SunnudagsMogginn - 27.02.2011, Blaðsíða 47
27. febrúar 2011 47
S
teinunn Sigurðardóttir stendur á Baerwald-
brúnni í Kreuzberg, horfir yfir kanalinn og
leyfir sér að hrífast. Kannski er það einmitt
náðargáfa rithöfundarins, þessi knýjandi þörf
fyrir afstöðu til umhverfisins. Enda er það efniviðurinn
sem unnið er úr.
„Umhverfið hérna er fyrir minn smekk það æv-
intýralegasta í Berlín,“ segir Steinunn. „Og tíu mín-
útna gang niður með kanalnum er barinn okkar, sem
við lásum okkur til skelfingar að væri líka barinn hans
Quentins Tarantino, en hann hékk í borginni löngum
stundum meðan tökur stóðu yfir á Inglourious Bast-
ards.“
Á þriðjudögum og föstudögum er Tyrkjamarkaður
við kanalinn. „Þar var ég eins og grár köttur þegar ég
skrifaði um saumakonuna, móður söguhetjunnar í
Góða elskhuganum, pældi mikið í efnum og þreifaði á
þeim; markaðsfólkið hélt ég væri gengin af göflunum.
Enda var meira um slíkar lýsingar í fyrstu drögum
bókarinnar, satín og efnisþulur sem síðar lentu í glat-
kistunni.“
Örskammt frá brúnni er veitingahús með stórum
bjórgarði. Og þangað er förinni heitið. „Kráin nefnist
Brachvogel, sem þýðir spói,“ segir Steinunn og brosir.
„Hún kemur fyrir í einni bókinni sem ég er að vinna
að.“
– Hvað gerist?
„Ég get sagt eitt án þess að blotta mig alveg. Það er
svo langt þangað til bókin kemur út að ég má ekki
segja of mikið. Bókin fjallar einum þræði um vináttu
tveggja manna, lykilsamtal á sér stað á þessum stað, og
söguhetja bókarinnar býr hér rétt hjá, þannig að hún
kemur stundum hingað. Þetta er því alvörustaður í
bókinni.“
Svo beinir hún talinu annað.
„Ég er fegin að birtan er svona falleg í dag.“
Og það kemur blik í augun.
„Annars var ég í símanum áðan, að tala við forleggj-
arann minn á Íslandi, Guðrúnu Vilmundardóttur. Það
er nauðsynlegt fyrir rithöfunda að hafa einhvern til að
barma sér við. Og ég sagði við hana: „Ég er óvenju vit-
laus í dag.“ Hún svaraði: „Ég heyri engan mun.““
Hún hlær innilega.
– Þú fluttir til Berlínar fyrir þremur árum. Af hverju?
„Veistu, þetta eru svo miklar tilviljanasögur. Við
höfðum verið í fjögur ár í Suður-Frakklandi eftir árin
okkar í París. Við vorum að leita okkur að nýju húsi í
Frakklandi með mikilli fyrirhöfn, fórum þvert um
landið og fundum fallegt hús með garði og það var stór
skógur rétt hjá, en það rann okkur úr greipum fyrir
furðutilviljun. Þá fórum við til Berlínar. Við ætluðum
okkur alltaf að flytja þangað tímabundið, en það hafði
ekki gengið upp, og þarna ákváðum við að flytja bara
með allt okkar hafurtask. Ég sé ekki eftir því. Maður
saknar alltaf Frakklands en það væri líka eitthvað að ef
maður saknaði þess ekki eftir að hafa búið þar í sjö ár.
Ég hef nóg að gera í Þýskalandi. Bækurnar mínar eru
gefnar út með hraði, ég tek þátt í upplestrum og er í
ágætum tengslum við lesendur og svo á ég marga vini í
Berlín og víðar í Þýskalandi.“
Það iðar allt af lífi í kringum bjórgarðinn, hrópandi
og skríkjandi börn að leik og fljúgandi
hegri slær vængjunum í vatnsyfirborðið í
kanalnum. Tvær ungar konur á næsta
borði fylgjast með ljósmyndaranum að
störfum og loks herðir önnur sig upp í að
spyrja:
„Er hún fræg? Er þetta einhver sem við
eigum að þekkja?“
Steinunn er fljót að svara.
„Ég er nú hrædd um ekki.“
En konurnar trúa Steinunni ekki alveg
og halda áfram að gjóa augunum á hana.
Svo sem engin ástæða til að trúa konu, sem vinnur við
að skálda sögur. Ef þær bara vissu!
„Það er ekki spurning í mínum huga að Kreuzberg er
aðalstaðurinn í Berlín,“ heldur Steinunn áfram. „Mann-
lífið hérna er svo skemmtilega blandað. Prenzlauer Berg
er mjög fínt svæði, en þar eru allir eins. Eini gallinn við
Kreuzberg er að það er orðið svo trendí. En við komum
á góðum tíma fyrir þremur árum.
Uppáhaldsgatan mín er á mörkum Kreuzberg og
Tempelhof, Manfred-von-Richthofen-Straße, kennd
við flugkappann rauða baróninn úr fyrri heimsstyrjöld-
inni. Það er upprunaleg gata og míkrókosmos, þar sem
má finna allt sem hugurinn girnist, en ekki er búið að
breyta öllu í nýtískukaffihús eða dýnubúðir. Það er til
marks um uppákomurnar í Berlín, að fyrir skömmu var
ég að kaupa í matinn, en Þorsteinn beið við bílinn á
hæpnu bílastæði. Þegar ég kom út var Þorsteinn í
hrókasamræðum við hjón; hann talar ekki góða þýsku,
þannig að samtalið var á sænsku, frönsku og ensku. Þá
kemur í ljós að þau eiga heima við þessa uppáhaldsgötu
okkar og segja: „Komið bara í kaffi á morgun.“ Ég er
vön að segja nei við öllum svona uppástungum, en þetta
var nú eiginlega tilboð sem er ekki hægt að hafna.
Það var sunnudagur daginn eftir og þau búa aðeins
neðan við verslunarhlutann af götunni, gengið var inn
um hlið og þá vorum við komin upp í sveit! Það eru
alltaf þessir fyrirburðir í Berlín; og í garðinum var
stærsta og elsta ginkgo biloba-tré í borginni. Þegar við
vorum búin að fá okkur kaffi og kökur, þá spurðu þau:
„Eigum við ekki að spássera? Við komum að rósagarði
rétt hjá, þar sem búið var að setja upp tjald, á þessum
bjarta sumardegi í 30 stiga hita, og þarna sátu tveir
englar og spiluðu á fiðlur og allt nágrannasamfélagið var
mætt til að hlusta og fá sér kaffi!“
– Næst þegar við komum verðið þið flutt þangað!
„Ég veit það ekki,“ svarar Steinunn hikandi.
„Ef þið komið eftir tíu ár kannski.“
– Hvernig stendur á að heimsborgarinn sækir
sögur sínar til Seltjarnarness í Góða elskhug-
anum?
„Ég hef alltaf elskað Seltjarnarnes á einhvern
lúmskan hátt. Það var einmitt í þeim kafla sem
ég þurfti að halda aftur af mér. Sigríður,
skrítna konan í húsinu á Silfurströnd, sem var í
raun málpípa mín, sagði í drögum fram á síð-
asta dag: Hér eru fallegustu sólarlögin, besta
sundlaugin, dásamlegustu gönguleiðirnar. Ég
áttaði mig á því daginn áður en ég skilaði inn handritinu
að þetta gengi ekki og strikaði eitthvað af þessu út. Það
mátti ekki skína í gegn hvað höfundinum þótti gaman á
Seltjarnarnesi. En í gamla daga, þegar ég átti heima í
Gnoðarvogi, keyrði ég í 20 til 30 mínútur til að komast í
sund á Seltjarnarnesi. Ég synti í þessari geðveiku sund-
laug og naut gufubaðsins þó að ég byggi á næsta bæ við
Laugardalslaugina. Svo dáðist ég að hafinu og Gróttu.
Þetta var ekta hrifning. Þvílík að við Þorsteinn vorum
næstum búin að kaupa iðnaðarhúsnæði í Bygggörðum,
rétt við Gróttu. Þaðan á ég góðar minningar frá því ég
vann hjá Sigfúsi Daðasyni skáldi þegar hann var útgef-
andi hjá Máli og menningu. Þá vorum við í stöðugum
áætlunarferðum í prentsmiðjuna hjá Hafsteini Guð-
mundssyni, frægum fagurkera og prentara – Hafsteini í
Hólum.“
– Þú talar samt um það í bókinni, að besta sundlaugin
sé á Seltjarnarnesi!
„Slapp það í gegn? Guð minn góður!“
Texti Pétur Blöndal pebl@mbl.is
Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is
Síðasta orðið…
Steinunn Sigurðardóttir
Þetta var ekta hrifning
’
Ég hef
alltaf
elskað
Seltjarnarnes
á einhvern
lúmskan hátt.