Teningur - 01.05.1988, Page 10
STÍGARNIR FJARRI
Faðir minn sefur. Svipurinn göfugur
og ber vitni góðu hjartalagi.
Fallegur núna...
ef einhver beiskja býr með honum hlýt ég að vera hún.
Einmanaleikinn heima, fólkið gengið til bæna
og engar fregnir af börnunum í dag.
Faðir minn vaknar, hlustar eftir
flóttanum til Egyptalands, kveðju sem sveipar sárin.
Svo nálægur núna,
ef einhver fjarlægð býr með honum hlýt ég að vera hún.
Og móðir mín gengur hjá úti í garði.
Bragðar á bragðlausu bragði.
Svo nærfærin núna,
þvílíkur vængur, þvílík kveðja, þvílík ást.
Einmanaleikinn heima, án hljóðs,
án fregna, án grænku, án æsku.
Og ef eitthvað brotnar þennan seinnipart dagsins
og ef eitthvað fer eða brestur
eru það tveir gamlir vegir, hvítir og hlykkjast.
Og niður þá hjarta mitt, fótgangandi.
Úr Los heraldos negros
Sigfús Bjartmarsson þýddi