SunnudagsMogginn - 27.03.2011, Qupperneq 18
18 27. mars 2011
S
aga Eystrasaltsríkjanna þriggja,
Eistlands, Lettlands og Litháens,
á tuttugustu öldinni er saga um
frelsisbaráttu. Þau lýstu öll yfir
sjálfstæði sínu árið 1918 og fengu það
formlega viðurkennt skömmu síðar.
Sjálfstæðið dugði þó ekki nema í tvo ára-
tugi í þeirri lotu.
Árið 1940 innlimuðu Sovétríkin löndin
þrjú með hervaldi í samræmi við Molo-
tov-Ribbentrop-samninginn sem Sov-
étmenn og Þjóðverjar gerðu sín í millum
við upphaf seinna stríðs. Forsendur þess
samnings brustu sem kunnugt er fljótt og
ári síðar voru Eystrasaltslöndin farin að
lúta stjórn Þjóðverja eftir innrás þeirra í
Sovétríkin. Þegar Þjóðverjar hörfuðu loks
árið 1944 tóku Sovétmenn aftur við
stjórnartaumunum í löndunum.
Sovétmenn mættu mestri mótspyrnu í
Litháen og ekki tókst að bæla vopnaða
andstöðu skæruliða niður fyrr en 1953.
„Stalín þraut þolinmæði og sendi her-
flokka í skógana til að eyða skæruliðum.
Líkin voru svo sett á torgin í þorpunum
og látin rotna þar til að minna íbúana
rækilega á, hver hefði völdin,“ segir Arn-
ór Hannibalsson, prófessor emeritus, sem
gjörþekkir sögu þessa svæðis.
Það breytir ekki því að undir niðri
kraumaði áfram löngun til sjálfstæðis – í
löndunum öllum.
Snemma á níunda áratugnum fékk sú
barátta byr undir báða vængi. „Þá var
orðið ljóst að Sovétvaldið gat ekki lengur
endurnýjað sig,“ segir Arnór. „Þegar ég
var í Moskvu árið 1982 jaðraði við hung-
ursneyð og hafði höfuðborgin þó algjöran
forgang. Öllu var mokað þangað. Sovéski
landbúnaðurinn gat ekki framleitt nægi-
lega mikið af mat lengur og undir lok
áratugarins þurfti Evrópusambandið að
vera með neyðarhjálp í sjálfu risa-
veldinu.“
Vildi endurlífga Sovétríkin
Ört var skipt um leiðtoga í Sovétríkj-
unum á öndverðum níunda áratugnum,
Bresnjev, Andropov og Tsjernenkó söfn-
uðust allir til feðra sinna og árið 1985
settist ungur maður í hásæti Stalíns,
Mikhaíl Sergejevítsj Gorbatsjev. Hlutverk
hans var að endurlífga Sovétríkin.
Það hugðist hann gera með „glasnost“
(opnun) og „perestroika“ (endur-
skipulagningu). Gorbatsjev áleit að nóg
væri að bjóða þjóðunum innan Sovétríkj-
anna betri kjör. Það var misskilningur.
„Gorbatsjev slakaði meðal annars á rit-
skoðun en án hennar gat kerfið ekki
virkað. Hið frjálsa orð varð banabiti Sov-
étríkjanna, alræðið þolir ekki hið frjálsa
orð,“ segir Arnór. „Undir niðri kraumaði
líka þjóðernishyggja. Stjórnvöld í Kreml
stefndu að því leynt og ljóst að eyða öll-
um öðrum tungumálum en rússnesku og
því undi fólkið illa, ekki síst í Eystrasalts-
löndunum. Að vísu var ástandið orðið
mjög slæmt í Lettlandi, dauft var yfir öllu
menningarstarfi, lettneskan alveg að
deyja út og Riga að verða rússnesk borg.“
Hann segir trúmál einnig hafa spilað
stóra rullu. „Í Sovétríkjunum var sá sem
tók þátt í safnaðarstarfi eða lét yfir höfuð
sjá sig í kirkju umsvifalaust hrakinn úr
vinnu. Þetta ástand áttu trúaðir erfitt
með að sætta sig við.“
Vilji þjóðanna þriggja var einn – að
endurheimta sjálfstæðið og lýðræðið.
Litháar voru í fylkingarbrjósti, stofnuðu
þjóðarhreyfingu til stuðnings „perest-
roiku“, Sajudis, og kommúnistaflokkur
landsins lýsti yfir sjálfstæði sínu við litla
hrifningu ráðamanna í Kreml. 11. mars
1990 kom svo nýtt þjóðþing saman í Vil-
níus og lýsti yfir sjálfstæði Litháens. Gor-
batsjev brást illa við þeim gjörningi en
engu tauti varð við Litháa komið.
Vildi ekki trufla Gorbatsjev
Leiðtogar Litháa leituðu logandi ljósi að
ríki til að styðja sjálfstæðisbaráttu sína og
horfðu einkum og sérílagi til Bandaríkj-
anna. Héldu að stuðningur þeirra yrði
auðsóttur enda viðurkenndu þau ekki
innlimunina 1940. Annað kom á daginn.
„Þáverandi forseti, Bush eldri, þvertók
fyrir nokkurn stuðning. Vildi ekki trufla
vin sinn Gorbatsjev í lýðræðisumbót-
unum og mæltist til þess að menn hættu
öllu sjálfstæðisbrölti,“ segir Arnór. „Þá
snéru Litháar sér að Svíum en mættu
litlum skilningi. Það er svo sem ekkert
skrýtið, Svíar viðurkenndu innlimun
Eystrasaltsríkja í Sovétríkin.“
Enda þótt Gorbatsjev hafi ætlað sér að
halda Sovétríkjunum saman með góðu
greip hann til örþrifaráða þegar ólgan
magnaðist og sendi skriðdrekasveit inn í
Vilníus. Stormaði hún að sjónvarpsturn-
inum í borginni og náði honum á sitt
vald. „Það skilur enginn hvers vegna þeir
tóku bara sjónvarpsturninn, venjulega
taka menn stjórnarráðið, járnbraut-
arstöðina, pósthúsið og flugvöllinn líka,“
segir Arnór.
„Þegar skriðdrekasveitin renndi að
Sjónvarpsturninum var kallað í gjall-
arhorn að Þjóðbjargarnefndin hefði tekið
völdin í landinu en enginn vissi hvað
þessi „Þjóðbjarganefnd“ var. Til að láta
kné fylgja kviði keyrði skriðdreki inn í
mannfjöldann og drap fjórtán manns.
Síðan var byrjað að sjónvarpa á litháísku
og rússnesku.“
Heima á Íslandi fylgdist Arnór Hanni-
balsson grannt með framvindu mála,
meðal annars í gegnum gamlan vin sinn
og skólabróður frá Moskvu, Genzelis að
Litháar fylgdust spenntir með sjónvarpsávarpi Jóns Baldvins Hannibalssonar í beinni útsendingu.
Lettneskir herlögreglumenn standa vaktina við innanríkisráðuneyti Lettlands. Skömmu síðar var skotið á þá.