Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 11

Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 11
ég farin að fara sendiferðir fyrir gömlu konuna, moka tröppurnar, fara með rusl. Allt til þess að geta horft á dótturina. Á fulltíða konu með barnshjarta, fuglsheila. Þykkjuþung, svört, feitlagin, dularfull horfir hún á mig myrkum augum og bablar eitthvað, sem ég skil ekki. Gamla konan er blíðan sjálf. Gráhærð með þunnar fléttur vafðar í hnút. í kjól, sem einu sinni hefur verið skræpóttur, en er nú blakkur og rósirnar máðar eftir marga þvotta. Alveg eins og hún sjálf. Hún og kjóllinn. Bæði hafa verið falleg, það sést. Hún þakkar mér aldrei fyrir greiðasemina með orðum, en gefur mér kleinu og volga mjólk, stýkur mér um vanga og segir fátt. Ég minnist þess ekki að hún hafi beðið mig um neitt. Ég hlýt að hafa fundið á mér hvað hana vantaði. Nema ég hafi ímyndað mér að ég létti undir með henni. Um síðir vekur samband mitt við mæðgurnar ugg móður minnar. Hún hefur séð mig hverfa inn um lágar dyrnar að húsakynnum mæðgnanna og víst er að ég er dug- legri að sendast fyrir þær en hana. „Heyrðu, vinan, hvað ertu alltaf að gera hjá gömlu konunni með aumingjann?" Sopi úr glasi, volg mjólk, góð. „Ég ætla ekki að skamma þig neitt, elskan, en ég vil helst ekki að þú sért að trufla þær svona á hverjum degi!‘ Uppreisnin fyllir brjóst mitt. „Ég trufla þær ekkert. Ég hjálpa bara stundum gömlu konunni að sendast og svoleiðis.“ „Það er nú gott, ljúfan mín, en..“ „Heyrðu vinan, tekurðu nokkuð pening fyrir það?“ „Nei, en ég fæ stundum kleinur!* Móðir mín hlær. Hún hefur aldrei kunnað að baka kleinur. Hlát- urinn ber þess merki. Hann er reiðilegur. Næstu daga held ég uppteknum hætti og heimsæki mæðgurnar og moka tröppurnar, hleyp út í mjólkurbúð og kaupi í matinn. Aur- ana telur gamla konan samviskusamlega ofaní og upp úr buddunni. Kleina. Starað og ekki talað. Heima gengur allt með eftirgangsmunum. Þar nenni ég ekki að sendast, sting undan túkalli fyrir nammi af mjólkurpeningunum. Móðir mín er orðin pirruð. „Heyrðu vinan, ef þú getur alltaf verið að sendast fyrir gömlu kerlinguna hérna úti, geturðu alveg eins farið fyrir mig.“ Núna stel ég tveimur túköllum — af mjólkurpeningunum. Nokkrir dagar líða þannig að ég fer allar ferðir fyrir bæði heimil- in. Það er býsna þreytandi þegar maður er bara átta. Ég samræmi ferðirnar. Fer fyrir mömmu, kem við hjá gömlu konunni, versla fyrir báðar, hleyp til gömlu konunnar, horfi á aumingjann, sé útundan mér að gamla konan telur upp úr buddunni, maula kleinuna. „Nú hefur eitthvað farið úrskeiðis, litla mín“, segir gamla konan, „það er of mikið af peningum í buddunni. Þú hefur líklega ruglað saman aurunum mínum og aurunum hennar mömmu þinnar. Hérna eru peningarnir hennar!1 Þetta er lengsta ræða sem gamla konan hefur haldið yfir mér og ég þegi og hleyp heim. Þar geng ég frá vörunum, hendi veski móður minnar á eldhúsborðið og fer inn í herbergið mitt. í miðjum ævintýr- um fimm á flótta kemur móðir mín inn: „Ég get látið það afskiptalaust, að þú þjónustir þetta sveitahyski, sýnkt og heilagt, en það er alveg óþarfi að ég sé að borga ofan í það matinn. Það vantar upp á!‘ „Það getur ekki verið!‘ „Ætlarðu að ljúga í þokkabót? Þú veist að það er ljótt. Látum vera að stela, einkum fyrir aðra, en skrök....“ „Ég er ekki að skrökva" Sárindi og reiði svíða háls og augu. „Gamla konan lét mig meira að segja hafa peninga sem þú áttir því ég hafði ruglast í afganginum. Hún telur alltaf upp úr budd- unni!‘ Mamma hlær stutt. Mér líkar ekki þessi hlátur. „Nú? Treystir hún þér ekki betur en þetta? Er þetta ekki týpiskt. Fólk stelur frá manni börnunum og vantreystir þeim svo...!‘ í fyrsta sinn á ævinni skil ég móður mína ekki. Og meir en það. Mér finnst hún óviðfelldin. Af tómri þrjósku fer ég út til gömlu konunnar. Beinustu leið. „Ég þarf ekkert meira!‘ Segir hún og horfir á mig þannig að ég finn að ég má ekki koma inn. „Má ég skoða köttinn?“ Það er yfirleitt þrautalendingin. Það hef- ur gamla konan sjaldan staðist. „Ekki núna, litla mín. Hann.... hann er úti!‘ Á leiðinni frá kofanum sé ég köttinn í glugganum og heyri ein- kennileg hljóð frá dótturinni, skrítnu konunni. Þegar ég kem inn er vinkona móður minnar í heimsókn. Tveir kaffibollar, öskubakki, reykur. Þær líta þannig á mig að ég veit strax að ég má ekki hlusta og fer inn. Fimm á flótta geta ekki hamið forvitni mína, svo ég læðist aftur fram og hlusta. Samt veit ég að það er ægilega ljótt... ....veit ekki hvað ég á að gera.... ....eltist við þetta pakk.... svona fólk.... ....gamla ekki öfundsverð .... fréttist alltaf.... ....vil ekki vera þekkt fyrir.umgangast svona fólk.... ...hræðilegt...fer sem betur fer.... Það sem ég ekki skil giska ég á. Auðvitað. Mamma er bara hrædd um mig. Henni þykir vænt um raig. Þær eru eitthvað skrítnar. Gamla konan og dóttirin sem er öðruvísifólk. Einhverntíma kom eitthvað ægilega ljótt fyrir hjá þeim. Eitthvað ægilega ljótt.... Kannski er þá betra að vera ekkert að trufla þær. Kannski vildi gamla konan það bara alls ekki. Eins og í dag. Áðan. En ég var búin að segjast ætla að koma og sendast fyrir hana. Til að sjá köttinn. Nei, dótturina. Skrítnu konuna. Aumingjann. Má svíkja það sem maður hefur lofað? Er það ekki ægilega ljótt.... Pons 11

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.