bjó svo um tíma hjá ykkur, svo komu synirnir einn af öðrum og alltaf var komið á Þórólfsgötu. Best var að sofna í holu hjá afa og ömmu. Stund- um var skipt liði og sumir sváfu hjá ömmu Sissu. Einu sinni sagðir þú við Sissu: „Það væri ljótt ef þú færir að sofa hjá Sigrún mín. Þú myndir vekja gæjann um miðja nótt og segja: Þarftu ekki að pissa elskan mín.““ Það var svo margt sem hvergi var hægt að upplifa nema á Þórólfsgötu; græna kakan, gervihryggurinn, steik- urnar og salatið sem svo oft gleymdist í ísskápnum. Að ógleymdu slátrinu sem alltaf var búið til þar, en rataði samt alltaf til okkar hvar sem við bjuggum. Þegar ég skildi við soninn pössuðuð þið hjónin alltaf vel að láta drengina ekki gjalda þess. Hlúðuð enn betur að þeim og áfram fengum við slátur hvert haust. Þegar ég kynnti seinni mann- inn minn fyrir þér og Gissuri afa kom hjartahlýja ykkar beggja vel í ljós, því þið tókuð honum eins og týnda syn- inum sem væri nú loksins kominn heim. Hann segir líka alltaf að hann hafi fengið þrjú sett af tengdaforeldr- um með mér. Þegar ég flutti norður voruð þið komin í Kópavoginn. Þá var farið af stað, þvottur sóttur og þveg- inn. Ungir menn fóðraðir og keyrðir til læknis og svo mætti lengi telja. Ekkert var talið eftir. Allt var sjálf- sagt og innt af hendi af mikilli gleði. Elsku Jenný, þessi fátæklegu orð fá engan veginn lýst hve þakklát við er- um fyrir að hafa fengið að deila með þér gleði og sorgum og fyrir að hafa átt þig að sem ömmu og vin. Því vin- áttan var veitt skilyrðislaust. Hvort þú varst tengdamamma eða ekki eða hverjar aðstæður voru skipti ekki máli. Megir þú hvíla í friði. Þinn háttur var ekki að auglýsa þig, né elta hin fánýtu gildi. En þræddir svo gætin þinn góðverka stig, með gegnheilli alúð og mildi. Og þegar er hlutverk á himnum þér reitt, því hvarvetna í alheimi blasa. Verk fyrir þá, sem það ágirnast eitt, að annast þá smáu er hrasa. Andi þinn siglir nú eilífðar sæ, til Alföður strandanna ljósa. En minningin lifir, þær muna þig æ, mæðgurnar Sigrún og Rósa. (Kristján Árnason) Öllum þeim sem eiga um sárt að binda vegna andláts Jennýjar Skarp- héðinsdóttur vottum við okkar dýpstu samúð. Rósa Birgisdóttir, Gunnlaugur Lúthersson, Guðmundur Smára- son, Gissur Smárason, Rúnar Smárason, Skarphéðinn Smára- son og Sigrún Árnadóttir. Minningar 31 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 14. JANÚAR 2010 ✝ Innilegar þakkir fyrir samúð og hlýhug við andlát móður minnar, SONJU SIGURÐARDÓTTUR. Sérstakar þakkir til starfsfólks Víðiness fyrir umönnun hennar. Ólafur Valdimars. ✝ Okkar ástkæra dóttir, systir, barnabarn og barna- barnabarn, ELVA BJÖRG EGILSDÓTTIR, Niederanven, Lúxemborg, lést laugardaginn 9. janúar. Útför fer fram frá Kópavogskirkju mánudaginn 18. janúar kl. 13.00. Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir en þeim sem vilja minnast hennar er bent á styrktarreikninga „Elva Björg Foundation“, bæði á Íslandi og í Lúxemborg. Vala Björg Arnardóttir, Egill Reynisson, Daníel Örn Egilsson, Edda Kristín Egilsdóttir, Edda Sölvadóttir, Örn Jóhannsson, Kristín Hermannsdóttir, Reynir Eiríksson, Sölvi Guðlaugsson. ✝ Ástkær bróðir okkar, móðurbróðir og frændi, EGGERT KRISTMUNDSSON bóndi, Efri-Brunnastöðum, Vatnsleysuströnd, lést á hjúkrunarheimilinu Garðvangi, Garði, þriðjudaginn 12. janúar. Útförin verður auglýst síðar. Elín Kristmundsdóttir, Anna Scheving Kristmundsdóttir, Hallgrímur Kristmundsson, Gísli Scheving Kristmundsson, Skarphéðinn Scheving Einarsson, Hannesína Scheving Skarphéðinsd., Guðmundur Steingrímsson, Svanur Már Skarphéðinsson, Brynja Hafsteinsdóttir, Kristmundur Skarphéðinsson, Ingunn Lúðvíksdóttir, Elín Kristín Skarphéðinsdóttir. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda- faðir, afi og langafi, GUÐFINNUR KRISTINN JÓNSSON, Furugerði 1, áður Unufelli 29, andaðist á Landspítalanum sunnudaginn 10. janúar. Útförin fer fram frá Bústaðakirkju þriðjudaginn 19. janúar kl. 13.00. Blóm og kransar vinsamlegast afþakkaðir en þeim sem vildu minnast hans er bent á Krabbameinsfélagið. Guðrún Magnúsdóttir, Magnús Guðfinnsson, Inga Dóra Halldórsdóttir, Sigurður Jón Guðfinnsson, Halla Elísabet Guðmundsdóttir, Guðni Guðfinnsson, Sondy Haldursdóttir Johansen, Jens Guðfinnsson, Erla Rúna Guðmundsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, afi og langafi, GUNNAR H. JAKOBSSON, Blikaási 9, Hafnarfirði, andaðist á Landspítalanum í Fossvogi föstudaginn 8. janúar. Útför hans fer fram frá Garðakirkju föstudaginn 15. janúar kl. 13.00. Pálína Þorgrímsdóttir, Hildur Gunnarsdóttir, Ingólfur Benediktsson, Gylfi Gunnarsson, Halla Gunnarsdóttir, Harpa Gunnarsdóttir, Sigurður Arnar Sigurðsson, Gunnar Már Sigfússon,Sara Reginsdóttir, barnabörn og barnabarnabörn. fljótt komst ég að því að hann var líka með stórt hjarta. Hann tók mér vel strax í upphafi og ekki skemmdi fyrir að ég er sveitabarn eins og hann og ég skynjaði fljótlega að hann var mikið náttúrubarn. Þrátt fyrir háan aldur var minnið gott og margar sögur sagði hann mér úr sveitinni sinni í Hrútafirð- inum, um gæðingana sína sem hann unni mjög og kindurnar sem hann sat yfir frá barnsaldri ásamt hund- inum sínum. Hann sagði það hafa verið erfiðan tíma þegar hann þurfti að selja búféð og flytja suður, því hugur hans stóð til þess að verða bóndi í sveitinni sinni. Hann fékk stutta skólagöngu, en árin hans í Reykjaskóla voru honum mjög dýrmæt og talaði hann um þann tíma með mikilli ánægju, ekki ólíklegt að það hafi verið honum góð hvíld frá vinnustritinu. Hann var hafsjór af fróðleik og ekki síst um landið okkar, örnefni, bæjarnöfn og nánast allt sem sneri að Íslandssögunni og ekki á margra færi að leika það eftir. Þorleifur fylgdist vel með þjóð- málum og sem dæmi um áhuga hans var þegar hann lá á spítalanum rétt fyrir andlátið, þá spurði hann Ás- björn í hvert skipti sem hann kom til hans hvort forsetinn væri búinn að skrifa undir vegna Icesave-laganna. Hann var stoltur af stóra barna- hópnum sínum og fylgdist vel með honum, þegar fjölskyldan hittist þá gat hann sem betur fer oftast verið með okkur þrátt fyrir að hann væri bundinn í hjólastól síðustu árin. Hann kunni ógrynni af vísum og oft- ar en ekki fór hann með vísur fyrir okkur og mér fannst alveg ótrúlegt hvað hann mundi og þuldi upp. Mér er minnisstætt níræðisaf- mælið hans fyrir tæpu ári, gleði- svipnum sem kom á andlit hans þeg- ar Lögreglukórinn gekk í salinn og söng nokkur lög fyrir hann ásamt því að einn af félögunum rifjaði upp góða tíma með honum úr löggunni. Þorleifur fékk sem betur fer að halda reisn sinni fram í andlátið, það var honum ekki eiginlegt að gefast upp og hann ætlaði líka að hafa bet- ur í þetta skiptið. Það var honum mikils virði að fá að fara heim af spítalanum og á Hrafnistu komst hann til að kveðja það góða fólk sem hefur hjúkrað honum á síðustu ár- um. Elsku Þorleifur, hvíldu í friði. Elín Pálsdóttir. Það reyndist mér dýrmæt reynsla að búa hjá afa. Flökkulíf mitt í þrjú ár var andstæða við það venju- bundna líf sem afi lifði. Ég sé nú hvað afi gerði margt til að ná til mín. Tengsl okkar urðu sterk og mér leið öruggri hjá honum. Eftir dag í Há- skólanum fór ég beint til hans og sagði honum frá deginum. Hann var oft með sætt glott og hlustaði af áhuga. Það voru margar skemmtilegar venjur í sambúð okkar. Matur var á hverju kvöldi klukkan hálf sjö og við horfðum alltaf saman á fréttir. Afi sendi mig reglulega út í búð að kaupa ís og ávexti, svo sátum við og borðuðum ísinn á meðan afi sagði mér sögur úr sveitinni. Hann sagði mér frá draumi sínum um að gerast bóndi, Reykjaskóla, sjóferðum sín- um með föður sínum, því þegar faðir hans keypti útvarp fyrstur allra í sveitinni og þegar hann gætti sauð- fjárins. Sumarið 2003 fórum við í bíltúr í síðasta sinn. Á næstu dögum sótti ég hjólastól og undirbjó áframhaldandi dvöl okkar saman í Bólstaðarhlíð- inni. Ég man eftir sterkri hamingju- tilfinningu og ánægju yfir því að hann gat áfram búið heima. Afi sagði að þar væru minningarnar. Yfir dag- inn sat ég við borðstofuborðið að læra en hann sat við stofugluggann. Kyrrðin og nærvera afa var mér ómetanleg. Afi var skemmtilegur og sama hvað gekk á þá kom hann mér til að hlæja. Hann lét reglulega vita að sú aðhlynning sem hann fékk væri góð og að hann væri í góðum höndum. Afi fylgdist vel með og vildi gera allt sem hann gat allt fram að andláti sínu. Afi var viljasterkur, þolinmóð- ur, þrautseigur og hafði sterkan lífs- vilja. Haustið 2004 fór afi í annað sinn á spítala. Þá bað hann mig að sækja giftingarhringinn sinn. Hann gaf mér hringinn og sagði mér að hann kæmi ekki aftur heim. Afi kenndi mér margt, meðal ann- ars að elda kjötsúpu, að soðið vatn er allra meina bót og að þekkja muninn á vinum og kunningjum. Afi leiðrétti málfar mitt og kenndi mér merk- ingu setningarinnar „orðstír deyr aldrei“. Ég lærði af því að sjá afa taka því af auðmýkt og æðruleysi þegar hann missti getu sína til að sjá um sig sjálfur. Hvað viljastyrkur og sjálfsagi eru mikilvægir eiginleikar og að ef þú ert ánægður þá er lík- legra að þeir sem eru í kringum þig séu ánægðir. Ég er sú sem ég er vegna þess að ég flutti inn til afa. Kveðjustund mín og afa var jafn falleg og saga okkar í heild. Ég kom til hans daginn fyrir andlát og rifjaði upp góðar stundir. Hann lagði sig fram við að senda mér merki um að hann væri að hlusta og náði nokkr- um sinnum að brosa til mín. Daginn eftir þá lagðist ég á rúmstokkinn hjá honum, lagði hönd mína á kynn hans og sagði honum að ég væri hjá hon- um. Þá tók hann sinn seinasta and- ardrátt. Ég vona að sál þín lifi áfram, elsku afi minn, og að fegurð þín fái að njóta sín. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu og ég mun búa að þeirri tengingu sem myndaðist okk- ar á milli. Mér þykir átakanlega sárt að þú sért farinn. Mér finnst erfitt að horfa ekki aftur í augu þín, tala við þig og finna aftur nærveru þína. Þú ert fallegur maður að utan sem innan og ég er stolt af því að vera barnabarn þitt. Þú lifir að eilífu í minni sál. Þín, Bryndís. Meira: mbl.is/minningar

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.