Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1984, Blaðsíða 121
Um reykvísku
119
eins og áður sagði. Samkvæmt BG höfðu 7.77% barna í Reykjavík
blandaðan framburð, en samsvarandi tala fyrir þennan sama hóp hjá
okkur er 28.5%. Blandaður framburður hefur því aukist í þessum hóp,
þ. e. a. s. menn bera nú oftar fram fráblásin hljóð en áður. Það er því
engu líkara en að með aldrinum hafi BG-mennirnir orðið harðmæltari.
Rétt er þó að hafa nokkurn fyrirvara um þessa niðurstöðu, einkum
vegna þess að fjöldi þeirra barna sem BG prófaði var 2200 (sbr. Björn
Guðfinnsson 1946:158), en við höfum einungis prófað 49, og ekki er
hægt að útiloka, að tilviljun ráði einhverju um tiltölulega háa harð-
mæliseinkunn hjá þeim BG-mönnum sem við prófuðum.
Að slegnum þessum varnagla, má velta því fyrir sér hvernig staðið
geti á því, ef rétt er, að fólk sem var á aldrinum 10-13 ára 1941 hefur
gerst ögn harðmæltara með aldrinum. Segja má að þetta komi nokkuð
á óvart, sé t. a. m. miðað við þá niðurstöðu Björns Guðfinnssonar
(1946:160-161) að linmæli hafi verið meira meðal eldri barna en yngri
á því aldursbili sem hann kannaði.
Björn gefur eftirfarandi skýringu á þessu (1946:161):
Börn innflytjenda af harðmælissvæðinu læra fyrst harða framburð-
inn að meira eða minna leyti í heimahúsum. Síðar, er þau vaxa,
fara þau að umgangast linmælt fólk, einkum börn, daglega. Fram-
burðurinn tekur þá að blandast smátt og smátt. Eftir að þau koma
í skóla ... verða áhrifin svo sterk, að harði framburðurinn týnist
að mestu eða öllu leyti á tiltölulega skömmum tíma.
Tölumar okkar benda hins vegar til þess að harðmæli aukist með
aldrinum (sbr. Línurit 2). Annað sem benda má á í þessu sambandi er
það að jákvæð fylgni er milli menntunar og harðmælis (sbr. Línurit 2).
Það virðist því að breyttir tímar séu nú hvað varðar samband harð-
mælis og aldurs og menntunar. Harðmæli eykst með meiri menntun og
aldri. Augljósasta skýringin á þessu virðist vera sú mályrkjustefna sem
talið hefur harðmæli betra mál en linmæli. Raunar var Björn Guð-
finnsson einn af forvígismönnum þeirrar stefnu. Það virðist því sem
þessi barátta hafi einhvern ávöxt borið, þótt e. t. v. sé hann ekki ýkja
mikill. Hann kemur einkum fram í því að harðmæli eykst með aldri og
menntun, en þeir sem minni menntunar njóta taka harðmælið síður
upp.
Raunar er rétt að taka það fram að þessar athugasemdir eru einungis
byggðar á almennum niðurstöðum úr rannsókn okkar, en frekari úr-