Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 13

Vera - 01.10.1983, Blaðsíða 13
Flora Tristan fæddist 1803, utan hjónabands. Faðir hennar var Perúmaður, svo mikið vissi hún, en þær mæðgur fréttu ekki meira af honum. Á æskuárum Floru gekk mikið á í Frakklandi. Ári eftir fæðingu hennar var Napoelon mikli krýndur keisari Frakkaveldis, Frakkar áttu í stöðugu stríði við Englendinga, Austurríkissmenn o.fl. þar til Napoelon var gjörsigraður við Waterloo 1815. Hugmynd- ir og ólga stjórnarbyltingarinnar miklu (1789) var enn á kreiki, borg- arastéttin var að festa sig í sessi og verkalýðsstéttin að vaxa. Frelsi, jafnrétti og bræðralag voru hugtök sem höfð voru á orði, en sást lítið af í framkvæmd. Stéttamunur var mikill, fátækt og eymd, andspæn- is auði og prjáli. Flora giftist ung og átti þrjú börn með manni sínum, en 22 ára gömul ákvað hún að fara frá honum. Hún fór að vinna fyrir sér með þjónustustörfum og einhvern veginn tókst henni að öngla saman fyrir ferð um Evrópu. Þegar hún stóð á þrítugu lagði hún upp í lang- ferð til Perú í leit að arfi og viðurkenningu föðurættar sinnar. Ekki varð Perúferðin til fjár, þegar hún kom til baka slipp og snauð og settist hún við skriftir til að koma reynslu sinni og skoðunum á blað. Hún skrifaði grein í verkamannablaðið La Phalange um aðstæður ógiftra kvenna í samfélaginu. Sú grein varð til þess að blaðið veitti henni fjárstuðning. 1838 gaf hún út bók um æsku sína, ferðalög og hjónabandið misheppnaða. Eiginmaðurinn (ekki var hægt að skilja að lögum) varð æfur og gerði tilraun til að skjóta hana til bana úti á götu. Hún slapp, en réttarhöldin sem á eftir fylgdu höfðu mikil á- hrif á hana. Reynt var að niðurlægja hana með öllum hugsanlegum ráðum til að réttlæta árásina, hvað var hún annað en lauslætisdrós? Eftir að réttarhöldunum lauk ákvað hún að einbeita sér að baráttu fyrir réttindum kvenna og því að verkafólk sameinaðist í samtökum til að krefjast réttar síns. Árið 1843 gaf hún út bæklinginn l’Union Ouvriére (Verkalýðs- sambandið hefur hann verið kallaður í norrænum þýðingum). Þar setti hún fram kenningar sínar um það hvers vegna nauðsynlegt sé að krefjast kvenréttinda, hvers vegna verkafólk eigi að sameinast og hvernig slík samtök eigi að starfa. Hún lét sér ekki nægja að gefa bókina út (sem þó reyndist erfitt), heldur lagðist hún enn í ferðalög til að boða skoðanir sínar. Á því ferðalagi lenti hún í ýmsu, var hand- tekin fyrir að valda óróa meðal verkafólks, var ásökuð um að vera njósnari atvinnurekenda o.fl. í ferðinni veiktist hún og þau veikindi drógu hana til dauða árið 1844. Rétturinn til vinnu Hugmyndir þær sem Flora Tristan setti fram í bæklingi sínum um Verkalýðssambandið urðu flestar ekki að veruleika fyrr en mörgum áratugum síðar. í stuttu máli má segja að þær hafi snúist um það hvernig hægt væri að bæta kjör verkafólks, bæði karla og kvenna. Hún sagði sem svo að ef allt verkafólk sameinaðist í einu alls herjar bandalagi og hver og einn greiddi lágmarksupphæð á mánuði, þá myndi safnast digur sjóður sem hægt væri að verja til slysabóta, at- vinnuleysisbóta og ekki síst til að gera foringjum verkafólks kleift að sinna baráttunni. Hún ræddi um mannréttindabaráttu og sagði að lögin tryggðu öllum (körlum) mannréttindi, en hvað um réttinn til vinnu? Þá kröfu taldi hún mikilvægasta, til að hægt væri að tryggja fólki mat og klæði. Þessar hugmyndir hennar voru síðar útfærðar af Marx og Engels og arftökum þeirra, en Floru Tristan hefur að litlu verið getið í verkalýðssögunni. Full réttindi kvenna Þegar Flora skrifaði bæklinginn sinn var umræða um kvenrétt- indi vart hafin, hún hófst að marki nokkrum árum eftir dauða henn- ar. Að vísu höfðu konur verið mjög virkar i frönsku stjórnarbylting- unni og kröfur voru settar fram um aukin réttindi kvenna. Einnig skrifaði Mary Wollstoncraft bókina A Vindication of the Rights of Women 1792, en þetta voru einstaka raddir, samhljóminn vantaði. í kaflanum um kvenréttindin byrjar hún á því að ávarpa karl- menn. Hún vill sannfæra þá um nauðsyn þess að konur öðlist fullt jafnrétti. Henni var ljóst að það var í höndum karla að veita réttind- in, því þeirra var valdið. Hún rekur hvernig kirkjan og löggjafinn hafa fordæmt og úthýst konum og nánast lýst þær óvita. Hún á von á því að einhvers konar kvennabylting brjótist út: „Konur geta dreg- ið lærdóma af því hvernig farið var með verkamenn, þegar 1789 kona sem reis gegn hefaum kvennanna (þ.e. byltingin mikla) rennur upp. Það þarf ekki miklar reikningskúnstir til að sjá að auðævin aukast ótakmarkað þegar kallað verður á konurnar — helming mannkyns — til að þær geti gefið af sameiginlegum gáfum sínum, styrk og dugnaðií’ Hún hafði greinilega trú á konum. Rökin sem hún notaði fyrir auknum réttindum minna mjög á það sem síðar sást hjá kvenréttindakonum t.d. hér á landi, að aukin menntun og betri kjör, myndu gera konur að betri eiginkonum og uppalendum: „Konan er verkamanninum allt“ sagði Flora. Það er konan sem heldur heimilinu saman. Hún lýsti aðbúnaði verka- kvenna í Frakklandi, sagði konur keppa innbyrðis um molana sem til þeirra féllu, þær yrðu harðar og bitrar, misþyrmdu börnum sín- um, væru innilokaðar og fávísar, þær byggju oft í ástlausum hjóna- böndum (því kona varð að giftast til að sjá sér farborða). Meðan piltarnir voru sendir í skóla sátu stúlkurnar heima og hún spyr hvort margar þeirra stúlkna sem fylla hóruhúsin og fangelsin hefðu ekki óskað þess að mæður þeirra hefðu kennt þeim eitthvað til gagns. „Allt er þeta samfélaginu að kenna“ segir hún. „Kona verkamanns- ins býr við stöðuga niðurlægingu, hún er nánast þræll“. Hún segir: „Ég endurtek það, konan er verkamanninum allt. Sem móðir ber hún ábyrgð á uppeldi hans. Það er frá henni og henni einni sem hann lærir það sem er svo mikilvægt: Þekkingu á lífinu, öllu þessu sem kennir okkur að lifa á sómasamlegan hátt, bæði gagnvart okkur sjálfum og því umhverfi sem við lifum í. Sem unnusta hefur hún áhrif á hann sem ungan mann, og hvað getur falleg og elskuð stúlka ekki gert. Sem eiginkona hefur hún áhrif á þrjá fjórðu hluta lífs hans og að lokum hefur hún sem dóttir elli hans á valdi sínui* Og síðar segir hún: „Það er því mjög mikilvægt ef takast á að bæta kjör verkalýðsins, bæði efnahagslega og andlega, að alþýðu- konur fái skynsamlegt og traust uppeldi frá byrjun. Uppeldi sem megnar að þroska hæfileika þeirra, svo að þær verði duglegar verka- konur í sínu fagi, góðar mæður sem geta verið börnum sínum það sem í blöðunum er kallað ókeypis kennarar, og að þær geti auk þess lyft hugum þeirra karla sem þær annast frá vöggu til grafar, á hærra planí’ Niðurstaða henna var sú að réttindi kvenna styrki verkalýðsbar- áttuna, bæti hag heimilanna og uppeldi barnanna, að ekki sé talað um bætta líðan kvenna. Þær eigi að eiga aðgang að öllum stofnun- um og fundum hins nýja verkalýðssambands, ganga í það og berjast fyrir sameiginlegum málstað. Flora Tristan var að leita leiða til að létta oki þrældóms og kúgun- ar af konum. Sú leið lá að hennar dómi gegnum samstöðu hinna fá- tæku, en um leið skoraði hún á konur hvar í stétt sem þær stóðu að ganga til liðs við réttlætið. Konur sem ættu til svo ríka samúð, kær- leika og fórnarlund: „Konur, þið sem eruð fullar af þeim heilaga eldi sem við köllum trú, undirgefni, hæfileika og virkni, gerist formæl- endur Verkalýðssambandsins“. Hún sagði líka: „Vegna barnsfæðinga er konan álitin óæðri, upp- eldið gerir hana að þræl og skyldurnar að kripplingi. Kúgaðasti karlmaður getur kúgað konuna sína, hún er verkamaður í þjónustu hansí’ Þannig hugsaði Flora Tristan fyrir 140 árum, margt hefur breyst í okkar hluta heims síðan þá, en því miður ekki nógu margt. Kristín Ástgeirsdóttir Helmlldir: Flora IVistan: Arbejdernes Forbund, Forlaget Hönsetryk 1982. R.R. Palmer — J. Colton: Nya tidens varldhistoria, Svenska bokförlaget 1965. Aslaug Moksnes: Kvinner pá barrikadene, Likestillingsrádet 1974. 13

x

Vera

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vera
https://timarit.is/publication/858

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.