SunnudagsMogginn - 04.09.2011, Blaðsíða 47

SunnudagsMogginn - 04.09.2011, Blaðsíða 47
4. september 2011 47 E ldborg í Hörpu er þéttskipuð framhalds- skólanemum, sem sitja að mestu einbeittir, utan nokkurra sem ráfa á milli sæta, ýmist með húfu eða hettu á höfðinu. Annars eru augun límd við Víking Heiðar Ólafsson fyrir miðjum sal, sem spilar þriðja píanókonsert Rachm- aninoffs ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Víkingur Heiðar spilar svo verkið á upphafstónleikunum í næstu viku undir stjórn Vladimirs Ashkenazy. „Það er furðulegt að spila þetta verk,“ segir hann þegar næði gefst. „Maður er eitthvað svo á valdi ör- laganna.“ Hann kímir er blaðamaður hripar setninguna á blað. „Mér datt í hug að þú vildir ná niður þessari línu.“ Svo heldur hann áfram: „En það er kannski eina leiðin til að spila konsertinn að vera svolítið örlagatrúar. Emil Giles var spurður að því í heimsókn í Juilliard hversu langan tíma það hefði tekið að læra Rachmaninoff þriðja, sem hann hafði spilað í áratugi. Hann svaraði: „Ég er ennþá að læra hann.“ Þetta er svo- leiðis verk. Það hefur skrítin áhrif á fólk. Gary Graffman sagði að hann vildi að hann hefði lært konsertinn á yngri árum, áður en hann kynntist því hvað er að vera hræddur á sviði. Ég hef heyrt um píanista sem þarf að ýta fram á sviðið – það hvarflar að mörgum að aflýsa á síðustu stundu. Ég hef spilað það sjö sinnum með hljómsveit og óvissan er alltaf jafnmikil, eitthvað djöfullegt við hann.“ – Í hverju felst djöfulskapurinn? „Konsertinn byrjar á einfaldri laglínu, fyrsta opnan er ein sú „einfaldasta“ allra píanókonserta, en þegar hún er spiluð hefur maður á bak við eyrað að ekki verður aftur snúið. Þetta er byrjun sem gæti verið í fyrstu kennslubók- inni! En það sem á eftir kemur mótast ýmist af gríðarlega stórum tilfinningum eða fíngerðri tónlist, allt að því ball- ett. Rachmaninoff er frjáls í verkinu, það er spontant og mikið um hraðabreytingar, bæði í frásögn og tækni. Og mikið af tónlistinni virðist spretta úr undirdjúpum sálar- innar. Hún er uppfull af alls kyns ógnum og á köflum hálfgerðum hryllingi. Ég hef engan konsert spilað sem inniheldur jafnmikla innri spennu.“ – Það hlýtur að reyna á? „Þetta er hálfgert maraþon og þarf að reikna út hvernig halda má í líkamlega orku, til dæmis í lokakaflanum. En líkamlega erfiðið er einungis brotabrot af því sem verkið er. Það erfiðasta er að komast yfir þann hjalla og vera ekki með hugann við að það séu sextán nótur á sekúndu eins og ég las einhvers staðar. Og þá fyrst getur maður farið á flug í fantasíunni. Þegar ég segist vera á valdi örlaganna, þá er það af því að verkið er svo víðfeðmt, eins og risastór skáldsaga full af ævintýrum. Eina leiðin til að halda þræði og ná utan um stóru frásögnina er að lyfta sér upp úr öll- um endalausu nótunum líkt og að horfa á verkið úr tals- verðri lofthæð.“ – Þú hræðist ekki að eins fari fyrir þér og David Helf- gott, sem missti geðheilsuna við æfingar á Rachm- aninoff þriðja, ef marka má myndina Shine? „Ég veit það ekki. Ég hef stundum spurt mig, af hverju í ósköpunum ég sé að spila þetta,“ svarar Víkingur Heiðar og hlær. „Ég hef engar áhyggjur af geðheilsunni, en hætt- an er meiri í þessu verki en öðrum á að brjóta sjálfan sig niður, eins og ég gerði þegar ég spilaði það með sinfóníunni fyrir fjórum árum. Ég er reyndar ánægður með þá upptöku í dag. En eftir flutninginn var ég að niðurlotum kominn og eiginlega mjög sorgmæddur. Algjörlega tómur. Ef maður nálgast Rachmaninoff þriðja of mikið á þeim forsendum að maður ætli að spila hann full- komlega, þá tapast sú orrusta. Enda snýst flutningurinn ekki um það, eins og upptökur hans sjálfs sanna, tónlistin er miklu stærri en svo.“ – Þú spilaðir með Ashkenazy í vor. Hafði hann skoð- anir á þinni spilamennsku? „Ashkenazy áttar sig á því að allir píanistar eru ólíkir og leyfir manni að vera maður sjálfur. En hljómsveitarstjórar og einleikarar eru alltaf ósammála um eitthvað, annað væri meðvirkni eða flatneskja af verstu sort. Eftir þessa þrenna tónleika ræddum við saman, hann velti upp alls konar hugmyndum, kannski vildi ég skoða þetta eða prófa hitt, en hann hefur enga þörf til að troða einu eða neinu upp á mig. Og þegar ég var á pallinum, að spila ein- leikskadensuna í Grieg var hann inni í hverri einustu nótu. Sumir hljómsveitarstjórar slökkva á sér og það er heppni ef þeir grípa mann þegar kadensunni lýkur, en Ashkenazy kraumar allan tímann – það er svo mikil mús- ík í honum. Útgeislunin er slík, að þótt hann léti sér nægja að standa á pallinum og horfa á hljómsveitina, þá myndi hún spila betur.“ – Og það er margt á döfinni? „Já, það verða teknir upp sjónvarpsþættir í janúar 2012 fyrir RÚV. Það er stórt verkefni, sem mér er annt um að takist vel, enda áhugaverður vettvangur til að opna fólki fleiri gáttir inn í heim tónlistarinnar. Þættirnir eru um tónlist, ekki fólk, og ég nálgast það sem ég vil tala um í gegnum valin tónverk. Svo fékk ég styrk um daginn frá styrktarsjóði Samtaka um tónlistarhús og Ruthar Her- manns til að standa fyrir tónlistarhátíð í Hörpu í sumar. Það verður kammertónlist á þrennum tónleikum í kring- um sumarsólstöður, kannski miðnæturtónleikar. Hver veit hvernig það þróast, ég er opinn fyrir öllu, enda er gamall draumur að rætast. Ég vona að hátíðin verði ár hvert og er að leita að bakhjörlum.“ – Er útgáfa í burðarliðnum? „Næsta plata verður með Kristni Sigmundssyni. Tón- leikarnir sem við héldum í Hörpu í júní voru teknir upp fyrir Sjónvarpið, von- andi koma þeir út á dvd, og svo gerð- um við upptöku í hljóðveri sem kemur út á geisladiski í desember. Ég hef unnið að fleiri upptökum, sem ótíma- bært er að tala um á prenti, en ætli plöturnar verði ekki tvær eða þrjár á næsta ári.“ – Og þið eruð að flytja til Berlínar? „Halla kærastan mín var að klára BA í mannvísindum frá Oxford-háskóla. Þar af leiðir að við erum með autt blað og það skiptir mig engu máli hvar ég bý, svo lengi sem það er í skemmtilegri borg miðsvæðis í Evrópu. Berlín varð ofan á, hún er svo lifandi og enn í mótun, þar er mikið ungu fólki og svo er hún ódýrari en París og London. Það er líka mikið um að vera í tónlistarlífinu í Berlín, endalaus veggspjöld með klassískum tónleikum og mikið um tónleika, margir tilraunakenndir með mis- jöfnum árangri, en allt er þetta skemmtilegt!“ – Hvernig ganga flutningarnir? „Við erum að leita að íbúð og kannski hef ég viku í nóvember til að komast í það.“ Hann brosir. „Þangað til gengur það hreinlega ekki. Við gerum þetta ekki í flýti. Eins og staðan er núna, þá er flygillinn í geymslu í London og tíu kassar af bókum. Ég sé uppá- haldsflygilinn ekki aftur fyrr en við fáum íbúðina, þannig að það ætti að ýta á eftir mér!“ Texti Pétur Blöndal pebl@mbl.is Ljósmynd: Kristinn Ingvarsson kring@mbl.is Síðasta orðið … Víkingur Heiðar Ólafsson Maður er á valdi örlaganna ’ Ashkenazy áttar sig á því að allir pían- istar eru ólíkir.

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.