Vera - 01.10.1983, Qupperneq 8
athygli, því hún hafði bundið upp pilsið á nýstárlegan hátt og það var gaman
að sjá afríkufólkið snúa sér við og fá hláturskast þegar borgarfulltrúinn gekk
framhjá! En kannski það athyglisverðasta sem við sáum var ungur þeldökk-
ur maður í sundskýlu og á hjólaskautum sem var með vasadiskó og stór
heyrnartæki á eyrunum og upp úr því ansi gott loftnet. Hann var svo snöggur
framhjá að ekki náðist að festa hann á mynd. Uppi við Sigurbogann skildu
leiðir okkar, aðrar gengu sömu leið til baka en hinar fóru ótroðnar slóðir.
En það var ákveðið að eyða seinni parti dagsins á Montmartre og skoða
Sacré Coeur kirkjuna og njóta hins stórkostlega útsýnis þarna af hæðinni yf-
ir borgina. París er óskaplega falleg borg og borið saman við margar stór-
borgir hefur tekist mjög vel að skipuleggja hana miðað við nútíma þarfir, lít-
ið um blokkir og háhýsi og þess konar „slys“. Þannig að borgin er ákaflega
heilleg. Á Tertre-torginu þar sem Iistmálararnir halda til hittum við unga
finnska listakonu og skáru hennar myndir sig mikið úr innan um túrista-
myndirnar. Við keyptum af henni tvær myndir mjög svo fallegar.
Þarna vorum við auðvitað teiknaðar þrátt fyrir góðan ásetning um að
sleppa því. Teiknararnir voru svo ýtnir að á endanum gafst maður upp bara
til þess að geta veifað örk framan í alla hina sem á eftir komu. Þarna var lengi
setið og ráfað um og farið í smærri skoðunarferðir á nærliggjandi gallerí og
keyptar pönnukökur í svanga túristamaga. Þarna varð vart við dálitla túr-
istafyrirlitningu, sérstaklega hjá teiknurunum, annars kvörtuðu þeir yfir
bisnesinum, það var lítið að gera og erfitt að vinna í hitanum.
I
Þetta var geysilega skemmtilegur dagur, eins og þeir allir auðvitað, og
þennan daginn röltum við niður hæðina klyfjaðar pokum og pinklum með
upprúllaðar arkir af misgóðum teikningum eins og sannar túristakerlingar
og fórum heim með metró. Við vorum orönar ótrúlega klárar í metrókerfinu,
þekktum það eins vel og stuttbuxnavasana okkar. Morgunhópurinn var með
óperuferð á prjónunum og tók það allan daginn að stússast í að fá miða og
skipta peningum. Þær skemmtu sér konunglega við að sjá og heyra „Ot-
hello“ en nokkrir ítalir höfðu gert uppistand eftir 2. þátt, púað og hrópað
og gengið út sem einn maður. Greinilega fundist vanta eins og eitt og eitt C.
13.07.
Þennan dag skiptu konur liði. Þrjár þær hugrökkustu fóru upp í Eiffel-
turninn, aðrar fóru að skoða Monu Lisu í Louvre-safninu til þess að geta sagt
þegar heim var komið: „Já og svo skoðuðum við Louvre-safnið og sáum
Monu Lisu“! sem fljótt á litið virðist verða 3ja mánaðar vinna. Aðrar tóku
það rólega og skoðuðu hverfið okkar betur, m.a. Victor Hugo-safnið. Það
hafði verið á dagskrá að fara í „tyrkneskt bað“ sem okkur var ráðlagt áður
en að heiman var farið. Á hótelinu okkar fengum við þær upplýsingar að eitt
slíkt væri að finna í næstu götu — hverfið okkar hafði sko upp á allt að
bjóða! Jæja, þangað var svo haldið síðdegis en það reyndist einmitt vera
kvennadagur þennan miðvikudag. í einu orði sagt var þetta einn af hápunkt-
um ferðarinnar — þessi baðferð, og verður reynt að lýsa henni. Þegar inn var
komið fengum við afhenta sloppa og mittisklúta, ásamt lykli að klefanum
okkar. Þar afklæddumst við og fórum í sloppana. Þá var gengið niður tröpp-
ur á hæðina fyrir neðan en á efri hæðinni var opinn hringur í miðjunni og
undir honum var samsvarandi stór sundlaug. Meðfram sundlauginni voru
hvíldarbekkir í rökkri og þar inn af voru klefar þar sem hægt var að fá nudd.
Inn af sundlauginni var stórt herbergi með glerhurð í stórum glervegg. Þar
inni var stórt hringborð og tréstólar í kring. Þar sátu konur í góðu yfirlæti
með hina ýmsu maska og leir á öllum líkamanum. Okkur brá dálítið fyrst,
héldum að konurnar væru með svona hræðilega húðsjúkdóma en svo sáum
við þær seinna skola þetta af sér undir sturtunum. I þessu herbergi var sauna.
Innaf því voru alls kyns vistarverur, m.a. bekkir þar sem konur voru nuddað-
ar með sérstökum hönskum, enn heitari saunastofa, venjulegar sturtur og
svo var mjög torkennileg mentholsturta. Úr henni kom ískalt vatn en um leið
og þú tókst andkaf við kalda gusuna spýttist með vatninu menthol þannig
að þú andaðir því að þér um leið.
Þegar við vorum búnar að vandra þarna úr einni lystisemdinni yfir í aðra
og synda naktar í lauginni þess á milli, þá hafði „foringinn" uppgötvað her-
bergi inn af mentholsturtunni. Var nú farið þangað inn en herbergið leyndist
vel því það var fullt af hvítri mentholgufu. Það var ótrúlegt að prófa það, því
þar inni varð maður að tileinka sér sérstaka öndun, mjög hæga og djúpa því
annars sveið mann í nefgöngin og hálsinn. En maður hafði það á tilfinning-
unni að maður hreinsaðist allur að innan (gott fyrir pípukerlingar!). Þegar
búið var að hvíla sig á bekkjunum var haldið á efri hæðina. Þar var hægt
að panta sér drykki og veitingar. Ekki var að tala um að við fengjum að bera
sjálfar drykkina heldur settumst við í djúpa stóla og okkur færðar veiting-
arnar. Það var ótrúleg vellíðan að sitja þarna og dreypa á bjór! Þarna var svo
hægt að fá hár-, fót- og handsnyrtingu til að fullkomna heimsóknina. Þarna
inni ríkti alveg ótrúleg stemmning sem ekki er hægt að lýsa. Svona blandin
systra- og vinkvenna stemmning. Allar konurnar sem þarna unnu voru svo
elskulegar og brosandi og allir gestir svo hljóðlátir, lásu eða töluðu saman
í hálfum hljóðum. Ég ráðlegg öllum sem fara til Parísar að koma sér í svona
baðferð. Yfirleitt er um kvenna- og karlatíma að ræða. Hér er heimilisfangið
á þessu tyrkneska baði sem við heimsóttum og þar er opið til 10 á kvöldin:
Hammam Saint-Paul
4, Rue des Rosiers
75004 París.
Svona tandurhreinar var við hæfi að fara á kínverskan veitingastað og þeg-
ar því borðhaldi lauk voru allir Parísarbúar komnir út á götur og torg að
dansa. En aðfaranótt þjóðhátíðardagsins er ein aðal skemmtunin í París. Þá
var búið að setja borð og stóla út á götur og allavega hljómsveitir spiluðu fyr-
ir dansi, glaðlega mússík. Þetta var ótrúleg stemmning. Ungir jafnt sem
aldnir, allir dansandi.
Nokkrar okkur voguðu sér út að République-torginu en forðuðu sér þaðan
fljótt því að svo mikið var um sprengingar og læti. Á götunum var svo dansað
framundir morgun, upp um alla gosbrunni og var stórkostlegt að sjá þel-
dökkar ungar mæður dansandi með ungabörnin í fanginu klukkan fjögur
um nóttina! Þessa nótt var farið seint að sofa og óþarfi að tilgreina það nánar
í smáatriðum.
14.07.
Þjóðhátíðardagurinn, síðasti dagurinn f París. Við vöknuðum snemma
við mikinn flugvélagný en það var vegna tilkomumikillar hersýningar sem
haldin var við Concorde-torgið og Champs Elysées. Við friðarsinnarnir
höfðum að sjálfsögðu ekki ætlað að horfa á þann ófögnuð. En stuttu seinna
heyrðist óhugnanlegur hávaði, einhver frekjulegur gnýr. Við þustum út í
glugga hótelherbergjanna og þá mátti sjá þessa líka risastóru skriðdreka aka
eftir Rue du Rivoli hvern af öðrum með byssukjaftana á lofti.
Ég hafði aldrei gert mér grein fyrir hve skriðdrekar eru stórir fyrr en ég sá
þá þarna. Þetta voru óhugnanleg ferlíki, eins og blokkir á hjólum og lifandi
menn sem stóðu utan á þessu. Það setti að manni óhug að sjá þá ryöjast
svona frekjulega áfram með þessum hræðilega hávaða.
Um kvöldið fréttum við að það sem þótti vekja hvað mesta athygli við her-
sýninguna fyrr um daginn var, hve margar konur tóku þátt í henni. Þær
höfðu aldrei verið fleiri. Þetta þóttu okkur konum og friðarsinnum slæmar
fréttir.
En þennan dag var flest lokað svo nokkrar tóku sig til og fóru í heilmikinn
göngutúr, aðrar ráfuðu um Pompidou-torgið. Um kvöldið fórum við á mjög
góðan veitingastað nálægt hótelinu okkar. Seinna þetta kvöld var svo setið
inni á einu hótelherberginu og kjaftað fram eftir nóttu.
15.07.
Um morguninn skiptist hópurinn. Þrjár fóru heim um London en við hin-
ar fórum vel birgar af nesti með lestinni til Amsterdam. Þar var stoppað í 3
klst. og nokkrar notuðu tækifærið og versluðu jarðarber og annað góðgæti
fyrir fjölskylduna heima. Hinar sátu í sólbaði.
Heim var svo komið um kvöldið í faðm fjölskyldunnar og bleijuþvottinn
eftir ótrúlega velheppnaða og skemmtilega ferð.
Ég þakka konunum skemmtunina og vonast bara til að sjá enn fleiri næsta
ár, því ég trúi ekki öðru en að þessi ferð hafi verið upphafið að árlegri
kvennaferð.
Hvað segiði um ferð til Rómar næsta sumar stelpur?
Helga Thorberg
8